Vera - 01.04.2000, Blaðsíða 60
„Maður fær bara móral yfir að
fá sér kaffibolla á morgnana."
Svona orðaði einn áhorfenda
kvikmyndarinnar Aska Angelu
tilfmningar sínar og víst er að
upplifun þeirra sem lesa bókina
í ofanálag er jafnvel enn sterkari.
Kvikmyndin Aska Angelu byggir
á samnefndri bók þar sem höf-
undurinn, Frank McCourt, lýsir í
meira lagi napurlegum uppvaxt-
arárum sínum í New York og
síðan Limerick á Irlandi.
Sögumaðurinn hefur bókina
á þeirri staðhæfingu að foreldrar
hans hefðu átt að halda sig í
NewYork, þar sem þau hittust, giftust og hann fæddist. í staðinn
sneru þau aftur til Irlands þegar sögumaðurinn, Frank, var fjög-
urra ára, Malachy bróðir hans þriggja ára, Olíver og Eugene, tví-
burabræður hans, tæplega eins árs og Margrét systir þeirra dáin og
grafin. „Þegar ég rifja upp æsku mína skil ég ekki hvernig ég lifði
hana af. Barnæska mín var auðvitað ömurleg, enda hefðuð þið
tæplega áhuga á barnæsku fullri af hamingju. Ömurleg írsk barn-
æska er mun verri en venjuleg ömurleg barnæska, og ömurleg
írsk-kaþólsk barnæska er jafnvel ennþá verri."
Lesandinn getur ekki annað en tekið undir þessi upphafsorð
sögumannsins, írsk-kaþólsk barnæska hans á óumdeilanlega vinn-
ingin þegar bornar eru saman ömurlegar barnæskur. Faðir Franks,
Malachy McCourt, er aumkunarverður drykkjumaður sem notar
þá litlu peninga sem hann fær í atvinnuleysisbætur, eða útborgaða
þá sjaldan hann fær vinnu, frekar til aó styrkja Guinness-fjölskyld-
una en að fæða og klæða eigin fjölskyldu. Sagan er sögð frá sak-
leysislegu sjónarhorni Franks frá því hann er lítill drengur í New
York þar til hann er um tvítugt og er á leið aftur til NewYork. Meg-
inþorri frásagnarinnar fer því fram í smábænum Limerick á Irlandi
þangað sem fjölskyldan flytur til að flýja eymdina. Eymdin fylgir
þeim hins vegar eftir þar sem hún er ekki staðbundin, hvorki við
Bandaríkin né Irland, heldur tilkomin vegna drykkjusýki fjöl-
skylduföðurins.
Móðir Franks, Angela McCourt, gerir það sem hún getur til að
útvega fjölskyldunni fæði og húsnæði. Hún fær ölmusu öðru
hvoru hjá góðgerðarsamtökum kirkjunnar og tímabundið hjá
„bænum" en hefur þó ekki jafn greiðan aðgang og aðrir í sömu
stöðu að slíkri ölmusu sökum uppruna eiginmannsins úr norðri.
Frank verður meira að segja vitni að því eitt sinn að sjá móður sína
betla afganga við dyr prestsins en lengra niður verður víst varla
komist. Móðir Franks er því andlegt rekald sem ekki er mikill
styrkur í fyrir börnin, andlega og líkamlega niðurbrotin eftir nær
linnulausa meðgöngu og fæðingar í algjörri fátækt, auk þess sem
hún missir síðan þrjú barnanna.
Samfélagið sem Frank lýsir á Irlandi er ekki til að bæta barnæsk-
una. Það markast af gríðarlegri stéttaskiptingu sem kemur meðal
annars fram í því að Frank fær ekki að vera „altarisdrengur", þó
hann kunni alla latínuna sem til
þarf, og seinna, þegar kennarinn
hans hvetur hann til að ganga
menntaveginn, skellir írsk-kaþ-
ólska kirkjan dyrunum aftur fram-
an í hann þegar hann leitar til
hennar eftir námsstyrk.
Það sem kannski bjargar Frank
frá að feta í fótspor föður síns, og
því miður svo margra annarra
írskra karla, er kennarinn sem
hvetur hann til að mennta sig
frekar og fordæmir stéttaskipting-
una sem heldur gáfuðum drengj-
um (nota bene, ekki alveg nógu
víðsýnn til að innifela stúlkur)
niðri og býður þeim enga valkosti aðra en að verða póstsendlar,
verkamenn og svo auðvitað drykkjumenn á kvöldin.
Þegar Frank liggur við dauðans dyr á sjúkrahúsi, fárveikur af
taugaveiki, gerir hann sér allt í einu grein fyrir því að hann muni
ekki deyja heldur lifa veikindin af vegna þess að læknirinn sem sit-
ur yfir honum leysir vind: „Hann hallar sér á stólnum og prump-
ar og brosir í kampinn og þá veit ég að mér mun batna, læknir
myndi aldrei prumpa í viðurvist deyjandi drengs.“
Sérstaða þessarar sorglegu endurminningabókar er hversu upp-
full hún er af hlýju og húmor. Meginhluti frásagnarinnar er sagð-
ur í sakleysislegum tón barnsins og út frá skilningi hans á atburð-
um og aðstæðum í kringum sig. Föður Franks er til að mynda
alltaf lýst með mikilli væntumþykju, þó það sé veikleiki hans sem
er undirrót hörmunga fjölskyldunnar. Það er í aðra röndina öll
þessi væntumþykja sem gerir það að verkum að lesandinn fær
beinlínis sting í hjartað. Hann sér saklaust barnið mæna upp á föð-
ur sinn og trúa öllu sem hann segir, og faðirinn bregst barninu
ítrekað. Ef ekki væri fyrir hið húmoríska sjónarhorn sögumanns-
ins efast ég um að lesendur myndu lifa bókina af.
Aska Angelu segir frá hræðilegum lífsskilyrðum á svo einlægan
hátt að þau sem leggja hana frá sér ósnortin eru einfaldlega vond-
ar manneskjur. Fátækt og drykkjusýki eru eitt af tabúum samfé-
lagsins, ástand sem ekki má tala um, og því getur lesandinn ekki
annað en dáðst að hugrekki sögumannsins sem eflaust þurfti að
rífa ofan af mörgum löngu grónum sárum til að skrifa þessa bók.
Líkt og flestar konur á ég það til að fella eitt og eitt fagurt tár
yfir kvikmyndum en þetta er í fyrsta sinn sem ég lendi í því sama
yfir lýsingum á bók. Enda hlaut hún Pulitzer verðlaunin. Lesendur
bókarinnar verða síður en svo sviknir af kvikmyndinni sem gerð
hefur verið eftir bókinni. Þar leika Emily Watson og Robert Car-
lyle aðalhlutverkin og eru mjög sannfærandi í hlutverkum óláns-
samra foreldra söguhetjunnar. Aska Angelu verður frumsýnd í Há-
skólabíói föstudaginn 28. apríl. Og fyrir þá sem vilja lesa meira um
Frank McCourt þá er komið út framhald Ösku Angelu, bókin heitir
T’is, þar sem þráðurinn er tekinn upp eftir að sögumaður flytur
aftur til Bandaríkjanna.
B Q tó M E N N I 1 B.
Jóhanna Vigdis Cuðmundsdóttir
60 • VERA