Vera - 01.04.2000, Blaðsíða 14
±J E T A S T
B A B A S T
Kristín Heiða Kristinsdóttir
Frelsið
eykur tilfinningalegt tóm
Ég brá mér í gamla góða Þjóleikhúsið á dögunum með
það sérstaklega í huga að skoða hvernig samskipti
kynjanna í (vestrænu) nútímasamfélagi birtast í verkinu
KOMDU NÆR, eftir breska leikskáldið Patrick Marber.
Þetta grátbroslega verk sýnir ágætlega það sem þau sem
hafa verið „á djamminu" (til lengri eða skemmri tíma)
kannast vel við: Það eru allir að sofa hjá öllum og allir
eru ástfangnir af rangri manneskju. Komu mér þá í hug
gömlu góðu og sönnu orðin: lllt er að leggja ást á þann
sem enga kann á móti.
Höfundurinn veltir líka upp spurningum um vald
í samskiptum kynjanna. Það liggur ekki alltaf í
augum uppi hver hefur vald yfir hverjum og í
hverju valdið felst. Sumir kæra sig ekkert um það
vald sem þeir hafa yfir einhverjum, aðrir vilja að
einhver hafl vald yfir þeim og enn aðrir misbeita
valdi. Allt spilar þetta sína rullu í lífi fólks: Kynlífs-
vald, peningavald, stéttavald o.s.frv.
Mikið hefur verið rætt um opinskáar kynlífs-
lýsingar í þessu verki og vissulega er heilmikið af
slíku, en mér þótti leikritið vera miklu fremur um
tilfmningar en kynlíf. Það er fyrst og fremst um
það hversu mikil óreiða verður í kynlífshegðun
þegar fólk lifir í svo firrtu (stórborgar)samfélagi
sem raun ber vitni. Marglofað frelsi (án ábyrgðar)
eykur aðeins það tilfinningalega tóm sem allir eru
að reyna að komast undan. Allir leita og flýja úr einu faðmlagi í
annað og vita kannski ekki einu sinni hvers þau eru að leita og
hvað þau eru að flýja. Það er þetta eirðarleysi og ófullnægja sem
verður til þess að fólk gerir bara eitthvað frekar en ekkert. Og
ósjaldan bitnar það á einhverjum öðrum eða þeim sjálfum. Fólk
veit bara ekki hvernig það á að hegða sér í samfélagi þar sem all-
ar gáttir eru galopnar. Og hegðun fólks verður oft á tíðum í hróp-
andi ósamræmi við skoðanir þess. I svokölluðum velmegunarsam-
félögum er fólk svo vant því að fá allt sem því dettur í hug og láta
allar langanir eftir sér. Af þessu leiðir að það verður yfirmáta sjálf-
hverft og einmana.
Höfundurinn kemur einnig inn á samskipti fólks á Irkinu.
Hvernig fólk getur rætt þar saman undir fölskum formerkjum
(skipt um kyn og aldur t.d) og allt hverfist það um kynlíf. Þetta
getur augljóslega bæði haft jákvæðar og neikvæðar afleiðingar í
för með sér, hefur reyndar mjög svo skondnar afleiðingar í leikrit-
inu.
KOMDU NÆR er hið ágætasta leikrit og raunsönn lýsing á sam-
skiptum kynjanna á núlíðandi tímum og eiga leikararnir hrós skil-
ið fyrir frábæra frammistöðu.
I lokin má geta þess að ein setning Larrys í verkinu truflaði mig
svolítið:
„Og ef konurnar sœu bara hvað fer fram í hausnum á okkur, óþverrinn
sem sullast um heilann í okkur daglega ... við yrðum hengdir upp á
pungnum."
Hvers vegna í ósköpunum halda karlmenn að engan sora sé að
finna í kvenmannsheila? Ég veit ekki betur en að konur séu engu
minni klámhundar en karlar, þær eru bara ekkert að hrópa það á
torgum úti. Eða kemur þetta kannski til af tvöfeldninni sem felst í
því að konur vilja gjarnan látast vera meyjur til að gangast upp í
þeirri hugmynd karla að þær séu svo hvítar, hreinar og dyggðug-
ar? Hvers vegna skyldu konur skammast sín fyrir dræsuna í sér?
Erum við enn að ríghalda í gamlar hugmyndir um „eðli“ konunn-
ar, vegna ótta við útskúfun frá körlum?