Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1955, Blaðsíða 96
norskir menn sæktnst eftir þeim öðrum bókum
fremur. Þegar kemur fram á 16. öld eru heimildir
um allmörg konungasöguhandrit i Noregi, eða að
danskir menn hafi fengið slik handrit þaðan. Það er
kunnugt að þá voru í Noregi flest aðalhandrit Heims-
kringlu, en af þeim voru Kringla og Frísbók skrifuð
af íslendingum, Frisbók sennilega i Noregi. Önnur
Heimskringlu-handrit sem í Noregi geymdust voru
skrifuð af Norðmönnum: Jöfraskinna, Eirspennill
og Gullinskinna. Loks þýddi Norðmaðurinn Peder
Claussön Friis Heimskringlu undir lok 16. aldar eftir
handriti sem síðan hefur glatazt, og verður nú ekki
vitað hvar það hefur verið skrifað. Hin handritin
sem nefnd voru komust síðar til Danmerkur og
glötuðust þar öll nema Frísbók og Eirspennill. Auk
þessara handrita er vitað um nokkur önnur kon-
ungasöguhandrit af íslenzkum uppruna i Noregi á
16.' öld. Má af þeim nefna Bergsbók (með sögum
ólafanna beggja), sem nú er í Stokkhólmi, AM 68
fol. (Ólafs saga helga), handrit sem nú eru glötuð
af Orkneyinga sögu, Böglunga sögum o. fl.
Þegar áhrifa húmanismans tók að gæta í Dan-
mörku á 16. öld, leið ekki á löngu áður en danskir
sagnfræðingar fóru að leita heimilda um fornsögu
Norðurlanda í íslenzkum konungasöguhandritum
sem geymd voru í Noregi. Varð það fyrst með þeim
hætti að þeir fengu norska menn til að gera úr þeim
úldrætti eða þýða þau á danska tungu. En þegar
kom fram á síðari helming 16. aldar fóru þeir einnig
að safna að sér handritunum sjálfum til frekari rann-
sókna. Vitað er t. d. að sagnfræðingarnir Anders
Sþrensen Vedel og Arild Huitfeldt eignuðust íslenzk
handrit, og hafa vafalaust flest þeirra verið fengin
frá Noregi. En þessi handrit komu þeim að litlu
haldi, þvi að þeir gátu ekki lesið þau, sem ekki var
von, þar sem íslenzk tunga var þeim með öllu
ókunnugt mál.
(94)