Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1980, Blaðsíða 104
102
Jón Friðjónsson
1.3
Valfrjálst afturbeygðar sagnir eru mjög margar í íslensku, enda er í
raun átt við áhrifssagnir, þar sem frumlag og andlag geta hugsanlega
verið sami aðili. Sem dæmi slíkra sagna skulu eftirtaldar tilfærðar,
flokkaðar eftir fylgiorði. Naumast þarf að taka fram, að hér er aðeins
um lítið brot valfrjálst afturbeygðra sagna að ræða, nánar tiltekið þær
sagnir, sem fyrir koma í dæmasafni því, sem liggur til grundvallar þess-
ari grein:10
1. Valfrjálst afturbeygðar sagnir með þolfalli: klœða sig, auglýsa sig, afsaka
sig, raka sig, verja sig, ráða sig, bjóða sig fram, kynna sig, telja sig, mála sig,
dulbúa sig, skrá sig, reyna sig.
2. Valfrjálst afturbeygðar sagnir með þágufalli: þvo sér, greiða sér, hrósa sér,
fórna sér, leyfa sér, kaupa sér.
3. Valfrjálst afturbeygðar sagnir með eignarfalli: hefna s'm, gœta sín.
4. Valfrjálst afturbeygðar sagnir með forsetningu: finna til sín, taka á sig, gefa
kost á sér.
Auðvitað er hér um allt of fáar sagnir að ræða til þess að unnt sé að
slá nokkru föstu um tíðni sagna einstakra flokka, en við lauslega at-
hugun — blaðað var í gegnum orðabók Sigfúsar Blöndals — virðast
sagnir af þriðja flokki mjög sjaldgæfar en sagnir af fyrsta og öðrum
flokki algengastar, einkum þó sagnir með þolfalli. Hins vegar er líklega
hæpið að telja ofangreindar þrjár sagnir í fjórða flokki og aðrar sam-
bærilegar sagnir valfrjálst afturbeygðar, þar sem merking þeirra gjör-
breytist yfirleitt sé notað annað andlag en afturbeygt fomafn (finna til
sársauka vs. finna til síri). Því er e. t. v. eðlilegra að líta á slík tilvik
sem merkingarleg afbrigði aðalsagnar, afbrigði með sérstökum setn-
ingafræðilegum einkennum eða jafnvel sem aðra sögn. Svipað er uppi
á teningnum í flestum slíkum tilvikum, og má því telja almenna reglu,
að afturbeygðar sagnir með forsetningu séu skyldubundið afturbeygðar.
1.4
Skyldubundið afturbeygðar sagnir em miklu færri en valfrjálsar, og
er það að vonum, þar sem valfrjálst afturbeygðar sagnir em raunar
áhrifssagnir almennt með ákveðnum merkingarfræðilegum einkennum,
10 Kjarni þessarar greinar er um 120 dæmi, sem safnað hefur verið úr mæltu
máli og rituðu síðast liðin 3-4 ár. Auk þess voru búin til fjölmörg hliðstæð dæmi.
Dæmi þessi, raunveruleg og tilbúin, voru síðan borin undir dóm málnotenda, eftir
því sem þurfa þótti.