Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1980, Blaðsíða 172
170
Magnús Pétursson
skráningaraðferðir, sem tækjahljóðfræðin ræður yfir. Ef túlka á þessi
gögn, þarf að heimfæra þau upp á deilnar einingar ákveðins tungumáls.
Annars eru þau gagnslaus og merkingarlaus. Enginn, ekki einu sinni
þaulæfður hljóðfræðingur, getur túlkað hljóðróf, sveiflurit eða röntgen-
filmu til fullnustu án þess að þekkja bæði texta og tungumál. Það er
sama, hve stórkostlegar vélar og tölvur hann hagnýtir sér við rann-
sóknina; án tungumálsins eru gögnin harla lítils virði. Verk hljóðfræð-
ingsins hefst ekki fyrr en spurt er spurningarinnar, hvemig þessi fyrir-
bæri falli undir einingar ákveðins tungumáls. Þetta er það grundvallar-
atriði, sem aðskilur hljóðfræði frá hljóðeðlisfræði. Hljóðfræði er grein
hugvísinda, en hljóðeðlisfræði er eðlisfræðileg grein, grein raunvísinda.
Eðli hljóðfræðinnar sem hugvísindagreinar breytist ekki, þótt hún
komist í snertingu við eðlisfræðileg fyrirbæri.
Að framan var lögð áherzla á, að eingöngu út frá athugun hinna
eðlis- og líffræðilegu fyrirbæra væri ekki hægt að segja neitt um deilnar
einingar tungumálsins. Þetta gildir einnig öfugt. Út frá hinum deilnu
einingum tungumáls, eins og við heyrum þær, getum við aðeins sagt
fyrir að mjög takmörkuðu leyti, hvaða eðlis- og líffræðileg fyrirbæri
liggi þeim til grundvallar. Jafnvel þrautskólaðir hljóðfræðingar geta ekki
sagt fyrir um það nákvæmlega á grundvelli heyrðs hljóðs, hvernig það
sé myndað, eins og Ladefoged (1967) sýndi fram á í hinni frægu rann-
sókn sinni. Sama kom í ljós við rannsókn mína á myndun íslenzkra
hljóða (Magnús Pétursson 1974). Fjölmörg hljóð reyndust allt öðmvísi
mynduð en Björn Guðfinnsson (1946) lýsir í rannsókn sinni. Einkum
er sérhljóðakerfið gjörólíkt, en einnig er svo um ýmis samhljóð. Þetta
er ekki af því, að Bjöm Guðfinnsson hafi verið fákunnandi um hljóð-
myndun, heldur einfaldlega af því, að ekki er unnt að lýsa myndun
málhljóða nákvæmlega með því að reiða sig nær eingöngu á heym og
tilfinningu, eins og Bjöm Guðfinnsson varð að gera. Hér er framlag
tækjahljóðfræði ómetanlegt, enda er það löngu orðin almennt viður-
kennd staðreynd, að án slíkra rannsókna geti lýsing á hljóðmyndun
aðeins verið ófullkomin. Af þessu er ennfremur augljóst, að alþjóðlegt
hljóðritunarkerfi, sem tákna ætti nákvæma hljóðmyndun fyrir öll hljóð,
er koma fyrir í tungumálum heimsins, er óraunvemleg óskhyggja, ef við
tökum þá hugmynd bókstaflega. Enginn, sem ekki þekkir neitt til við-
komandi tungumáls, getur lesið hljóðritaðan texta, svo að fyrir inn-
fæddan sé skiljanlegt og aðgengilegt (Pilch 1978).