SunnudagsMogginn - 09.05.2010, Blaðsíða 22
22 9. maí 2010
Þ
að hefur gengið á ýmsu í starfi
Björgólfs Jóhannssonar, for-
stjóra Icelandair Group, und-
anfarin misseri. Og steininn tók
úr þegar fór að gjósa í Eyjafjallajökli, sem
varð til þess að flugsamgöngur lömuðust í
Evrópu. En var brugðist of hart við af
flugmálayfirvöldum?
„Ég veit það ekki,“ svarar Björgólfur.
„Sumir hafa haldið því fram að menn hafi
verið of varkárir. Það má kannski skrifa
það á þekkingarleysi, ef menn túlkuðu
niðurstöður mælinga of hart. En auðvitað
er mjög auðvelt að halda því fram og það
sleppur á meðan ekkert kemur fyrir. Ég
held að oft sé betra að fara yfir málin með
hægð. Í framtíðinni hljóta menn að gera
kröfur um að bestu upplýsingar sem völ er
á liggi fyrir hverju sinni. Undirbúningur
virðist til dæmis ekki hafa verið nægur hjá
hreyflaframleiðendum, þannig að þeir
gætu tekið af skarið, hvað mætti og hvað
ekki. Einnig þarf að rannsaka öskumagnið
í gosi af þessu tagi. Það er með þetta, eins
og annað, að menn læra af reynslunni.
Kannski verður staðið öðruvísi að málum í
framtíðinni. Ég hef ekki hugmynd um
það. En öryggiskrafan er alltaf númer
eitt.“
– Umræðan hefur verið mikil í Evrópu
um ábyrgð stjórnvalda?
„Fjárhagslegur skaði var gríðarlegur
fyrir mörg flugfélög. Það kom fram ný-
verið að talið væri að 1,7 milljarðar Banda-
ríkjadala hefðu tapast þessa daga sem Evr-
ópa var nánast lokuð. Það setur strik í
reikninginn hjá mörgum félögum. Og ekki
mátti nú flugheimurinn við því.“
– Eru ríki farin að veita flugfélögum
fjárhagslega aðstoð?
„Einhver hafa gert kröfu um það, en ég
veit ekki hvernig það þróast.“
– Hvað fannst þér um yfirlýsingar for-
setans?
„Mér fannst þær ekki heppilegar, bara
alls ekki,“ segir Björgólfur. „Sérstaklega í
ljósi þess að sérfræðingar, sem hafa vænt-
anlega meiri þekkingu á þessu sviði en
hann, hafa ekki látið svona stór orð fjalla
um hættuna á Kötlugosi. Þeir hafa heldur
ekki stigið fram og tekið undir hans orð.
Auðvitað veltir maður því fyrir sér hvort
það sé hans hlutverk að vera með slíkar
yfirlýsingar. Hann fullyrti að það yrði
Kötlugos, það væri bara spurning hvenær,
og það eitt dugar til að fæla fólk frá. Þetta
var klárlega mjög óheppilegt fyrir ferða-
þjónustuna. Útlit var fyrir að þetta yrði
með betri ferðamannasumrum, en það er
ljóst að það er undir högg að sækja í því og
við verðum að berjast til að láta það ræt-
ast.
Ég geri líka athugasemdir við yfirlýs-
ingar hans í kjölfarið, en þá virtist hann
gefa í skyn að þeir sem gagnrýndu um-
mæli hans, gerðu það út frá skammtíma-
hagsmunum. Það stenst ekki skoðun að
segja það við aðila í ferðaþjónustu, sem
hafa unnið markvisst að aukningu ferða-
manna í landinu og ávallt með langtíma-
hagsmuni að leiðarljósi, til dæmis hvað
varðar sjálfbærni og að starfa í fullri sátt
við náttúruna. Þetta er því á allan hátt
mjög óheppilegt og síst til þess fallið að
hjálpa Íslandi til lengri tíma. Það hefur
ekkert með það að gera að segja sannleik-
ann eða ljúga, því ég get ekkert dæmt um
sannleiksgildi orða forsetans þegar hann
talar um að Katla gjósi næstu 5 eða 10 árin.
Ég get alveg eins fullyrt að það gjósi ekkert
næstu 30 árin. Ég get líka sagt að þetta gos
sé meira en æfing, því að Kötlugosið verði
lítið miðað við þetta.“
– Hvernig hafa bókanir þróast?
„Bara ágætlega,“ svarar Björgólfur og
bætir svo við ákveðinn í bragði: „Það er
auðvitað ekkert hægt að velta þessu fyrir
sér núna. Gosið er nýbúið og ljóst að það
varð katastrófa þegar það byrjaði, alveg
eins hjá okkur og öllum öðrum. Þetta er
eitt af því sem á eftir að koma upp úr hatt-
inum þegar um hægist á ný. Við vorum í
mjög góðri stöðu heilt yfir í fyrirtækinu og
sumarið leit vel út. En nú hefur skapast
óvissa um hvernig sumarið þróast. Það er
of snemmt að segja til um það. Ég bind
vonir við þetta markaðsátak og hef trú á
að það geti snúið þróuninni við. Það er al-
veg ljóst að hægt hefur mjög á straumi
ferðamanna til Íslands, en það hafa líka
myndast tækifæri. Þannig að maður vill
ekki blása svart á vegginn. Við eigum
tækifæri til að vinna okkur upp úr þessu
og vekja áhugann að nýju. Og þetta á ekki
bara við um Icelandair, heldur alla sam-
stæðuna, líka hótelstarfsemina, ferða-
þjónustuna og vöruflutningana.“
– Tækifærin fylgja þá öllu umtalinu?
„Þetta var alveg einstakt. Við fáum ekki
oft svona mikla umfjöllun um Ísland.“
– Geturðu slegið á skaðann sem þið haf-
ið orðið fyrir vegna eldgossins?
„Við höfum ekki getað slegið á hann af
neinu viti. Við gáfum út að samstæðan
hefði tapað 100 milljónum á dag – það er
eftir að gera það upp. En eitt er skaðinn til
skamms tíma og annað hvernig við spilum
úr þessari stöðu til langs tíma. Á því veltur
heilmikið, bæði staða okkar félags og
einnig þjóðarbúsins. Sem betur fer ætlar
ríkisstjórnin að taka þátt í þeirri vinnu og
koma af fullum krafti inn í markaðs-
setningu á Íslandi. Stjórnvöld munu leggja
350 milljónir inn í átakið og fyrirtæki í
greininni, í ferðaþjónustu, koma með
annað eins og á móti. Þannig að ráðist
verður í landkynningarátak upp á 700
milljónir, sem eru engir smáaurar. Þegar
svona gengur, þá hef ég fulla trú á að við
náum að gera þetta að fínu ferðasumri.“
– Það hlýtur að hafa mætt mikið á
starfsfólki síðustu daga og vikur?
„Það er alveg með ólíkindum hvernig
tókst að spila úr stöðunni hjá félaginu. Í
fyrsta lagi að ná að fljúga svona mikið.
Ameríka var opin og alltaf var flogið inn á
staði sem opnuðust í Evrópu. Svo var stóra
málið þegar Keflavíkurflugvöllur lokaðist,
en þá fluttum við leiðarkerfið til Glasgow,
þar sem við tókum Ameríkuvélarnar inn,
og komum fólki þaðan til Evrópu. Svo
höfðum við viðkomu á Akureyri. Það var
enginn hægðarleikur að gera þetta og það
myndaðist vertíðarstemning. Þetta er lítið
félag og við höfum sagt að styrkurinn sé
sveigjanleikinn. Það sannaðist þarna. Það
að starfsfólkinu skyldi takast að halda
leiðarkerfinu opnu sýnir að þetta það er
allt í úrvalsdeild, framlínan, flugmenn-
irnir, hlaðmennirnir, hvar sem fólk er í
fyrirtækinu.“
– Hvernig viðbrögð fenguð þið að utan?
„Það voru jákvæð viðbrögð. Mynd-
skeiðið á Youtube er auðvitað frægt þegar
gæinn kom inn í fréttina og sagði: „I hate
Iceland!“ Auðvitað hugsa okkur einhverjir
þegjandi þörfina. En ég held að Icelandair
hafi almennt tekist að vinna sig í álit hjá
viðskiptavinum og ég held að það hafi já-
kvæð áhrif á orðsporið í framhaldinu. Það
byggist náttúrlega á því, að fólk vann við
gríðarlega erfiðar aðstæður, náði að leysa
það mjög vel og það verður ekki gert nema
með afburðafólki.“
– Endurskipulagningin á félaginu felst
öðrum þræði í breytingu á skuldastöðu. Í
hverju felst hún?
„Við höfum sagt að félagið var of skuld-
sett alveg frá fyrsta degi, þegar það kom á
markað, en þá seldi FL Group þennan
rekstur frá sér og inn í nýtt félag, sem þá
var stofnað. Skuldsetningin var strax alltof
mikil og uppbygging efnahagsreiknings-
ins röng, alltof hár hluti skulda til skamms
tíma. Verkefnið var að leysa úr því, en því
miður tókst ekki að ljúka því ferli í tæka
tíð. Það fór að hökta í bankakerfinu seinni
hluta árs 2007 og lokað var fyrir fjár-
mögnun árið 2008.
Við höfum unnið að ýmsum lausnum
allt frá falli bankanna, þannig að félagið
geti staðið við sínar skuldbindingar. Að-
gerðirnar eru tvíþættar, annars vegar að
við tökum út eignir í félaginu og flytjum í
Öryggis-
krafan alltaf
númer eitt
Það er í mörg horn að líta hjá Björgólfi Jóhanns-
syni, forstjóra Icelandair Group. Óvissan er
mikil út af eldgosinu, sem setti flugsamgöngur úr
skorðum um allan heim. En einnig vegna end-
urskipulagningar á rekstri félagsins, breytingar
á skuldastöðu og aukningar á hlutafé. Óhætt er
að segja að félagið standi á tímamótum.
Pétur Blöndal pebl@mbl.is