Morgunblaðið - 04.09.2010, Qupperneq 16
VIÐTAL
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
„Við sáum fram á að það yrði gríð-
arleg uppskera alls staðar. Þá skipt-
ir meira máli að fá góða vöru en mik-
ið magn,“ segir Hjalti Egilsson,
kartöflubóndi á Seljavöllum í Nesj-
um í Hornafirði. Hann byrjaði að
taka upp kartöflur til geymslu til
vetrarins 12. ágúst, hálfum mánuði
fyrr en venjulega. Uppskerustörfum
lauk í vikunni.
Góð kartöfluuppskera er í
Hornafirði í ár, eins og víða um land.
„Ég reikna með að þetta sé vel yfir
meðalári en ekki eins ofsalega mikið
og í fyrra,“ segir Hjalti.
Metuppskera var hjá hornfirsk-
um kartöflubændum á síðasta ári.
Það fór saman við það að uppskera
brást að verulegu leyti á stærsta
kartöfluræktarsvæðinu. Má segja að
Hornafjarðarkartöflurnar hafi
bjargað markaðnum. „Þetta dugði
ótrúlega lengi hjá okkur. Við vorum
að selja fram í júní í sumar og byrj-
uðum síðan að taka upp sumarkart-
öflur í byrjun júlí,“ segir Hjalti.
Bændurnir á Seljavöllum og
Akurnesi selja kartöflur sínar undir
merki Hornafjarðarkartaflna. „Það
styrkir okkur mikið að geta sinnt
stórum hluta landsins, geta útvegað
góðar kartöflur þegar vantað hefur á
markaðinn,“ segir Hjalti og getur
þess að Hornafjarðarkartöflur hafi
verið í nánast hverri einustu búð á
landinu þegar leið á veturinn. Hann
bindur vonir við að þau sambönd
nýtist áfram.
Eflast við sérhæfinguna
Þau hjónin, Hjalti og Birna
Jensdóttir, hafa eingöngu stundað
kartöflurækt í tíu ár. Þá slitu þeir
bræður, Eiríkur og Hjalti, félagsbúi
sínu og Eiríkur tók við mjólk-
urframleiðslunni. Bræðurnir hafa
byggt bú sín myndarlega upp, hvor á
sínu sviði. Hjalti rifjar upp að þeir
hafi saman framleitt 100 þúsund
lítra af mjólk og 100 tonn af kart-
öflum en nú framleiði Eiríkur að
minnsta kosti 300 þúsund lítra af
mjólk og hann sjálfur 300 tonn af
kartöflum.
„Það skiptir miklu máli að ein-
beita sér að ákveðnum verkum og
klára þau, vera ekki alltaf að hlaupa
úr einu í annað,“ segir Hjalti þegar
hann er spurður um gildi sérhæfing-
arinnar. Hann bætir því við að á
þessum tíma hafi orðið þróun í land-
búnaði almennt, búum hafi fækkað
og þau stækkað sem eftir eru.
Hann telur sig vera kominn
með búið í góða stærð. „Það borgar
sig ekki að stækka mikið meira.
Maður hefur oft ekki nema hálfan
mánuð til að taka upp í góðu veðri.
Ef meira er undir þyrfti tvöfaldan
tækjakost og miklu meiri mann-
skap,“ segir Hjalti.
Kartöflurækt er áhættusamur
búskapur, eins og sýndi sig í
Þykkvabænum í fyrrahaust. „Þetta
hefur gengið vel hjá okkur. Hægt
hefur verið að rækta kartöflur öll
þessi ár. Árið 1979 er eina árið sem
uppskera brást alveg frá því ég fór
að vinna við kartöflurækt,“ segir
Hjalti.
Starf kartöflubóndans felst ekki
aðeins í því að setja útsæðið niður á
vorin og taka kartöflurnar upp á
haustin. Það þarf að þvo kartöflurn-
ar, flokka og koma þeim á markað.
Hjalti og Birna eru með fólk í vinnu
allt árið og aukamannskap á haustin.
„Það þarf að fylgjast vel með allt ár-
ið. Þetta er ekki frábrugðið öðrum
búskap,“ segir Hjalti.
Nýjar með jólamatnum
Þau hjónin hafa komið sér upp
góðum kartöflugeymslum og þar er
aðstaða til að vinna úr vörunni.
Bændurnir sem selja undir merki
Hornafjarðarkartaflna pakka kart-
öflum í neytendaumbúðir. Þá hafa
þeir haft á boðstólum forsoðnar
kartöflur og tekið þátt í ýmsum
vöruþróunarverkefnum. „Það var
erfitt að keppa við innfluttar for-
soðnar kartöflur þegar gengi ís-
lensku krónunnar var hátt. Nú er
það orðið vænlegra,“ segir Hjalti og
reiknar með að auka áhersluna á
þann þátt. Hægt er að nýta minni
kartöflurnar í vinnsluna og eins út-
litsgallaðar kartöflur. Þá segir hann
mögulegt að forsjóða kartöflur í
venjulegri markaðsstærð, þegar
mikið framboð er af kartöflum.
Tilraun er gerð á Seljavöllum
með að fá aðra uppskeru. Þegar
sumarkartöflur voru teknar upp úr
fyrstu görðunum voru settar niður
kartöflur að nýju, um miðjan júlí, í
þeirri von að önnur uppskera fengist
í byrjun vetrar. Ef vel tekst til verð-
ur hægt að taka upp „vetrark-
artöflur“ seint í haust.
„Þetta er nú ekki búsæld-
arlegt,“ sagði Hjalti þegar hann
skoðar undir grösin. „Þetta kalla ég
ekki kartöflur, þetta eru bara ber,“
bætti hann við og mokaði aftur yfir.
„Það er enn góður mánuður eft-
ir í sprettu. Ég get kannski haft
þetta í jólamatinn,“ sagði Birna,
heldur bjartsýnni.
Eins og hver annar búskapur
Uppskerustörfum lokið hjá helstu kartöflubændum í Hornafirði Hjalti Egilsson á Seljavöllum er
ánægður með uppskeruna þótt metið frá því í fyrra verði ekki slegið Þarf að fylgjast með allt árið
Gullauga Hjalti Egilsson er ánægður með uppskeruna í ár. Honum finnst
nóg komið og tekur upp þótt kartöflur séu enn í vexti í sumum garðanna.
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Kartöflukona Anika Seidler kemur frá Þýskalandi á haustin til að taka þátt í uppskerustörfunum.
16 FréttirINNLENT
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 4. SEPTEMBER 2010
Hjalti og Birna á Seljavöllum eru
að athuga möguleikana á því að
búa til vodka úr kartöflum. Þetta
er þróunarstarf á byrjunarstigi.
„Það væri gaman að gera stað-
bundið vín fyrir þetta svæði,“
segir Hjalti.
Hugmyndin er að gera vínanda
úr kartöflum og blanda vodka úr
honum og hornfirsku vatni. Það
yrði nýjung því allur sá vodki
sem framleiddur er hér á landi er
gerður úr innfluttum vínanda.
Birna segir að afar strangar
reglur gildi um áfengisfram-
leiðslu hér á landi og eftirlit með
henni. „Okkur sýnist að ekki sé
gert ráð fyrir slíkri framleiðslu á
sveitabæjum. Til þess að það sé
hægt þyrfti að rýmka lög og regl-
ur,“ segir hún.
ÝMISLEGT BRALLAÐ
Hugað að
vodkaframleiðslu
Mikinn mannskap þarf við
uppskerustörfin. „Öll ættin er
að hjálpa manni,“ segir Hjalti
á Seljavöllum.
Þegar blaðamaður kom við
í kartöflugarðinum var Hjalti
sjálfur á dráttarvélinni sem
dró upptökuvélina og Hilmar
Erlingsson ók kartöfluköss-
unum frá vélinni.
Ásgeir Núpan, mágur
Hjalta, og Einar Halldórsson,
frændi bóndans, voru að tína
grjót og moldarköggla af
bandinu. Þeir voru báðir í
vaktafríi frá sinni reglulegu
vinnu. Þýsk stúlka, Anika
Seidler, sá um að kartöflurnar
rynnu rétt í kassana. Hún var
á Seljavöllum í ár fyrir nokkr-
um árum og hefur síðan sótt í
að komast í uppskerustörfin.
Ónefndur er einn dugleg-
asti starfsmaðurinn, Halldóra
Hjaltadóttir, 82 ára gömul
móðir bóndans. Hún hjálpar
alltaf til við uppskerustörfin
og tínir á við tvo þegar hún er
á bandinu.
Hjalti segir að alltaf sé
mikill hugur í móður hans.
Hún hafi farið að tala um að
hætta við ferð til Reykjavíkur
þegar taka átti upp á sama
tíma. „Ég sagði henni að fara,
það væri helvíti hart ef ég
yrði að hætta búskap þegar
hún hætti að hjálpa mér,“
segir Hjalti.
Dætur Hjalta og Birnu, þær
Halldóra og Fjóla Dögg, hjálpa
alltaf til við uppskerustörfin
en þær þurftu að fara í skól-
ann, til Reykjavíkur, áður en
yfir lauk að þessu sinni. Þá
getur Hjalti þess að Valgerður
systir hans sé alltaf með
þeim á haustin.
Duglegasti
tínslumaðurinn
er 82 ára
ÖLL ÆTTIN HJÁLPAR
Uppskerustörf Ásgeir Núpan
og Einar Halldórsson nota frí-
in til að taka upp kartöflur.
Hlutverk þeirra er að tína frá
grjót og köggla.
Breyttur opnunartími hjá Útlendingastofnun
Frá 15. september n.k. verður afgreiðsla og sími stofnunarinnar
opin alla virka daga frá kl. 10:00 til 14:00. Fyrirspurnum varðandi
dvalarleyfi og vegabréfsáritanir sem eru í vinnslu hjá stofnuninni er
svarað á símatíma leyfafulltrúa, mánudaga til fimmtudaga frá
kl.10:00 til 12:00. Símatími varðandi lögfræðitengd málefni er
þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 10:00 til 12:00.
Útlendingastofnun vonast til að þessi breyting verði til þess að hægt
verði að stytta málsmeðferðartíma umsókna, auka á hagkvæmni í
rekstri stofnunarinnar og stuðla að bættri þjónustu.