Árbók VFÍ - 01.06.1992, Page 239
Jarðskjálftasvæði Suðurlands 237
mælingar hófust í heiminum rétt um síðustu aldamót. Þekking á öðrum stórum skjálftum þar
byggist á sögulegum heimildum. Langmestan skerf til rannsókna á jarðskjálftum fyrr á öldum
hefur Þorvaldur Thoroddsen lagt fram. Eina heildaryfirlitið um jarðskjálfta á íslandi og frarn
til síðustu aldamóta er rit hans Landskjálftar á Islandi sem kom út í tveim hlutunr árin 1899 og
1905. Síðan hafa einkum þeir Sigurður Þórarinsson í (Eysteinn Tryggvason o.fl., 1958) og
(1974), og Sveinbjörn Bjömsson (1975) og í (Guðjón Petersen o.fl., 1978) bætt við þekkingu á
sögulegum skjálftum. A Veðurstofu Islands hefur einnig verið unnið að rannsóknum á sögu-
legum skjálftum í tengslum við áhættumat (Páll Halldórsson og Ragnar Stefánsson, 1986,
1987; Páll Halldórsson, 1991). Enn er margt óunnið í þessum efnunr og vantar heildaryfirlit
um jarðskjálfta á Islandi frá upphafi þar sem nútíma heimildarýni er beitt.
5 Er hægt aö segja fyrir um Suöurlandsskjálfta?
Eitt meginmarkmið jarðskjálftafræðinga er að geta varað við jarðskjálftum með sem mestri
nákvæmni. A síðustu áratugum hafa skipst á tímabil svartsýni og bjartsýni um það hvort þetta
væri unnt. En þrátt fyrir mörg áföll hafa menn haldið áfram reynslunni ríkari við að leita leiða
til að spá fyrir um jarðskjálfta (Páll Einarsson, 1985).
Allar þær mælingar og rannsóknir sem hér hefur verið lýst eru gerðar til að fá sem bestar
upplýsingar um Suðurlandssvæðið, bæði um ástand þess og hegðun, m.a. með það að markmiði
að geta varað við jarðskjálftum.
Frá því á 12. öld er vitað um a.m.k. 33 ár sem skjálftar hafa valdið umtalsverðu tjóni á
Suðurlandi. Ef heimildageilin á 15. öld er talin frá eru að meðaltali rúmlega 20 ár milli slíkra
skjálftaára. Frá 1700 er vitað um 7 ár þar sem skjálftar hafa náð a.m.k. stærðinni 6. Samkvæmt
reynslu síðustu 300 ára er meðalendurtekningartími skjálfta af stærðinni 6 eða meira rúmlega
40 ár. Nú eru liðin 80 ár frá því að skjálfti af þessari stærð varð síðast og sé gengið út frá því að
svæðið hagi sér með svipuðum hætti á næstunni og síðastliðin 300 ár, eru u.þ.b. 90% líkur á
því að skjálfti af stærðinni 6 eða meira verði á næstu 20 árum.
Ef gengið er út frá því að Suðurlandsskjálftar hegði sér með svipuðum hætti í næstu framtíð
og þeir hafa gert frá því á tólftu öld, þ.e. gangi yfir í hviðum, ganga þær yfir að meðaltali á 90-
100 ára fresti.
Slíkur líkindareikningur gefur okkur almenna þekkingu á við hverju megi búast á svæðinu.
Þetta er með öðrum orðum langtímaspá. Þær eru gagnlegar í sambandi við hönnun mannvirkja
og hverskonar áætlanagerð. Þær gagnast hins vegar ekki til að segja fyrir unt einstaka atburði.
Þetta á jafnt við um það hvenær skjálfti verður eftir langt hlé og eins um hitt hvort slíkur
skjálfti sé upphafið að skjálftahviðu og hvernig hún muni haga sér.
Til þess að geta sagt fyrir um einstaka atburði og atburðarás í kjölfar þeirra eru ítarlegar
rannsóknir á hegðun jarðskorpunnar nauðsynlegar. Markmiðið er að greina þær breytingar
sem eiga sér stað fyrir jarðskjálfta. Hér er bæði um að ræða samfelldar breytingar og einstaka
atburði, forboða. Aðalvandinn varðandi jarðskjálftaspár er hvað jarðskjálftar eru tiltölulega
fátíðir atburðir. Það hefur tvíþættar afleiðingar. I fyrsta lagi tekur það mjög langan tíma að
safna upplýsingum um hegðun jarðskorpunnar í aðdraganda jarðskjálfta, þannig að sú þekking
komi að notum við að segja fyrir um síðari skjálfta. í öðru lagi verður sá langi tími sem líður
milli jarðskjálfta oft til þess að áhugi fyrir verkefninu dofnar og erfitt verður að fá fjármagn til
að halda áfram nauðsynlegum mælingum.