Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1980, Blaðsíða 233
Ritdómar
231
í hljóðkerfisfræði, og tekur höfundur réttilega fram, að þar séu menn langt frá
því að vera á eitt sáttir. Það er því vafamál að rétt sé að gera einvörðungu grein
fyrir kerfi Jakobsons og félaga hans, því þeirra kerfi er elst (raunar þó e. t. v.
þekktast) þeirra sem sett hafa verið fram og hefur sætt mikilli gagnrýni. Þá hefði
eins mátt gera grein fyrir þáttakerfi Ladefogeds (1971), þar sem það er yngsta
heildstæða kerfið og gerir að ýmsu leyti skiljanlegasta grein fyrir sambandi hljóða
og málkerfis og því hvernig mál nota mismunandi (en þó svipaða) hljóðfræðilega
þætti til að halda skilaboðum aðgreindum. Raunar tekur höfundur réttilega fram
að ekki sé hægt að líta á tillögu Jakobsons og félaga sem endanlega.
Þegar höfundur tekur að beita deiliþáttum til að lýsa íslenskum hljóðum (bls.
49-54) finnst mér vera gloppur í frásögninni. Hér koma allt í einu „myndunar-
legir“ deiliþættir (lokuð/ekki lokuð, opin/ekki opin o. s. frv.), sem ekki er ljóst
hvernig tengjast þeim deiliþáttum sem lýst er á bls. 87-90, og við hlið þeirra eru
notaðir „hljóðeðlisfræðilegir deiliþættir", sem bera flestir nöfn sem koma fyrir í
viðbætinum (þétt/ekki þétt, skær/ekki skær), en þó ekki allir (kringd/ekki kringd).
Eins eru einstök atriði í útskýringum á hugtakinu deiliþáttur með íslenskum dæm-
um ekki nógu skýr eða vel út færð, eins og þegar segir (bls. 24) að nefjunin sé
þáttur sem greinir milli „fónemanna d og n“. Athugull lesandi gæti spurt hvort
röddunin skipti hér engu máli, þar sem d t. a. m. í dót er óraddað, en n eins og í
nót er raddað. Hvers vegna er nefjun kölluð deiliþáttur, en röddun fylgiþáttur?
Hér er raunar ekki við höfundinn einan að sakast, því aðferðir hljóðkerfisfræð-
innar eru ekki svo fullkomnar að þær gefi alltaf einhlít svör við spurningum um
hvaða þáttur í tilteknu hljóði eða hljóðasambandi sé raunverulega deilinn (eða
aðgreinandi). Hér nægir að benda á það eilífðarvandamál að ákvarða hljóðkerfis-
lega stöðu lengdar í íslensku í pörum eins og man [ma:n] og mann [man:]. Þetta
grundvallarvandamál í hljóðkerfisfræði leiðir höfundur hjá sér.
Undir fyrirsögninni „Hljómþættir" er (á bls. 28-9) fjallað um hljómfall, tóna,
áherslu, lengd og dvöl. Síðastnefnda orðið er þýðing á orðinu mora, og hefði mátt
gera grein fyrir sérstöðu þess miðað við hin fyrirbrigðin, þar sem móran er venju-
lega skilin sem skipulagseining, sem hvorki hefur merkingu eða er beinlínis notuð
til að greina að einingar með ólíkar merkingar. Venjulega er ekki gert ráð fyrir
tilvist móru nema hennar sé þörf til að útskýra skipulag í dreifingu tiltekinna
hljóðfræðilegra fyrirbrigða, einkum „hljómþátta" eins og lengdar eða tóns. í raun-
inni hefði mátt nefna atkvæðið í sömu andrá, en það hefur oft verið notað í svip-
uðum tilgangi.
Ekki er ég allskostar ánægður með framsetningu höfundar í umfjöllun um
andstæðu (opposition). Hvernig ber að skilja þessi orð: „í hljóðkerfisfræði er að-
eins leyfilegt að nota beina andstæðu, þ. e. andstæðu milli tveggja eininga í senn.
Ekki er leyfilegt að nota óbeina andstæðu í hljóðkerfisfræði“ (bls. 33)? Munurinn
milli „beinnar andstæðu" og „óbeinnar" er hvergi útskýrður svo ég hafi orðið var
við. Eins er býsna stuttaraleg lýsingin á því þegar andstæða verður „þorrin"
(neutralíseruð) við vissar aðstæður. Ég óttast að sú frásögn sem er á bls. 33-4 sé
langt frá því að duga til þess að koma nýliðum í skilning um hvað við sé átt.
A bls. 34-5 er rætt um hagkvæmni fónemkerfa, og tengist það umræðu síðar