Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1980, Blaðsíða 232
230
Ritdómar
gerður milli merkingarbærra eininga (lexíkógrammatískra eininga) og merkingar-
greinandi eininga (hljóðkerfislegra eininga) tel ég að sé mikilvægur til skilnings á
eðli mannlegs máls. Það er svo aftur önnur saga hvernig höfundi tekst að gera
grein fyrir þessari og fleiri hugmyndum á skiljanlegan hátt; mér finnst víða skorta
allmikið á að framsetning sé nógu ljós.
Höfundur leggur í inngangskaflanum áherslu á að málið sé félagsfyrirbrigði, og
er síst vanþörf á því, þar sem margir einblína um þessar mundir á hina sálfræði-
legu hlið tungumáls og tals. Mál verður ekki til nema í samskiptum manna, og
eðli mannlegs máls ræðst ekki síst af því að það er tæki til að skiptast á skilaboð-
um, en nóg um það.
A bls. 16-17 ræðir um „svið“ málkerfisins (levels), setningakerfi, hljóðkerfi
o. s. frv., og þar er að mínu mati óheppilega stílað, því að af orðum höfundar
mætti skilja að merkingarfræði ein fjalli um setningar, orð og orðstofna, sem
höfundur kallar merkingareiningar málsins. Hvergi er minnst á setningafræði eða
beygingarfræði. Ekki er ég allskostar hrifinn af orðinu „orðhluta-fónemsvið" sem
þýðingu á orðinu morfófóncmík, en hef þó ekkert betra fram að færa.
Fyrsta þætti bókarinnar lýkur á umræðu um „málhljóð" og „fónem“, þar sem
segir m. a. að málhljóð tilheyri tali, en fónem málkerfinu. Hér er komið að mjög
vandmeðförnu efni, sem mönnum hefur gengið misjafnlega að forma fyrir sér,
en það er sambandið milli hljóðkerfisins (hljóðkerfislegra formeininga) og efnis-
þátta hins raunverulega hávaða sem eðlisfræðilegs fyrirbrigðis, skynjunar hans og
framleiðslu. Auk þeirra tveggja orða sem nú voru nefnd, fónem og málhljóð,
skýtur síðar upp orðunum afbrigði og fónbrigði (bls. 26), sem virðast notuð í svip-
aðri merkingu og málhljóð. Raunar er málhljóð skilgreint sem afbrigði fónems
(bls. 19). í orðasafni er fónbrigði sagt þýðing á „allophone" og málhljóð er sagt
vera „sound of speech". Mér er ekki vel ljóst hvernig á að skilja þessi orð öll
saman. Svo gæti virst sem orðin málhljóð og afbrigði megi nota um sömu hluti,
en það er ekki að sjá að þeim sé ætlað að hafa nákvæmlega sömu merkingu. Það
er viss skynsemi í því, og er stundum gert, að nota orð eins og „speech sound“
sem hlutlaust orð um hljóðfræðilcg fyrirbrigði (sem getur þó verið erfitt að af-
marka án kerfislegra raka) og nota allófóns- eða fónbrigðisorðið einungis þegar
rætt er um hlutverk eða stöðu þessara hluta í kcrfinu sem fulltrúa fyrir hitt eða
þetta fónemið. Ef þetta var meining höfundar, hefði það mátt koma skýrar fram,
og því frekar að hér er um inngangsbók að ræða, þar sem fyrsta boðorð hlýtur að
vera skýrleiki í útskýringum á grundvallarhugtökum.
Annar þáttur bókarinnar fjallar nánar um hljóðkerfisfræði frá almennu sjónar-
miði og hefst á útlistun á sambandi hljóðfræði og hljóðkerfisfræði, en þar sem
höfundur fjallar um þessi efni á öðrum stað í þessu hefti læt ég nægja að vísa til
þess hér.
Um deiliþætti og fylgiþætti hljóða er fjallað á bls. 24-6, og í viðbæti á bls. 86-
90 er gerð stutt grein fyrir tillögum Jakobsons, Fants og Halles (frá 1952) um
algilda aðgreinandi þætti. Spurningin um aðgreinandi þætti og hlutverk þeirra í
hljóðkerfum og hvort rétt sé að gera ráð fyrir algildu kerfi þátta er mjög mikilvæg