Árbók VFÍ - 01.06.1992, Page 302
300 Árbók VFÍ 1991/92
að huga vandlega að náttúrufari svæðisins fyrst og líklegum afleiðingum þess á hina fyrirhug-
uðu byggð? Þessar og aðrar álíka spurningar eru því miður alltof sjaldgæfar í okkar þjóðfélagi.
Framkvæmdagleði og órökstudd bjartsýni virðist í ýmsum tilvikum vera hið hagræna leiðar-
ljós, sem þjóðfélag okkar lætur sér nægja til þess að byggja ákvarðanatöku á. Það er alltaf tími
til þess að staldra við og skoða sig um með það í huga að finna leið út úr slíkum ógöngum
óraunsæis og offara.
Til viðbótar má minna á vandræði Akurnesinga vegna langvarandi landbrots, sem nýlega
hefur verið rifjað upp í fréttum, stórfelldan efnisflutning á ströndinni við Vík í Mýrdal og við
ós Jökulsár á Breiðamerkursandi á undanförnum vetrum. Þessar breytingar virðist koma ýms-
um í opna skjöldu og sannar það enn einu sinni að rannsókn íslandsstranda er ófullkomin,
skilningur okkar á þróunarferlum þeirra frumstæður og ónógur til þess að byggja á honum
skipulag landnota eða nota sem hönnunarforsendur strandmannvirkja.
Nauðungarflutningar eru ekki æskileg viðbrögð á hættusvæðum, nema hættan sé mjög bráð
og yfirvofandi. Það er því ástæðulaust að búast við því að til þeirra verði gripið í alvöru. Fáum
kemur til hugar að flytja fólk brott frá hættustað, eins og t.d. Eyrarbakka, vegna strandflóð-
anna, eða Kópaskeri vegna jarðskjálftahættu, svo dæmi séu tekin, og leggja slíka þéttbýlisstaði
niður. En þessa og aðra slíka staði á að skipuleggja með hliðsjón af náttúrufarinu í mun ríkara
mæli en hingað til hefur verið gert. Það er lfka ástæða til þess að hugieiða hvort ekki eigi opin-
berlega að stuðla á einhvern hátt að fækkun ónauðsynlegra nýbygginga og kerfisbundinnar
uppbyggingar á stöðum sem eru á náttúrufarslegum hættusvæðum, einkum þar sem stutt er til
öruggari uppbyggingarstaða. Landgæði á hættusvæðum þarf sjaldnast að yfirgefa eða leggja af
notum. Flutningatækni er slík að til þess þarf ekki að koma. Hins vegar þarf umhugsun og
skipulag, sem byggt er á þekkingu og raunhæfu mati, en ekki því sjónarmiði, að allt sem var
skuli vera og við það skuli auka óháð yfirvegun og skynsamlegu markmiði og án tillits til um-
hverfisins eða náttúruváa.
Þakkir
Viðlagatrygging Islands kostaði vinnu við heimildakönnun og gerð strandflóðaannálsins og
frumskýrslugerð um hann. Geir Zoega forstjóri Viðlagatrygginga íslands og Gísli Viggósson
deildarstjóri á Hafnamálastofnun létu í té upplýsingar, sem notaðar hafa verið. Jarðfræðing-
arnir Jón Eiríksson, Kjartan Thors og Páll Einarsson hafa lesið handrit að þessari grein með
uppbyggjandi gagnrýni í huga. Öllum þessum aðilum er þökkuð veitt aðstoð.