Morgunblaðið - 25.05.2010, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 25.05.2010, Blaðsíða 22
22 Minningar MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 25. MAÍ 2010 ✝ Sólveig Sveins-dóttir fæddist í Ólafsvík 3. júlí 1928. Hún lést eftir stutta sjúkrahúsdvöl á Landspítalanum í Fossvogi 8. maí 2010. Sólveig var sjötta barn hjónanna Sveins Einarssonar sjómanns, f. 1892, d. 1967, og Þórheiðar Einarsdóttur hús- móður, f. 1892, d. 1964. Sólveig átti 10 systkini og eru fjög- ur þeirra á lífi. Látin eru auk Sól- veigar: Einar, Lárus, María, Sig- urður, Katrín og Sveinbjörn, Á heimilinu ólst einnig upp frænka þeirra, Þóra, sem er látin. Eftirlif- andi systkini Sólveigar eru: El- inbergur, Sæunn, Jónatan og Guð- mundur. Sólveig giftist 25. maí 1958 Braga Björnssyni. Bragi fæddist á Siglufirði árið 1931, foreldrar hans voru Björn Björnsson, f. 1903, d. 1988, og Anna Friðleifs- dóttir, f. 1901, d. 1990. Sólveig og Bragi eignuðust þrjú börn: a) Björn, f. 1957, eig- inkona Elín Heiður Kristjánsdóttir, f. 1959. Þeirra börn eru Jóhanna, f. 1982, Sólveig, f. 1984, eig- inmaður hennar er Árni Kristófer, f. 1984, og Valdís Birna, f. 1998. Barn Sólveigar og Árna er Sara Lind, f. 2007. b) Anna Sigríður, f. 1961, eiginmaður Ægir Magnússon, f. 1958. Þeirra börn eru Valur, f. 1984, Bragi, f. 1989, og Alda, f. 2000. c) Sveinn Heiðar, f. 1966, eiginkona Svandís Krist- insdóttir, f. 1966. Þeirra börn eru Sólveig Huld, f. 1996, og Silja Kar- en, f. 2003. Sólveig og Bragi hófu búskap í Eskihlíð 14a, Reykjavík. Þaðan fluttu þau árið 1964 að Kirkjuteigi 27, Reykjavík, og árið 1974 fluttu þau í Vogatungu 12, Kópavogi og bjuggu þar síðan. Útför Sólveigar fór fram frá Digraneskirkju 18. maí 2010 í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Elskuleg tengdamóðir mín Sól- veig Sveinsdóttir er látin eftir stutta sjúkrahúslegu. Ég kynntist Sólveigu og Braga fyrir tæpum þrjátíu árum, þegar ég kom inn í fjölskylduna. Alla tíð höf- um við Sólveig verið góðar vinkonur, hún var hjartahlý kona, traust með mikið jafnaðargeð og á hana var allt- af hægt að treysta. Hún og þau hjón- in hafa reynst mér mjög vel og það var ósjaldan að ég leitaði ráða og hjálpar hjá Sólveigu, tengdamömmu minni. Það er mér mjög minnisstætt þeg- ar ég kom með Sólveigu nöfnu henn- ar heim af fæðingardeildinni á að- fangadag fyrir 25 árum, beint í jólahaldið í Vogatunguna. Gistum við síðan þar um nóttina. Um nóttina svaf sú nýfædda lítið og var ég orðin ansi þreytt og lúin en þá varst það þú Sólveig sem tókst að þér vaktina með nöfnu þína sem grét næstum alla nóttina. Ég man hvað ég var fegin að fá smásvefn, því að ég treysti þér full- komlega fyrir barninu. Við Sólveig áttum það sameigin- legt að vera báðar ættaðar að vestan, hún frá Ólafsvík eins og föðurfólkið mitt og ég frá Hellissandi. Við töl- uðum ósjaldan um Ólafsvík og fólkið okkar þaðan. Sólveig var mikil hannyrðakona, hún saumaði og prjónaði margar af- skaplega fallegar flíkur. Það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan hún prjónaði fallega peysu á hana Söru Lind sem er yngsti fjölskyldu- meðlimurinn. Hún hafði þann eiginleika að vera mjög þolinmóð og sá eiginleiki nýtt- ist vel í hannyrðunum. Margar góðar samverustundir höfum við átt, bæði í Vogatungunni og svo í sumarbústað þeirra hjóna uppi við Langá í Borgarfirði. Þar var þeirra sælureitur í um tuttugu ár. Sólveig naut sín vel þar og var gróð- ur- og trjárækt mikið áhugamál þeirra hjóna. Ég dáðist að samvinnu þeirra í umhirðu og alúð við gróð- urræktina og ber umhverfið þar þess glöggt merki. Sólveig hafði líka gaman af ferða- lögum og ferðuðust þau hjónin víða, fóru yfirleitt til Kanaríeyja á hverju ári. Hún var félagslynd og hafði gaman af að fara í leikhús og á tón- leika. Fórum við saman á skemmti- lega jólatónleika fyrir síðustu jól. Velferð fjölskyldunnar skipti hana alltaf mestu máli, hún spurði ætíð hvað væri að frétta, hún vildi vita hvernig aðrir hefðu það, það var ósjaldan að hún spurði um Jóhönnu, dóttur okkar, sem hefur búið í Lond- on undanfarin ár. Dæturnar elskuðu að koma í Vogatunguna til ömmu og afa, alltaf var vel tekið á móti þeim, Sólveig settist niður með þeim og gaf sér tíma til að spjalla við þær og fengu þær stundum að baka með henni. Fyrir aðeins nokkrum vikum bakaði Valdís Birna með ömmu sinni og kom alsæl heim með af- raksturinn. Þær segjast hvergi hafa fengið betri mat en í Tungunni hjá ömmu, ég fékk uppskriftirnar og reyndi að líkja eftir matargerðinni en oftast var maturinn aðeins betri hjá Dísu ömmu eins og hún var oft kölluð. Kæra Sólveig, takk fyrir allt sem þú varst mér og minni fjölskyldu. Minning um góða komu lifir í hjarta mínu. Ég votta Braga og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð. Elín. Heiðarleiki, umhyggja og traust eru falleg orð. Þau segja svo margt um hina innri fegurð og eiga einstak- lega vel við Sólveigu, tengdamóður mína. Aukinheldur eru það forrétt- indi að fá að umgangast fólk, þessum eiginleikum búið. Frægð, frami eða veraldleg gæði eru léttvæg þegar við stöndum skapara vorum skil á ögur- stundu. Þá vega innri gæðin þyngst. Af þeim hafði Sólveig gnótt, deildi óspart og uppskeran er góð. Sólveig fer vel nestuð á nýjar slóðir. Í hinni nýju vist sé ég fyrir mér himnakór- inn, undurfagrir tónar hljóma við undirleik fuglanna. Blómin snúa sér mót sólu sem tekur þau í fang sér, árniðurinn tónar leikmyndina. Lind- in er tær, í henni speglast lífshlaup konunnar sem ég er að kveðja. Það er falleg mynd, sem aldrei gleymist. Ægir Magnússon. Elsku tengdamamma, ekki bjóst ég við því að stund þín væri komin strax. Það eru ekki nema fimm vikur síðan þú varst með okkur á ferming- ardaginn hennar alnöfnu þinnar, Sólveigar, 10. apríl sl. Við vorum svo glöð að þú skyldir vera með okkur þennan dag, bæði í athöfninni og svo í veislunni um kvöldið.Viku síðar varst þú komin á spítala. Þegar ég kom inn í fjölskylduna fyrir u.þ.b. 16 árum var vel tekið á móti mér í Vogatungu. Þú og Bragi vilduð allt fyrir mig gera og stundum leið mér eins og ég væri prinsessa. Mikið átti ég góða tengdamömmu og dætur mínar góða ömmu. Þegar okkur Sveini fæddist okkar fyrsta barn sem var stúlka vorum við ekki í nokkrum vafa hvað hún ætti að heita. Sólveig Sveinsdóttir, nafn sem ég er stolt af að hafa skírt dóttur okkar. Það voru ófá boðin í Vogatungu og þú varst alltaf boðin og búin til að passa dætur okkar. Þú varst ekta amma, góð við barnabörnin og ekki skemmdi fyrir að þú bjóst til góðan mat og bakaðir góðar kökur og snúða. Alltaf var eitthvað gott heimabakað til þegar við komum í heimsókn. Ekki má nú gleyma að minnast á ferðirnar í sumarbústað- inn ykkar í Borgarfirði. Þar voruð þið allar helgar á sumrin, og þvílíkur garður sem þið bjugguð til. Ég dáð- ist oft að eljusemi ykkar í að búa til svona flottan garð í sveitinni, blóm og alls konar tré um alla lóð voru gróðursett af ykkur. Þarna nutuð þið ykkar vel. Elsku tengdamamma, þín verður sárt saknað í okkar fjölskyldu og það verður tómlegt að koma í Vogatungu og í sumarbústaðinn hér eftir. Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur. Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum, hugsið ekki um dauðann með harmi eða ótta. Ég er svo nærri, að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvelur, þótt látinn mig haldið. En þeg- ar þið hlæið og syngið með glöðum hug, lyftist sál mín upp í mót til ljóss- ins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu. (Kahlil Gibran.) Svandís. Elsku amma. Það sem mér dettur einna helst í hug þegar ég hugsa um þig er hversu einlæg, skemmtileg og fé- lagslynd þú varst. Þú gerðir heims- ins besta mat, þó sérstaklega grjónagraut og kjöthring sem allir voru hrifnir af. Það er ekki lengra síðan en tveir mánuðir síðan við bök- uðum saman kanilsnúða en síðan fórst þú allt í einu á spítala og komst eiginlega ekki heim aftur. Það var nánast sama hvað maður bað þig um að gera þú reyndir alltaf að komast til móts við mig. Einu sinni var ég hjá þér að kveldi til, pabbi og mamma voru í leikhúsi, ég vissi ekki hvað ég átti að gera, klukkan var orðin tíu að kveldi, þá spurði ég þig hvort ég mætti baka, þrátt fyrir það að klukkan væri orðin svona margt að kveldi, þá gerðir þú það fyrir mig, svona varst þú. Þú varst heimsins besta amma, ég á erfitt með að trúa að þú sért farin frá okkur, undarlegt að koma til afa núna, og þú ekki á staðnum, mjög tómlegt. Ég sakna þín mikið, takk fyrir allt. Valdís Birna. Elsku amma, nú er komið að kveðjustund, þó að sárt sé að kveðja svona einstaka ömmu eins og þú varst. Á stundu sem þessari fara all- ar góðu minningar um huga minn, allar samverustundirnar sem við höfum átt saman á heimili þínu og afa, og líka í hinum glæsilega sum- arbústað ykkar í Borgarfirði. Einna fyrsta minning um þig, er þegar ég var lítil, þegar þú leyfðir mér að baka með þér, þetta kveikti áhuga minn á þessari iðju, þó að ég eflaust nái aldrei sömu tökum á henni og þú gerðir. Amma var einstök heimilis- kona, húsmóðir eins og þær gerast bestar, gerði frábæran mat, mjólk- urgrautur var hennar sérgrein, sem enginn gerði betur, kleinur og hinn víðfrægi kjöthringur sem allir í fjöl- skyldunni sóttust eftir að komast í, því enginn náði bragðinu hennar ömmu. Þegar ég eignaðist Söru Lind fyrir þremur árum man ég eftir því að þú komst í heimsókn til mín á fæðing- ardeildina, sama dag og sú litla fæddist, ég var svo ótrúlega stolt að hafa gert þig að langömmu. Amma var mikið fyrir börn, barnabörnin hændust að henni, hún fylgdist vel með þeim öllum fram á síðasta dag, spurði um þau öll, meira að segja þegar hún lá sem veikust á spítalan- um. Amma var mikil handverks- og prjónakona, prjónaði flíkur á öll barnabörnin, prjónaði sjónvarps- teppi fyrir fullorðna fólkið, svona mætti lengi telja. Amma hafði gam- an af að ferðast, bæði innanlands og erlendis, eina slíka ferð erlendis fór ég með henni árið 2001 til Spánar ásamt allri fjölskyldunni, og fyrir það er ég mjög þakklát. Amma og afi reistu sér sumarbústað í Borgarfirði fyrir 20 árum. Þar naut amma sín vel við gróður- og garðyrkjustörf og var stolt af því og bauð barnabörnunum sínum þangað reglulega með sér. Amma var ótrúlega félagslynd, vildi hafa alla í fjölskyldunni í kringum sig, mætti á öll mannamót, jafnvel þó að heilsan væri ekki alltaf góð. Jafn- aðargeð ömmu var einstakt, aldrei man ég eftir að hún hafi skipt skapi, en hafði sínar meiningar. Amma var heiðarleg kona, hrekklaus, trúði á allt hið góða, og gerði aldrei neitt á hlut neins. Vil ég að lokum þakka þér fyrir allt, öll heilræðin sem þú gafst mér, bið Guð að styrkja afa á þessum erf- iðu tímum, missir hans er mikill sem og allra í fjölskyldunni enda stór- kostleg kona fallin frá. Sólveig og Sara. Elsku amma. Það er sárt að þurfa að kveðja þig, en minningarnar sem eftir sitja eru þó margar og góðar. Upp koma í huga minn heimsóknir til þín og afa í Vogatunguna, svo ekki sé talað um allar ferðirnar upp í sumarbústaðinn við Langá, þar sem þú undir þér einstaklega vel við garðrækt. Þessar ferðir með ykkur afa voru eitt af því skemmtilegasta sem ég gerði sem krakki, það var svo gaman að vera með ykkur þar sem þið voruð svo orkumikil og úti allan daginn í garðinum þar sem ég fékk að hjálpa til. Þú sást líka alltaf til þess að enginn væri svangur og varst alltaf búin að bera fram miklar kræsingar og þú vissir sko alltaf hvað var í uppáhaldi. Ég man hvað þú tókst alltaf vel á móti mér og hvað mér þótti alltaf notalegt að koma í heimsókn, enda kom ég alltaf í heim- sókn til ykkar í Vogatunguna, þegar ég var hér á landi þau ár sem ég bjó í London. Þú varst búin að slá upp veisluborði á skammri stundu, með hjálp afa. Mér finnst það leitt að hafa ekki getað heimsótt þig á spítalann, þegar þú varst þar, talaði við þig í síma tveim dögum fyrir andlát þitt og fannst aðdáunarvert hversu hug- rökk þú varst og með hversu mikilli ró og yfirvegun þú tókst á veikindum þínum. Að lokum vil ég þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, allt sem þú hefur prjónað á mig og alla þá ást og hlýju sem þú sýndir mér. Bið Guð að styrkja afa á þessari stundu, missir hans er mikill, ekki bara frábær eig- inkona til 50 ára, heldur jafnframt besti vinur hans, því þau voru ótrú- lega samrýnd. Jóhanna. Lítill drengur lófa strýkur létt um vota móðurkinn, – augun spyrja eins og myrkvuð ótta og grun í fyrsta sinn: Hvar er amma, hvar er amma, hún sem gaf mér brosið sitt yndislega og alltaf skildi ófullkomna hjalið mitt? Lítill sveinn á leyndardómum lífs og dauða kann ei skil: hann vill bara eins og áður ömmu sinnar komast til, hann vill fá að hjúfra sig að hennar brjósti sætt og rótt. Amma er dáin – amma finnur augasteininn sinn í nótt. Lítill drengur leggst á koddann – lokar sinni þreyttu brá uns í draumi er hann staddur ömmu sinni góðu hjá. Amma brosir – amma kyssir undurblítt á kollinn hans. breiðist ást af öðrum heimi yfir beð hins litla manns. (Jóhannes úr Kötlum) Með þessu ljóði Jóhannesar úr Kötlum sendum við systkinin hinstu kveðju og rifjum upp góðar minn- ingar úr Vogatungu og Háagerði. Minning ömmu okkar lifir. Þín, Valur, Bragi og Alda. Elsku amma, mikið er erfitt að eiga aldrei eftir að hitta þig aftur. Ég mun sakna þín mjög mikið. Þú hefur alltaf verið mér svo góð og þegar ég rifja upp minningar um þig brosi ég því að þær eru svo góðar. Ég var mikið hjá ykkur afa þegar ég var lítil og leið mér alltaf vel hjá ykkur. Mikið er ég glöð að hafa haft þig hjá mér á fermingardeginum mínum fyrir rúmum fimm vikum. Ég mun aldrei gleyma þér, elsku amma mín, og mun alltaf geyma þig í hjarta mínu. Ég er stolt af að vera skírð í höfuð á þér, elsku amma mín. Þín Sólveig Huld Sveinsdóttir. Elsku amma, mér finnst leiðinlegt að þú sért farin frá okkur. Mér fannst gott að koma til þín, þú eld- aðir svo góðan mat og bakaðir svo gott með kaffinu. Elsku amma, þú varst alltaf svo góð við mig og ég á eftir að muna eftir þeim stundum okkar saman. Ég á eftir að sakna þín og ég skal vera góð við afa. Þín Silja Karen Sveinsdóttir. Hér hvílir væn og göfug grein af gömlum, sterkum hlyni; hún lokaði augum hugarhrein með hvarm mót sólar skini. Hún dæmdi ei hart, hún vildi vel, í vinskap, ætt og kynning. Hún bar það hlýja holla þel, sem hverfur ekki úr minning. (Einar Ben.) Þessi mannlýsing skáldsins á vel við Sólveigu systur mína en margs er að minnast við fráfall hennar. Sólveig ólst upp í Ólafsvík á krepputímum fjórða áratugar síð- ustu aldar í 11 systkina hópi auk einnar fóstursystur, náfrænku okk- ar. Faðir okkar og allir synirnir sjö stunduðu sjómennsku meira og minna framan af ævi og margt var því að starfa á stóru heimili. Sólveig var í miðri aldursröð og ég næst á eftir henni. Við urðum því að sinna með móður okkar og Maríu elstu systurinni þessu stóra heimili, sinna þjónustu við eldri bræðurna og gæta yngri barnanna eftir því sem kraftar leyfðu. En oft var þröngt setinn bekkurinn í Miðbæ, æskuheimili okkar, í einni baðstofu og eldhúsi og farið að fækka í heimili er fjölskyld- an flutti loks í nýtt og stórt hús um það leyti er Sólveig flutti að heiman. Við vorum því ekki aðeins systur heldur einnig nánir starfsfélagar frá barnsaldri. Sólveig var þó tveimur árum eldri og hafði því forustu á okkar starfsvettvangi. Hún var alltaf svo heil og sönn í öllu sem hún tók sér fyrir hendur og mér því fyrir- mynd. En þegar stund var milli stríða nutum við okkar í hinum ýmsu leikj- um sem börn stunduðu í Ólafsvík á þeim tíma, fórum á skauta inn á Vað- al og renndum okkur á sleðum í snjó- brekkunum og á sumrin var farið í berjamó upp í Krókabrekkur. Á unglingsárum réðum við okkur til sumarstarfa á Hótel Valhöll á Þing- völlum og áttum þar saman yndis- legt sumar. Síðar á unglingsárunum fórum við saman til verksmiðju- starfa í Reykjavík og þannig lágu leiðir okkar meira og minna saman allt til þess er við stofnuðum eigin heimili. Og árin liðu. Sólveig hafði kynnst tilvonandi eiginmanni sínum, Braga Börnssyni, um miðjan 6. áratuginn og stofnuðu þau þá sitt eigið heimili í Reykjavík. Skömmu síðar flutti ég og fjölskylda mín einnig á höfuð- borgarsvæðið og stutt var á milli heimila okkar er börnin voru að alast upp og náinn samgangur auk þess sem við áttum báðar sumarbústaði í lítilli fjarlægð. Og enn var það sam- eiginlegt að báðar eignuðumst við tvo syni og eina dóttur. Sólveig og Bragi fóru oft í ferðalög til sólarstranda og þar lágu leiðir okkar oft saman. – Síðustu árin vor- um við búsettar í Kópavogi í göngu- færi hvor frá annarri og nutum sam- verustundanna á efri árum allt til síðasta dags hennar. Síðustu mánuðirnir í lífi Sólveigar voru henni erfiðir vegna sjúkleika sem seint ætlaði að greinast. En Bragi eiginmaður hennar var vakinn og sofinn að annast hana og börnin stóðu þétt að baki hennar í því veik- indastríði. Systur mína kveð ég með miklum söknuði og samúð mín er með eig- inmanni hennar og fjölskyldunni. Hvíl í friði og hafðu þökk fyrir allt og allt. Sæunn. Sólveig Sveinsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.