Fréttablaðið - 15.10.2011, Qupperneq 74
15. október 2011 LAUGARDAGUR42
H
rekkjusvín er ein
ástsælasta plata
Íslandssögunnar
og kannski hefur
hreinlega enginn
þorað í þetta verk-
efni áður, að gera úr henni söngleik.
Það er snúið,“ segir María Reyndal,
leikstjóri söngleiksins Hrekkjusvín
sem frumsýndur var í Gamla bíói
í gærkvöldi. Söngleikurinn er unn-
inn upp úr plötunni Lög unga fólks-
ins sem tónlistarhópurinn Hrekkju-
svín, með þá Valgeir Guðjónsson og
Leif Hauksson í
broddi fylking-
ar, sendi frá sér
árið 1977. Rit-
höfundurinn
Pétur Gunnars-
son samdi söng-
textana á plöt-
unni, sem naut
mikilla vinsælda
þá og gerir enn
hjá fólki á ýmsum aldri, enda „plata
fyrir alla fjölskylduna … og ein-
hleypa,“ eins og segir á umslaginu.
Íslendingi fylgt aftur á bak
María segir hópinn sem setur söng-
leikinn upp í Gamla bíói reyna að
hafa téð einkunnarorð plötunnar að
leiðarljósi, ásamt því að bera á borð
nýtt íslenskt leikverk sem höfði til
íslensks almennings í dag.
„Allir sem hafa hlustað á plötuna
ímynda sér persónur og atburði í
textunum á mismunandi hátt. Við
breytum engum textum og leyfum
okkur ýmsar aðferðir til að tengja
þá sögunni í söngleiknum,“ segir
María. „Verkið hefst í nútímanum,
þar sem við sjáum misheppnaða
athafnaskáldið Jóhann Kristins-
son liggja látinn í kistu sinni. Svo
ferðumst við aftur á bak í gegnum
líf Jóhanns á meðan hann vegur og
metur hvernig hann hefur staðið sig
á sinni ævi, allt aftur til ársins 1940
þegar hann kemur í heiminn. Þetta
er mjög skemmtileg leið til að fylgja
sögu eins Íslendings.“
Valgeir með tvo nýja smelli
Leikarahjónin Tinna Hrafnsdóttir
og Sveinn Geirsson eru framleið-
endur verksins og skrifuðu handrit-
ið ásamt Guðmundi S. Brynjólfssyni,
með góðri hjálp leikstjórans Maríu
og leikhópsins, sem telur Atla Þór
Albertsson, Hannes Óla Ágústsson,
Maríu Pálsdóttur, Maríu Hebu Þor-
kelsdóttur, Orra Huginn Ágústsson
og Vigdísi Gunnarsdóttur, ásamt
þeim Tinnu og Sveini.
María segir verkið unnið í náinni
samvinnu allra sem að því koma.
„Við erum lítill leikhópur og verkið
er eins og platan var á sínum tíma,
dálítið organískt og hrátt. Þetta er
ekki 2007-sýning,“ segir María og
hlær, en bætir við að söngleikurinn
sé ekki verri fyrir vikið. „Þetta er
mjög skemmtileg aðferð við að setja
nýtt íslenskt leikhúsverk á fjalirn-
ar. Hver einstaklingur er rosalega
mikilvægur hlekkur í keðjunni.
Sem dæmi þá mæðir mikið á leik-
urunum, því auk þess að læra alla
texta, söngva og dansa sjá þeir um
að koma með alla leikmynd inn á
sviðið. Það er enginn sviðsmaður
fyrir aftan og þetta er svakaleg
rútína.“
Leikstjórinn segir það mikinn
happafeng að hafa fengið einn höf-
uðpaura Hrekkjusvínaplötunnar,
sjálfan Valgeir Guðjónsson, til liðs
við leikhópinn í tilefni söngleiks-
ins. Valgeir fer fyrir fimm manna
hljómsveit á sviðinu og samdi auk
þess tvö ný lög fyrir sýninguna.
„Það er hreinlega ótrúlegt hvern-
ig Valgeir framleiðir smelli á færi-
bandi,“ segir María. „Enda hef ég
heyrt að þegar Stuðmenn vantaði
„hittara“ í gamla daga var einfald-
lega kallað í Valgeir og hann beð-
inn um að redda málunum. Popplag
í G-Dúr, Slá í gegn og öll þessi lög
eru hreinræktaðir smellir.“
Nýju lögin sem Valgeir hefur
samið heita Ég skil, þar sem meðal
annars er sungið um hrekkjusvín á
Alþingi, og Ég reyni, sem er söngur
Áslaugar í efnalaug, eiginkonu höf-
uðpersónunnar Jóhanns sem aðdá-
endur plötunnar ættu að muna eftir.
Í tilefni söngleiksins verður Lög
unga fólksins endurútgefin, endur-
hljóðblönduð, ásamt þessum tveimur
nýju lögum. „Við ákváðum að hljóð-
rita gömlu lögin ekki upp á nýtt því
við ætlum ekki að reyna að keppa
við upprunalegu útgáfurnar. Frekar
að minnast þess og njóta hversu frá-
bær gamla platan er,“ segir María.
Abbababb! óður til Hrekkjusvína
María hefur reynslu af uppsetning-
um sem þessari, en fyrir nokkrum
árum leikstýrði hún einnig söng-
leikjaútgáfu á annarri ástsælli
plötu sem öðrum þræði var ætluð
börnum, Abbababb! eftir Dr.
Gunna. Með henni í þeirri sýningu
starfaði meðal annarra Lára Stef-
ánsdóttir danshöfundur, sem einn-
ig sér um dansa í Hrekkjusvínum.
„Það er skemmtilegt því Abba-
babb! [sem kom fyrst út árið
1997] var nokkurs konar óður til
Hrekkjusvínaplötunnar,“ segir
María. „Helsti munurinn er lík-
lega sá að í Abbababb! vorum við
að vinna með eitt tímabil en ekki
marga áratugi eins og í Hrekkju-
svínum. Abbababb! var líka skrif-
að sem barnaleikrit sem fullorðn-
ir gætu líka haft gaman af en með
Hrekkjusvínum erum við frekar að
reyna að búa til fullorðinssýningu
sem börn kunna einnig að meta.
En báðar plöturnar eru auðvitað
frábærar.“
Ævintýri í uppáhaldi
Sjálfur hefur Valgeir tjáð sig um
að leynt og ljóst markmið með
gerð plötunnar Lög unga fólksins
á sínum tíma hafi verið að gera
„barnaplötu fyrir foreldra barna
sem eiga foreldra sem eru komm-
únistar“. En hlustaði María mikið
á plötuna sem barn?
„Nei, ekki mikið. Ég man að
frænka mín gaf mér plötuna en
pabbi var víst ekkert rosalega
ánægður með það því hann var
svo mikill sjálfstæðismaður og
vildi ekki neinn kommúnistaáróð-
ur,“ segir María og skellir upp úr.
„En ég hlustaði heilmikið á plöt-
una þegar ég var komin í Mennta-
skólann við Hamrahlíð. Þá var ég
komin í hippafílinginn og meðlim-
ir Spilverks þjóðanna voru miklar
hetjur. Uppáhaldslagið mitt hefur
alltaf verið Ævintýri, sem Egg-
ert Þorleifsson söng svo listilega á
plötunni. Mikið af þessum textum
á enn mjög vel við í dag, til dæmis
þegar sungið er um að æðstu
ráðamenn sofi með lygaramerki
á tánum og að vilja miklu frekar
hjól eða fíl heldur en bíl. Þetta er
græna leiðin.“
Hrátt og organískt eins og platan
María Reyndal leikstýrir Hrekkjusvínum, nýjum söngleik sem unninn er upp úr barnaplötunni ástsælu Lög unga fólksins sem
kom út árið 1977. Kjartan Guðmundsson spjallaði við Maríu um söguþráð söngleiksins, lítinn leikhóp þar sem hver einstaklingur
gegnir mikilvægu hlutverki og plötuna sem hún hlustaði lítið á sem barn en þeim mun meira sem menntaskólanemi.
MARÍA REYNDAL
ATHAFNASKÁLD Hannes Óli Ágústsson og Sveinn Geirsson í hlutverkum sínum í Hrekkjusvínum sem sýnt er í Gamla bíói. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA