Saga - 1999, Síða 317
RITFREGNIR
315
um stað kallar hún þorrablótin (endur)uppfundna hefð og vísar í fræga
bók, The Invention of Tradition (bls. 104). Annars staðar talar hún um þau
sem samfellda hefð, ævagamla helgiathöfn, í ætt við fórnarhátíð. Fómar-
hátíðir em ævinlega uppbót fyrir mannfóm, segir hún, og þannig eru ís-
lendingar eiginlega að éta sína eigin fortíð og þar með sjálfa sig á þorra-
blótunum. Til þess að lesendur missi síður lystina á þorramat má taka
fram að það á líka við sögulestur Islendinga („consumption of history"),
að hann „may... be interpreted metaphorically as an instance of cannibal-
ism" (bls. 108).
Stundum fannst mér að Hastrup væri að leika þann gamla leik að
skemmta siðmenntaða heiminum með kynjasögum af fjarlægri eyju. En
raunar er víða óljóst hvort lýsingar hennar eiga við Islendinga sérstak-
lega eða Islendinga eins og aðra. Stundum tekur hún fram að á Islandi sé
eitthvað „much more so than in my native Denmark" (bls. 23). Annars
staðar rekur hún niðurstöður sínar um Islendinga og bætir svo við „as
elsewhere in the world" (bls. 110). Enn annars staðar verða staðhæfingar
hennar óljósar af því að ekki kemur fram hvorn kostinn hún á við. Til
dæmis segir hún (bls. 170): „although 'honour' is no longer on the lips of
the Icelanders, as a principle it seems to be at work." Þetta á örugglega við
hvar sem fólk er, svo að setningin sætir litlum tíðindum nema hún merki
að Islendingar séu sómakærari en annað fólk. A hinn bóginn er það ekki
sagt ótvírætt, svo að höfundur taki ábyrgð á.
Mannfræði er reist á stórkostlegri hugmynd, að uppgötva og sýna sam-
hengið í mannlífinu, hvar og hvenær sem er í heiminum. En hún hefur
lent dálítið á villigötum í háskólum 20. aldar, eins og fleiri fræðigreinar
sem skipta endanlega aðeins máli að því leyti sem ósérfróðir viðtakendur
skilja niðurstöður þeirra og fallast að vissu marki á þær. Bók Kirstenar
Hastrup er mikið skrifuð inn í lokaðan mannfræðingaheim, þar sem það
eitt skiptir máli að komast að fræðilegum niðurstöðum handa öðrum
fræðingum, hitt engu hvort þær eru sennilegar eða skiljanlegar í augum
annarra. Eitt dæmi þess, umfram það sem er rakið hér að framan, er sá
siður höfundar að vísa til rita um merkingu hugtaka, án þess að skýra mál
sitt. Dæmi má taka úr umræðu um seljabúskap Islendinga (bls. 138), sem
Hastrup segir hafa verið „associated with danger, in the classical sense
of Mary Douglas (1966)." Ef þessi tilvísun merkir eitthvað, þá vitum við
ekki hvað Hastrup á við með „danger" nema við vitum hvaða merkingu
Douglas gaf hugtakinu, þá eiga ósérfróðir lesendur um tvennt að velja:
að lesa heila bók eftir Douglas (því hér er ekki verið að vísa í blaðsíður)
eða láta leyndardóminn fara framhjá sér. Eg valdi seinni kostinn, í þessu
tilviki og fleiri, svo að orð mín verða að metast sem leikmannsþankar.
Gunnar Karlsson