SunnudagsMogginn - 14.11.2010, Blaðsíða 30
30 14. nóvember 2010
Jólabækurnar
Þ
etta er fyrst og fremst örlagasaga, miklu
frekar en lýsing á ferlinum í smáat-
riðum,“ segir Þórunn Sigurðardóttir um
ævisögu Kristjáns Jóhannssonar tenór-
söngvara sem hún reit og nýkomin er út hjá For-
laginu. „Hann er heilmikið að gera upp við Guð og
menn í bókinni og er mjög einlægur en líka gagn-
rýnn á sjálfan sig.“
Hún segir Kristján lítið hafa breyst í gegnum
tíðina. „Hann er eiginlega alveg eins og hann var
þegar hann fór frá Akureyri fyrir meira en 30 ár-
um en menn eiga kannski von á svolítið annarri
týpu miðað við það líf sem hann hefur lifað. Það er
auðvitað ákaflega sérstakt og þessir ítölsku ten-
órar eru eiginlega deyjandi kynstofn. Sá tími að
menn séu að syngja fyrir 20 þúsund manns og séu
með allt sitt líf í pínulitlu hljóðfæri í hálsinum er
kannski bara búinn.“
Í bókinni er stiklað á stóru á ferli Kristjáns og
lífi, sem hefur ekki alltaf verið dans á rósum að
Þórunnar sögn. „Hann er þríkvæntur, en hann
missti miðkonuna á sínum tíma. Svo veiktist nú-
verandi kona hans alvarlega og hann lýsir því
hvernig hann brotnaði eiginlega niður sem lista-
maður á þeim tíma. Þar fyrir utan hefur hann
gengið í gegnum storma hér heima – það hafa iðu-
lega verið mikil læti í kringum hann þegar hann
kemur. Kristján hefur ekki alltaf kunnað að
bregðast við þeim aðstæðum sem hann hefur lent
í. Hann getur verið svolítið stór í munninum og
konan hans segir stundum við hann: „Kristján,
bara syngja – ekki tala.“ En hann er líka óskaplega
skemmtilegur.“
Aðspurð segir Þórunn ritun bókarinnar hafa
verið skemmtilega en krefjandi. „Þetta var mikil
vinna því sjálfur er Kristján ekki mjög minnugur á
atburði – hann kann aragrúa af óperum utanbókar
en hann veit ekkert hvenær hann söng þær eða
hvar. Ég þurfti því að grafast mikið fyrir um upp-
lýsingar sjálf, en fékk góða aðstoð.“
Auk Kristjáns ræðir Þórunn við tíu einstaklinga
sem segja sína sögu af honum og lýsa jafnvel sömu
viðburðum og hann ræðir. „Þannig fæst dýpri
mynd af þessum atburðum og kannski annað
sjónarhorn. Og ég veit að margt á eftir að koma
fólki á óvart við lesturinn.“
Þórunn Sigurðardóttir ritaði örlagasögu Kristjáns Jóhannssonar.
Stormasamt líf tenórs
„Kristján, bara syngja – ekki tala,“ segir eiginkona Krist-
jáns Jóhannssonar tenórsöngvara stundum við hann, enda
hafa stóru orðin stundum komið honum í koll. Þórunn Sig-
urðardóttir ritar ævisögu hans, Á valdi örlaganna.
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir ben@mbl.is
Sögupersónan í bókum Margrétar
Örnólfsdóttur heitir Aþena. Spurt
er: Varð nafnið til á undan sögu-
hetjunni og hvaðan er það komið?
„Það er skemmtilegt að velta
því fyrir sér hvernig maður velur
nöfn á sögupersónur. Þegar ég var
að skrifa sketsa fyrir Stelpurnar
var þumalputtareglan að velja
nógu stutt nöfn, helst þriggja stafa, ekki verra ef
þau voru tveggja stafa. Aþena datt í hausinn á mér
án þess að ég viti beinlínis hvers vegna. Ég var að
leita að nafni sem bæri tíðarandanum vitni en væri
um leið frekar óvenjulegt, sem sagt nútímalegt án
þess að vera of mikið tískunafn. Svo þegar nafnið
var komið var ómótstæðilegt að leika sér aðeins
með það, það bauð upp á svo marga skemmtilega
möguleika, og auðvitað kom aldrei neitt annað til
greina en að nota það í titlana. Krakkar tengja
sterkt við eiginnöfn: Fíasól, Molly Moon, Harry Pot-
ter, Bob Moran (hver var nú það?! spyrja allir undir
fertugu) þannig að nú er hægt að fara að tala um
Aþenubækurnar.“
Margrét Örnólfsdóttir
Ómótstæðilegt nafn
Flateyjarbréf Kristjönu Friðbjörns-
dóttur eru nokkuð frábrugðin fyrri
bókum hennar. Spurt er: Ert þú að
taka snarpa stílbeygju?
„Það getur vel verið, og þó. Í Flat-
eyjarbréfunum er ég að reyna mig
við sendibréfaformið sem hefur allt-
af heillað mig sem lesanda. Fjörug
atburðarás, grín og galsi er þó í fyr-
irrúmi líkt og í spæjarasögunum um Fjóla Fífils. Mér
fannst tilvalið að láta aðalpersónuna, Ólafíu Arndísi,
11 ára Grafarvogsbúa og óþekktarorm, spreyta sig á
bréfaforminu þar sem flestir af hennar kynslóð hafa
aldrei sent né fengið slíkt fyrirbæri. Þrátt fyrir augljósa
yfirburði tölvupóstsins þá er synd að þetta forna sam-
skiptaform skuli gleymast. Hver okkar hinna eldri
kannast ekki við eftirvæntinguna sem fylgdi því að rífa
upp röndótt umslag frá fjarlægum pennavini eða af-
mæliskveðjuna frá frænku fyrir norðan?
Ég vil meina að ungir lesendur séu opnir fyrir ólíkum
stílbrögðum, sé þeim á annað borð haldið að þeim.
Það er því aldrei að vita hvað mér dettur í hug að taka
fyrir næst.“
Kristjana Friðbjörnsdóttir
Fyrirbærið sendibréf
Píslarvottar án hæfileika
Kári Tulinius (JPV)
Styrkleiki Píslarvotta án
hæfileika felst einkum í
byggingunni, hvernig tímaplanið
er spunnið saman, og fléttunni.
Þá notar höfundur á
forvitnilegan hátt ýmis smáatriði
til að útskýra persónuleikann; stússið í
kringum gráan kött afhjúpar þannig sakleysi
fólksins.
Einar Falur Ingólfsson
Dýrin í Saigon
Sigurður Guðmundsson (Mál og menning)
Bókin virkar [...] á mig sem
ljóðrænt hugmyndaverk fullt
með erótík þótt sú erótík verði
aldrei beinlínis holdleg. Það
merkilega við þetta flókna
hugmyndaverk er hversu
læsileg bókin er og aðgengileg þrátt fyrir allar
hugmyndaflækjurnar.
Skafti Þ. Halldórsson
Makalaus
Þorbjörg Marinósdóttir (JPV)
Skvísuskruddur eiga að vera
léttar og leikandi, auðlesnar,
fyndnar og lesandinn á að geta
samsamað sig
sögupersónunum frekar
auðveldlega, Makalaus er allt
það og skemmti ég mér vel við lesturinn.
Þetta er fín bók hjá Tobbu og tilvalin til að
taka með í sólbaðið eða í bústaðinn í sumar.
Ingveldur Geirsdóttir
Hver ert þú?
Njörður P. Njarðvík (Uppheimar)
Sögusvið smásagnanna tíu í
nýrri bók Njarðar P. Njarðvík er
kunnuglegt þeim semmuna
Biblíusögurnar. Njörður eys hér
úr þeim nægtabrunni sem
Biblían er og hefur verið fjölda
listamanna í aldanna rás. Sögurnar eru
kunnuglegar en nú stíga fram nýir sögumenn
og frásagnir þeirra eru persónulegri, ítarlegri
og tilfinningaríkari en í guðspjöllunum.
Guðni Einarsson
Saga eftirlifenda
Emil Hjörvar Petersen (Nykur)
Saga eftirlifenda - Baldur og
Höður er góð skáldsaga, en
það sem skiptir ef til vill meira
máli er að hún er dúndurgóð
fantasía og gætu aðdáendur
slíkra bókmennta gert margt
vitlausara en að lesa þetta íslenska framlag
til geirans.
Bjarni Ólafsson
Morgunengill
Árni Þórarinsson (JPV)
Þetta er frábær bók, besti
krimmi sem ég hef lesið í
nokkurn tíma. Hún er raunsæ
en dulítið ýkt á köflum. Margur
blaðamaðurinn vildi eflaust
búa við það frelsi sem Einar
hefur í starfi sínu og reykfyllt herbergi
blaðamanna er óður til fortíðar. En þessi
atriði draga ekki úr áhrifamætti sögunnar og
hún skilur lesandann eftir í óvissu? Hvað
næst? Einar svarar því reyndar sjálfur: „Enn
vantar okkur fjöldamorð og hryðjuverk.“ Og
hann lýsir því líka vel hvað Morgunengillinn
fjallar um. „Allt er þetta saga um von, tálsýnir
og dauða. Og glatað sakleysi.“
Steinþór Guðbjartsson
Mörg eru ljónsins eyru
Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir (JPV)
Sem glæpasaga nær bókin
ekki að komast á flug. Er það
bæði vegna þess hve langur
tími fer í að segja frá
aðdraganda glæpsins og í raun
gleymist hann að hluta til í
huga lesandans. Lausn gátunnar er einnig
ófullnægjandi og er hönd maskínuguðsins
mjög áberandi á síðustu metrunum.
Sem dramatísk tragedía er bókin hins
vegar mikið snilldarverk. Þórunn hefur
einstakt lag á að komast inn í hugarheim
sögupersónanna og færa lesandann þangað
með sér. Það er langt síðan mér hefur
fundist ég kynnast persónum í skáldsögu
eins og þeim Guðrúnu og Leó. Þau eru bæði
ófullkomnir einstaklingar og eru stundum
meðvituð um eigin galla og stundum brjóta
þau af fíflsku og blindni gegn þeim sem
standa þeim næst.
Bjarni Ólafsson
Stórkostlegt líf herra Rósar
Ævar Þór Benediktsson (Nykur)
Það er byrjendabragur á
textanum, hann er einlægur,
stundum barnalegur. Sögurnar
eru misgóðar, sumar eru
óþroskaðar og hefði ekki átt að
prenta, en aðrar eru góðar eins
og „Meðaljón“, „Skortur á skugga“ og „Ó,
þú!“ Bygging þeirra er góð og þær eru mjög
myndrænar, eins og reyndar flestar sögurnar.
Hrósa verð ég sérstaklega fráganginum á
bókinni, uppsetningu textans og kápunni,
þar hefur verið vandað til verka.
Ingveldur Geirsdóttir
Doris deyr
Kristín Eiríksdóttir (JPV)
Sögurnar í Doris deyr eru
misgóðar. Á heildina litið lýsa
þær fremur grámyglulegum og
kvíðvænlegum heimi þar sem
allir hafa sinn djöful að draga.
Kristínu tekst þó með
hugarflugi sínu að búa til töfra hér og þar í
hversdagsleikanum og má þar meðal annars
nefna hvíslaða ástarjátningu, sporðdreka í
sjálfsmorðshugleiðingum og samkennd úr
óvæntum áttum.
Hólmfríður Gísladóttir
Furðustrandir
Arnaldur Indriðason (Vaka-Helgafell)
Arnaldur bregst heldur ekki í
persónusköpun. Þarna eru í
fyrirrúmi manneskjur sem hafa
misst, halda enn áfram að lifa
en gleðin er slokknuð og þær
hafa tapað allri forvitni
gagnvart lífinu. Sumir búa við mikla sekt
vegna gamalla glæpa, geta ekki fyrirgefið sér
og verða því dauðanum fegnir.
Lokakafli bókarinnar er beinlínis
magnaður og lokar verkinu glæsilega.
Þetta er framúrskarandi verk sem verður
ekki á nokkurn hátt afgreitt sem „bara
glæpasaga“.
Kolbrún Bergþórsdóttir
Fyrirgefning
Lilja Sigurðardóttir (Bjartur)
Sem þröngt skilgreind
glæpasaga er Fyrirgefning
fyrirtaks bók. Hún er
hörkuspennandi, kemur
lesandandum oft á óvart og
gengur fullkomlega upp. Hún er
lipurlega skrifuð og eins klisjulega og það
kann að hljóma var erfitt að leggja hana frá
sér áður en að síðustu blaðsíðu var komið.
En Fyrirgefning er einnig frábær skáldsaga
um reiði, hefnd og fyrirgefningu, bæði
gagnvart þeim sem gert hefur á hlut manns
og gagnvart manni sjálfum.
Bjarni Ólafsson
Svar við bréfi Helgu
Bergsveinn Birgisson (Bjartur)
Stór þáttur í því hvað Svar við
bréfi Helgu er vel lukkað verk,
felst í vönduðum, liprum og
lifandi stíl Bergsveins.
Höfundur þekkir söguheiminn
og skilur þau verkefni sem
bóndinn þarf að takast á við, hvort sem þau
snúast um að sinna fólki eða skepnum í
fámenninu, eða þær tilfinningar sem
bóndinn ber til landsins sem hann hefur
hlotið í arf. Hlýjan í textanum er blönduð
góðlátlegum húmor, og að auki er brugðið
upp bráðfyndnum senum, senum sem
minna á stundum á sagnafléttur Jóns
Kalmans Stefánssonar úr Dalaþríleiknum.
Einar Falur Ingólfsson
Ljósa
Kristín Steinsdóttir (Vaka-Helgafell)
Þetta er vel skrifuð saga sem
kemur við hjartað í
lesandanum, en þegar líður á
söguna verður hún á vissan
hátt einhæf, það gerist ekki
mikið meira en það að Ljósu
versnar. Reyndar fáum við í seinni hluta
bókarinnar að sjá inn í huga Katrínar, elstu
dóttur Ljósu, en þær hugsanir bæta ekki
miklu við. Ég hefði kannski frekar viljað sjá
meira inn í sálina hans Vigfúsar mannsins
hennar Ljósu, því hann er litaður frekar
einföldum litum. Það hefði verið áhugavert
að sjá litrófið hans, kynnast tilfinningunum
sem hann þurfti að slást við í lífinu með
henni Ljósu.
Kristín Heiða Kristinsdóttir
Skáldskapur