Morgunblaðið - 28.01.2010, Blaðsíða 31
Minningar 31
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 28. JANÚAR 2010
✝ Bárður Brynjólfs-son fæddist 10.
janúar 1928 á
Þykkvabæjarklaustri
í Álftaveri. Hann lést
á líknardeild Landa-
kotsspítala fimmtu-
daginn 14. janúar sl.
Foreldrar hans
voru Brynjólfur
Oddsson og Guðrún
Þórðardóttir. Bárður
átti þrjú hálfsystkin.
Guðjón Bárðarson, f.
18. apríl 1915, d. 17.
júní 1999, Þuríður
Bárðardóttir f. 25. nóvember 1913,
d. 20. júní 1988, og Þórhildur, f. 8.
júní 1916, d. 7. júlí 1988. Alsystkin
Bárðar voru Gísli, f. 13. mars 1921,
d. 7. febrúar 2008, Halldóra, f. 7.
nóvember 1922, d. 2. ágúst 2008,
Hilmar Jón, f. 22. október 1924, d.
23. september 2001, Katrín, f. 14.
september 1926, d. 2. janúar 2004,
og Oddur, f. 2. júní 1930. Uppeld-
issystir Bárðar var Guðríður Jóns-
dóttir, f. 25. febrúar 1931.
10. janúar 1956 gekk Bárður að
eiga Rósu Magnúsdóttir frá Lágu-
Kotey í Meðallandi. Hún er fædd
13. apríl 1932. Bárður og Rósa
eignuðust þrjár dætur. Margrét, f.
30. apríl 1957, d. 17. ágúst 2005.
Eiginmaður hennar var Bjarni Ás-
kelsson. Þau eignuðust tvo syni,
Ágúst Elvar, sam-
býliskona er Hildur
María Valgarðsdóttir.
Þau eiga eina dóttir,
Margrét Rós. Áskell
Fannar, sambýlis-
kona hans er Bryndís
Eir Kristinsdóttir.
Guðrún Brynja f. 31.
október 1960. Eigin-
maður hennar er
Rúnar Ásbergsson.
Þau eiga tvo börn,
Tinna Berg, sambýlis-
maður hennar er
Marinó Magnús Guð-
mundsson og Ómar Berg. Ágústa, f.
13. apríl 1967. Eiginmaður hennar
er Einar Jónsson. Þau eiga tvo
börn, Svein og Ástrós.
Þau Bárður og Rósa hófu sinn
búskap í Vestmannaeyjum. Bárður
starfaði lengst af sem vörubílstjóri,
fyrst í Vestmannaeyjum en síðan í
Þorlákshöfn, en þangað flutti hans
ásamt fjölskyldu sinni vorið 1967.
Eftir að hann hætti akstri stundaði
hans ýmis störf. Síðustu árin áður
en hann lét af störfum vann hann
m.a. við afskurð af netum og við
netafellingar. Árið 1999 fluttu þau
hjónin til Reykjavíkur og bjuggu
sér heimili á Dalbraut 16.
Útför Bárðar fer fram frá Laug-
arneskirkju í dag, fimmtudaginn
28. janúar, kl. 13.
Kæri pabbi
Nú hefur þú fengið hvíldina. Á
þessari stundu eru óteljandi minn-
ingar sem rifjast upp. Ferðir á
Þykkvabæjarklaustur, ferðalög um
landið, stundirnar í vörubílnum,
stússast í hesthúsinu. Allt eru þetta
minningar sem ég ylja mér við. Þú
varst einstakur faðir og ekki síður
afi. Á mínum yngri árum var ég oft
að sniglast í kringum þig þar sem þú
varst við vinnu þína eða að sinna
áhugamálinu, garðinum. Þú leyfðir
mér að taka þátt og kenndir mér
vinnubrögðin. Þegar ég var ungling-
ur fórst þú út í hestamennsku og
fékk ég að vera með. Stundunum í
hesthúsinu mun ég seint gleyma.
Ég mun aldrei gleyma ferðinni
okkar austur í Álftaver, þegar við
fórum með hestana í sumarbeit.
Hestakerran var hengd aftan í Volvo
og síðan var lagt af stað. Ferðin gekk
vel, en þegar við komum að Gatnabrú
lentum við í lausamöl og ljóst var að
Volvo hefði ekki upp. Við brugðum
því á það ráð að taka hestana úr kerr-
unni og ég teymdi þá upp á meðan þú
keyrðir í rólegheitum á eftir mér. Í
Vík stoppuðum við síðan í kaffi og
kökum hjá Kötu, systur þinni, áður
en haldið var síðasta spölinn yfir
Mýrdalssand.
Í Þorlákshöfn áttuð þið mamma
heima í 32 ár. Það átti að vera stutt
stopp. Þið voruð afskaplega samhent
hjón og þrátt fyrir ýmsa erfiðleika
sem á ykkur dundu hélduð þið alltaf
áfram. Garðurinn í kringum Reykja-
braut 17 var algjört listaverk. Sum
tré og plöntur sem þið mamma voruð
með í garðinum datt ekki nokkrum
manni í hug í Þorlákshöfn að hægt
væri að rækta þar, en með alúð og
natni tókst ykkur það.
Síðustu æviár þín voru þér erfið.
Árið 2005 sástu á eftir elstu dóttur
þinni, Margréti. Þú gast ekki verið
viðstaddur útför hennar vegna að-
gerðar, en þú studdir okkur og
stappaðir stálinu í okkur. Árið 2007
varð fyrst vart við meinið sem síðar
átti eftir að draga þig til dauða. Í jan-
úar 2008 hélstu upp á áttræðisafmæl-
ið þitt með því að bjóða allri fjöl-
skyldunni út að borða. Það var sæll
og ánægður pabbi, tengdapabbi, afi
og langafi sem sat til borðs með fjöl-
skyldu sinni þetta kvöld. Það var
yndisleg stund sem við fjölskyldan
áttum með þér síðasta Þorláks-
messukvöld, þegar við hittumst öll í
árlegu hangikjöti hjá þér og mömmu.
Þrátt fyrir að þú værir orðinn mikið
veikur varstu með okkur allt kvöldið.
Spjallaðir við barnabörnin og litlu
langafastelpuna þína, Margréti Rós.
Þú og mamma eruð búin að fylgja
mér alla ævi og það er erfið tilhugsun
að nú sért þú horfin á braut. Síðustu
dagana hef ég rifjað upp margar
minningarnar með mömmu og sagt
börnum mínum sögur af þér og þínu
lífi. Sögurnar munu lifa áfram.
Barnabörnin minnast þín sem góðs
afa.
Elsku pabbi, nú er komið að
kveðjustund. Mig langar að kveðja
þig með fyrstu hendingunni úr sálm-
inum sem þú spilaðir svo oft á org-
elið,
Ó, þá náð að eiga Jesú
einkavin í hverri þraut.
Hvíl í friði,
Ágústa.
Elsku afi.
Núna er kominn sá tími að ég kveð
þig með tárum og söknuði en um leið
rifjast upp allar góðu minningarnar
sem við áttum saman. Allar voru þær
yndislegar og ógleymanlegar, t.d.
þegar við vorum saman á Reykja-
braut 17 að dytta að litla bóndabæn-
um bak við hús eða þegar við fórum
að huga að uppskerunni þinni og
fengum okkur nýjar gulrætur beint
úr garðinum. Ógleymanlegar eru
þær útilegur sem við fórum í saman
og var alltaf í uppáhaldi að fá að gista
í tjaldvagninum hjá Bárði afa og
Rósu ömmu. Ég geymi óteljandi
minningar í hjarta mínu um þig og
þær stundir sem við áttum saman
elsku afi. Við sátum ófáar stundir
saman á Dalbraut og horfðum á
Leiðarljós, fótbolta eða ræddum
saman um allt milli himins og jarðar.
Þegar veikindin tóku að herja á þig
varstu alltaf jafn sterkur og dugleg-
ur, sagðist ávallt hafa það fínt, værir
bara svolítið latur. Ég reyndi að vera
dugleg við að heimsækja þig og Rósu
ömmu og hafði oftar en ekki með-
ferðis sykurlaust súkkulaði sem við
gæddum okkur á saman með kaffi-
sopanum. Þegar sú stund rann upp
að þú lagðist inn á Landakotsspítala
kom ég í heimsókn til þín daglega.
Við sátum og horfðum á fótbolta eða
héldumst í hendur og sögðum ekki
neitt. Ég trúi því, elsku afi, að þér líði
betur á þeim stað sem þú ert á núna
og sért eflaust duglegur að líta eftir
okkur hinum. Þú varst besti afi sem
nokkur hefði getað hugsað sér og ég
mun sakna þín alla tíð.
Þín afastelpa,
Tinna Berg.
Sennileg speglar fátt betur okkar
innri mann en framkoma okkar.
Sumir sýna öllu og öllum hroka og
stærilæti en aðrir koma fram með
góðvild og af ljúfmennsku. Bárður er
við kveðjum hér í dag var í hópi
þeirra er tilheyrðu seinni hópnum.
Vissulega gat hann verið fastur fyrir
en þær skoðanir voru settar fram á
vel grundaðan hátt og án yfirgangs.
Er undirritaður starfaði að sveit-
arstjórnarmálum í Þorlákshöfn var
tekinn upp sá siður að velja fegursta
garðinn í bænum. Fenginn var
þekktur garðyrkjumaður sem for-
maður og síðan var farið garð úr
garði. Eftir ítarlega skoðun var garð-
ur þeirra Rósu og Bárðar valinn sem
fegursti garðurinn. Þar fór allt sam-
an, fallegur trjágróður, vel hirt beð,
fallegur grasbali og vel gerðir göngu-
stígar. Snyrtimennskan var allsráð-
andi.
Lungann af sinni starfsævi starf-
aði Bárður sem vörubifreiðastjóri og
var gætinn og farsæll ökumaður. Bif-
reiðar hans voru ávallt vel hirtar og
báru vitni um snyrtimennsku hans.
Með Bárði er genginn grandvar og
samviskusamur maður sem nálgaðist
fólk og verk sín af samviskusemi og
með virðingu. Við Birna sendum
Rósu, Brynju og Ágústu og fjölskyld-
um þeirra okkar dýpstu samúðar-
kveðjur. Blessuð sé minning Bárðar
Brynjólfssonar.
Þorsteinn Garðarsson.
Mig langar í fáum orðum að minn-
ast vinar míns Bárðar Brynjólfsson-
ar sem lést 14. janúar sl.
Samstarf okkar stóð í um áratug,
en hann sá um að fella og skera af
þorskanetum fyrir bát minn Gulltopp
ÁR – 321.
Það þurfti ekki að hafa áhyggjur af
þeim verkum sem Bárði voru falin,
slík var vandvirknin, snyrtimennsk-
an og samviskusemin í öllu því sem
hann tók sér fyrir hendur. Það var
gaman að koma í bílskúrinn til þeirra
hjóna Bárðar og Rósu þar sem þau
með einstökum dugnaði og sam-
heldni unnu netavinnuna í stórum
stíl við frekar þröngar aðstæður. En
með góðu skipulagi og útsjónarsemi
tókst þeim að koma þessu öllu fyrir
jafnvel þó að fleiri útgerðir væru í
viðskiptum við þau.
Bárður var mjög áhugasamur um
hvernig gekk að fiska í netin frá hon-
um og fylgdist hann vel með því
hvernig okkur gekk að afla í sam-
anburði við aðra báta og var jafnan
stoltur af sínum bát sem ég veit að
hann hafði sterkar taugar til öll árin.
Þau ár sem þau Bárður og Rósa
sáu um veiðarfærin voru ákaflega
skemmtilegur tími sem ég er mjög
þakklátur fyrir og þær góðu minn-
ingar sem þeim tengjast.
Kæra Rósa, við hjónin vottum þér
og fjölskyldu þinni innilega samúð á
þessum erfiða tíma.
Sveinn Steinarsson.
Okkur systkinin langar að kveðja
Bárð, móðurbróðr okkar, með örfá-
um orðum.
Snyrtimennska og rólegheit ein-
kenndu frænda okkar alla tíð. Við
munum eftir honum í heimsóknum á
Kirkjuveginum í Vík, með greiðuna á
lofti og oft í ljósum fötum. Þótt hann
væri bróðir mömmu var fas þeirra
ólíkt. Gjarnan var mamma á mikilli
hraðferð og víst að ljós klæðnaður
hefði ekki hentað henni eins vel og
Bárði.
Raggi og Pétur áttu ógleymanlega
ferð með Bárði og fjölskyldu, foreldr-
um okkar og fleiri skyldmennum,
austur yfir Skeiðarársand í júlí 1974
við opnun hringvegarins. Þrátt fyrir
að ýmislegt kæmi upp á við akstur á
malarvegum þeirra tíma, hélt Bárður
ávallt ró sinni. Þegar komið var á
áfangastað í Atlavík, áttum við góðar
stundir við leiki, söng og aðra
skemmtun.
Bárður og Rósa voru miklir fé-
lagar og af okkur alltaf nefnd í sömu
andránni. Þau höfðu gaman af því að
ferðast og um árabil fóru þau reglu-
lega með foreldrum okkar á Kirkju-
bæjarklaustur, með tilheyrandi
heimsóknum til Bryndísar, og að
Heiðarvatni í heimasmíðaða fellihýs-
inu hans pabba. Þau áttu það sameig-
inlegt með pabba og mömmu að hafa
gaman af ferðalögum, veiði, tónlist
og dansi og nutu þess við hvert tæki-
færi.
Lína hafði mest samskipti við Bárð
af okkur systkinum. Með árlegri
fýlaveislu hennar, heimsóknum og
símtölum náði Bárður að fylgjast
með fjölskyldum okkar og vissi því
ávallt hvað við vorum að fást við,
jafnvel þótt ætla mætti að veikindin
hefðu áhrif á hann síðustu misserin.
Í haust komst Bárður síðast í
heimsókn á Kirkjuveginn á leið sinni
austur í Álftaver. Þar fékk hann ný-
bakaðar Kötu-flatkökur þrátt fyrir
að upphaflegu bakararnir hefðu ein-
ungis verið með í anda. Eitt aðaler-
indi hans austur var að sjá altarisdúk
í Þykkvabæjarklausturskirkju sem
Rósa hafði saumað og þau gefið
kirkjunni.
Við systkinin þökkum Bárði sam-
fylgdina á liðnum árum og erum þess
fullviss að hans bíða góðar móttökur
á nýjum stað.
Okkar innilegustu samúðarkveðj-
ur sendum við Rósu, Brynju, Rúnari,
Ágústu, Einari, Bjarna og fjölskyld-
um þeirra.
Bryndís, Egilína, Pétur
og Ragnar.
Bárður Brynjólfsson
✝
Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma, lang-
amma og langalangamma,
HÓLMFRÍÐUR JÓNSDÓTTIR,
Sveinseyri,
Tálknafirði,
lést á Sjúkrahúsinu á Patreksfirði þriðjudaginn
19. janúar.
Útförin fer fram frá Stóra-Laugardalskirkju laugar-
daginn 30. janúar kl. 14.00.
Halldóra Bjarnadóttir, Magnús Guðmundsson,
Pétur Bjarnason, Greta Jónsdóttir,
Birna Jónsdóttir, Hannes Bjarnason
og ömmubörnin.
✝
Elskuleg móðir okkar, amma og langamma,
KRISTRÚN GUÐJÓNSDÓTTIR,
Stóragerði 8,
Reykjavík,
andaðist á Landspítalanum í Fossvogi mánudaginn
11. janúar.
Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Innilegar þakkir til allra þeirra er sýndu okkur samúð
og hlýhug.
Heiðar Magnússon,
Guðmundur Magnússon,
Heiðrún P. Heiðarsdóttir, Garðar G. Gíslason,
Gísli Garðarsson,
Karitas Rán Garðarsdóttir,
Sæbjörn Hilmir Garðarsson.
✝
Eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir, amma
og langamma,
STEINUNN JÓHANNSDÓTTIR,
Goðatúni 12,
Garðabæ,
lést á heimili sínu mánudaginn 25. janúar.
Útför hennar fer fram frá Vídalínskirkju föstudaginn
5. febrúar kl. 15.00.
Ragnar Ragnarsson,
Júlíana Magnúsdóttir,
Jóhanna B. Magnúsdóttir,
Sveinn Magnússon, Guðrún Hinriksdóttir,
Kristján Már Magnússon, Snjólaug Brjánsdóttir,
Ingibjörg Magnúsdóttir, Sigurður Á. Guðmundsson,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir,
bróðir, afi og langafi,
ÞÓRÐUR JÓHANN EGGERTSSON,
Doddi í Dal,
Borgarnesi,
verður jarðsunginn frá Borgarneskirkju laugardaginn
30. janúar kl. 14.00.
Þeim sem vildu minnast hans er bent á Dvalar-
heimili aldraðra í Borgarnesi.
Sólveig Árnadóttir,
Eggert Margeir Þórðarson, Júlíana Júlíusdóttir,
Theódór Kristinn Þórðarson, María Erla Geirsdóttir,
Guðrún Þórðardóttir, Gylfi Björnsson,
Ragney Eggertsdóttir,
afa- og langafabörn.