Skólablaðið - 01.03.1987, Page 18
18 SKÓLABLAÐIÐ
V etrar morgunn
Melkorka Thekla ólafsdóttir
María vaknaði snemma eins og vanalega. Ekki af
því hún þyrfti þess, ekki þurfti hún að mæta til vinnu,
heldur fannst henni hún ekki þurfa mikinn svefn
lengur.
Eiginmaður hennar lá hrjótandi í sínu rúmi, hinum
megin í herberginu. Rauðnefjaður eftir margar
drykkjunætur með vinum sínum. Einu sinni í viku spil-
uðu þeir saman póker, gömiu vinirnir. Og drukku.
Henni var ekki illa við það, heldur voru pókerkvöldin
orðin gamall vani.
María klæddi sig í þunna silkisloppinn sem eigin-
maður hennar hafði keypt handa henni í viðskiptaferð
til Hong Kong. Glæsilegur var hann, en heldur víður.
Hún hafði grennst með árunum. E.t.v. stóð það í ein-
hverju sambandi við verkinn í maganum sem hafði
þjáð hana í nokkurn tíma.
María gekk fram, náði í Morgunblaðið, hitaði sér te og
lét fara vel um sig við eldhússborðið.
Hún var þarna. Greinin.
Maginn herptist saman og verkurinn gerði vart við
sig.
Minning — Þór Þorkell Þórarinsson
Fæddur2l.5.1921. Dáinn 3.1. 1987.
Þór Þorkell var sá indælasti maður sem ég hef
þekkt. Hann var besti elskhugi sem ég hef nokkru
sinni kynnst. Hann sameinaði uppfyllingu þarfa
minna á fullkominn hátt, blíður og viðkvæmur en
jafnframt ástríðufullur.
Hann gaf mér allt sem ég þráði — nema ástina.
Ástinagat hann ekki gefið, því hana átti kona hans.
Án ástarinnar var ástalíf okkar ekki eins full-
komið og það hefði annars verið. Við nutum ávallt
samvistanna hvort við annað og gerðum okkur
margt til gmans en uppistaðan í sambandi okkar
var hið frábæra kynlíf sem við lifðum. Það var
mjög fjölbreytilegt og skemmtilegt og við krydd-
uðum það með ýmsum tilfæringum. Þeim minn-
ingum vil ég þó halda fyrir sjálfa mig.
En við nutum ekki aðeins líkama hvort annars,
heldur nærðust sálir okkar hvor á annarri. Við
ræddum upplifanir okkar á ýmsum sviðum, svo
og úr daglega lífinu. Þór Þorkell var yndislegur
maður að ræða við. Hann var bæði frábær hlust-
andi sem og ræðumaður og var hafsjór fróðleiks.
Ég vil Ijúka þessum línum með þökkum til hans
indælu eiginkonu sem við létum aldrei verða vara
við samband okkar en hefði vafalaust tekið því
með miklum skilningi. Ég veit. reyndar manna
best, hve góð eiginkona hún var og kann ég henni
bestu þakkir fyrir að sjá svo vel sem hún gerði um
þann sem ég elska.
Með samúðarkveðjum til aðstandenda
María.
María klippti greinina gætiiega út án þess að
skemma annað það er var í blaðinu. Hún kveikti á eld-
spýtu og bar eldinn óstyrkum höndum að úrklippunni.
Greinin brann hratt og stafirnir hurfu — hver af öðrum.
Þeir voru ekki orð lengur, heldur stafir sem brunnu inn
í sálina.
María sópaði öskunni ofan í lítinn trékassa. í
þunnum slopp og á inniskóm hljóp hún yfir freðna jörð-
ina.
Andstutt stóð hún í fjörunni, — lítil, gömul, skjálfandi
af kulda. Hún opnaði kassann, — hægt, gætilega.
Skyndilega svipti hún lokinu upp á gátt, ekki gömul né
þreytt lengur, heldur sterk. Vindurinn hljóp um kass-
ann og þeytti minningunum upp í loftið, tætti þær
sundur, blés þeim út yfir hafið þar sem lífvana augu
hennar sáu þær hverfa í djúpið.