Bændablaðið - 20.04.2011, Blaðsíða 18

Bændablaðið - 20.04.2011, Blaðsíða 18
18 Bændablaðið | fimmtudagur 20. apríl 2011 Á þessum síðustu tímum tölum við meira en áður um auðlindir landsins og látum okkur varða um varðveislu þeirra, rétt lands- manna til að eiga þær óspilltar. Við viljum tryggja þjóðareign á þeim, sjálfbæra nýtingu þeirra, eyða ekki meiru en af er tekið, láta þjóðina og landið njóta arðsins fremur en einstaklinga og hindra flutning arðsins úr landinu. Landið sjálft, landgrunnið, jarðefni ýmiss konar, moldin, ræktað land og gróður- inn á túnum, högum, heiðum og hálendi eru auðlindir, sem verja ber gegn eyðingu, ofnýtingu og spillingu, sömuleiðis vatnið í og á jörðinni, kalt sem heitt og orkan sem því fylgir, orkan í sjávarföll- unum, fiskurinn í sjónum. Vaka þarf yfir hreinleika umhverfisins Hreinleiki umhverfisins, lofts, jarðar, vatns og sjávar, mengunarleysi í íslensku umhverfi er þjóðargersemi. Það má samlíkja mengun hugarfars- ins og mengun umhverfisins, Hvort tveggja er af manna völdum, hvort tveggja er hægt að tempra, jafnvel uppræta, ef nægilegt fjármagn, en þó fyrst og fremst, ef nægur vilji er fyrir hendi – Vilji er allt sem þarf- var einu sinni sagt. Það er satt nú sem fyrr. Það er verið að virkja orku lands- ins með ýmsum hætti, sem sjálfsagt er. Virkjunum fylgir oft mengun. Hófstilling, fyrirhyggja og gát er nauðsyn í því sem öðru. Kirkjan er annað gersemi, en hún þarf að bæta sig og þora Við hugsum ekki hversdagslega um kirkjuna okkar, sem þjóðargersemi. Í sögulegu samhengi er hún það samt. Hún hefur varðveitt þjóðararfinn okkar, huggað fólkið, beint því frá glapstigum yfir á réttar brautir og örfað til dáða. Að vísu hafa ýmsir þjónar hennar, meira að segja æðstuprestar, gert sitt besta til að spilla trú manna og trausti á þessa dýrmætu stofnun með framferði sínu. Þá hafa allt of margir þeirra vanrækt að nota predikunar- stóla landsins til að tala við fólkið á máli sem það skilur. Þeir þora fæstir að tala með beinskeyttum hætti til yfirvalda og segja þeim til syndanna, tala til skálkanna og ræningjanna, sem hafa steypt mörgum í fátækt meðan þeir sjálfir hafa makað krókinn og spillt mannorði lands- manna. Þeir hafa vanrækt að tala til skilanefnda bankanna, sem eiga að hjálpa til að koma fjármálalífinu á réttan kjöl, en nota aðstöðu sína til að raka til sín fé af tómri græðgi og með blessun stjórnvalda. Eru störf þeirra kannske dýrmæt- ari en starf kennarans í grunnskóla? Er ábyrgð þeirra meiri? Þegar á reynir er það ekki nema síður sé. Kirkjan með sínum predik- unarstól og hollri kenningu er og verður þrátt fyrir allt þjóðargersemi, en hún þarf að bæta sig. Hún þarf að þora. Hún á ekki að láta neitt mann- legt vera sér óviðkomandi. Þar á meðal er flúorskýið, sem svífur yfir Akrafjalli og Esjunni og inn allan Hvalfjörð á reykferju granna síns. Með vettlingum, pípu og tóbakspung Hallgrímur Pétursson, sem bjó hér á Ferstiklu þorði að segja yfirvöld- unum og græðgismönnum til synd- anna og talaði mál sem allir skildu og snerti það. Hugsum til þess, hversu vel hann hittir í mark á vorum tíma, þegar við lesum passíusálmana um páskana. Mig langar loks að nefna þjóðar- gersemi, arf, sem við flest höfum verið svikin um. Það eru kvæðalög, stemmur. Það á vel við að tala um þær hér í þessu héraði á þessum stað, þar sem Sveinbjörn Beinteinsson allsherjargoði lifði og dó. Hann átti stóran þátt í að kynna rímnalögin, stemmurnar og bjarga þeim til fram- tíðar, þegar menn hæddu og hlógu að þeim mönnum, sem fengust við svoddan iðju. Hann hvílir undir heiðnum krossi í kristnum reit hérna neðan við veginn í Saurbæ með vett- lingum sínum og pípu og tóbaks- pung. Þurfum að verja húsdýrin Ég nefni aðrar dýrmætar eignir okkar allra, þjóðargersemar, sem við þurfum að verja og varðveita: tungumálið, listaverk huga og handa, náttúruperlur, húsdýrin okkar, kúna, hestinn, kindina, geitina, íslenska hundinn og landnámshænuna. Allar búa þessar dýrategundir yfir kostum, sem eru á ýmsan hátt ein- stæðir og ekki til í hliðstæðum dýra- tegundum í öðrum löndum. Auk þess hafa þær flestar aðlagast íslenskum aðstæðum þannig, að þær eru betur fallnar til að lifa hér en innflutt kyn. Aldalöng einangrun og eindregin vörn gegn smitsjúkdómum hefur tryggt hreinleika, varðandi smit- sjúkdóma en um leið valdið mót- stöðuleysi gagnvart smitefnum. Þetta höfum við margsinnis fengið staðfest með gálausum innflutningi karakúl- pesta, hestapesta og hundapesta. Nú eru yfirvöld búfjársjúkdóma hérlendis farin að gleyma og leggja of snemma niður varnir, sem byggðar hafa verið upp gegn útbreiðslu smit- sjúkdóma innanlands og dugað vel til að uppræta þá. Varnarlínur eru ennþá mikilvægar Varnarlínur mynda varnarhólf á Íslandi og hafa sumar verið lengi við lýði. Þær stöðva óþarfa flutn- inga lífdýra milli misjafnlega sýktra svæða og hafa auðveldað útrýmingu smitsjúkdóma af einu varnarsvæði á fætur öðru. Auk þess eru þær og munu verða vörn gegn nýjum smit- sjúkdómum, sem munu berast til landsins með auknum samgöngum og meira frjálsræði í flutningum, sem verður t.d. við inngöngu í Efnahagsbandalagið. Margar varnarlínur hafa verið lagðar niður í sparnaðarskyni nýlega, án nægs samráðs við þá sem við þær búa, með yfirgangi og að sumu leyti gegn ákvæðum laga og reglna. Sumar varnarlínur kosta lítið sem ekkert í viðhaldi. Leyfðir hafa verið flutningar á sauðfé og geitum frá sýktum svæðum til ósýktra. Ég hefi reynt mitt ítrasta til að vara við gáleysi í þessum sökum, án árangurs. Við verðum að taka upp sjálfbærar varnarlínur aftur, þegar þessari hryðju linnir. Of fáir bændur átta sig á hættunni ennþá. Bændasamtökin tvístíga til að halda frið innanstokks að því er virðist og til að þóknast þeim verslunarglöðu, sem þrýsta á og telja frjálsa flutninga í anda ESB allt að því helgan rétt. Búnaðarþing treystist ekki taka þetta upp af sömu ástæðu. Landbúnaðarnefnd Alþingis og ráðu- neyti sjávarútvegs og landbúnaðar er ráðalaust og máttlaust gagnvart embættismannaveldinu. Ég kalla þetta skemmdarverk af skilningsleysi. Páll Agnar Pálsson yfirdýralæknir kallaði það hryðju- verk gagnvart rannsóknum og bar- áttu gegn smitsjúkdómum, þegar Tilraunastöðinni á Keldum var splundrað. Ég verð að segja eins og Geiri í Gufunesi, þegar honum blöskraði skilningsleysi og rangs- leitni. “Guð blessi ykkur.” Hættulegt brennisteinsvetni Borað er eftir orku í heitum æðum í jörðinni. Upp gýs brennisteinsvetni með gufunni, brennisteins úr djúpu díki. Það er heilsuspillandi í miklum styrk, hættulegt fyrir fólk, einkum börn, gamalt fólk, þá sem eru með viðkvæm lungu. Það hefur áhrif á skepnur og gróður. Fleiri efni í jarðgufum eru eitruð eins og kvikasilfurog arsen, þeim mun hættulegri, sem styrkur þeirra er meiri og nú bætist Díoxín frá brennslustöðum í hópinn. Sem betur fer er styrkur eiturefna óvíða heilsuspillandi fyrir fólk ennþá, þar sem óhollar gufur liggja ekki dögum saman yfir byggðum, heldur dag og dag í senn í vissum áttum og við ákveðnar aðstæður. Það er sagt að hægt sé að hreinsa óholl efni úr gufunum nær algjörlega. Gott er það, ef satt er, gott er það, ef það er viðráðanlegt vegna kostnaðar. Gott væri, að það yrði gert. Ef tæknin er til mætti hreinsa óholl efni úr gufum, sem streyma nú frá þeim virkjunum, sem teknar hafa verið í notkun. Eru ekki í gangi rannsóknir á þessum sviðum? Við spyrjum og óskum svara við því, hvort hreinsuð verður sú mengun, sem nú er í lofti frá orkuveitum sem við finnum fnykinn af í stærsta þéttbýlissvæði landsins, fnyk frá Hellisheiðarvirkjun og Nesjavalla, sem gæti haft óholl áhrif á öndunar- færi þeirra, sem veikir eru og við- kvæmir og fest eiturefni í líkama íbúanna. Nú er farið að nálgast hættumörk suma daga við ákveðnar aðstæður. Eftirlitsaðilar hafa brugðist Við Hvalfjörð, Hveragerði, Ísafjörð, Eyjafjörð, Kirkjubæjarklaustur, Vestmannaeyjar og víðar, er um að ræða mengun, sem er hættuleg heilsu fólks, hollustu matvæla og fóðurs, spillir gæðaímynd, skaðar trúverðuleika heilbrigðisstofnana, eftirlitsaðila, umhverfisstofnunar og umhverfisráðuneytis. Öll viðbót er hættuleg fyrir framtíðina. Eftirlitsaðilar hafa brugðist og munu gera það nema íbúar standi á vakt. Umhverfisráðherrann þarf að standa fast í fætur fyrir okkur. Þakka má staðfestu hennar í vörninni, þrátt fyrir harkalega og ósanngjarna gagn- rýni, oft af hálfu gróðaaflanna. Þar er um líf og heilsu fyrir fólkið og dýranna að tefla, þegar til lengri tíma er litið. Flúormengun frá álverum Ég hefi fylgst með verksmiðjum hér á landi og erlendis af öðrum toga um áratuga skeið, til dæmis álverk- smiðjum. Mengunarefni, sem hættu- legast er við þá iðju er flúor en þau eru mörg fleiri. Af kerjum, sem sífellt þarf að skipta um er margvísleg mengunarhætta. Hvers vegna draga þeir lappirnar og svíkjast um, sem treyst er til að standa í fararbroddi við eftirlitið? Hvers vegna skoða þeir ekki kind- urnar, sem þegar eru farnar að sýna einkenni um eitrun? Hvers vegna skal draga úr eftir- litinu í stað þess að efla það? Hvers vegna skal mengunarvald- urinn líta eftir sjálfum sér? Hvers vegna eru hestamenn hálf sofandi gagnvart stóðhestagirðing- unni undir verksmiðjuveggnum, þar sem dýrmæt gæðingsefni framtíðar fæðast og alast upp? Sveitarstjórnir og íbúar við Hvalfjörð og víðar um land þurfa að hafa fulla meðvitund um hættu af mengandi iðju á sínu svæði og vilja og kraft til að knýja á um afmengun og úrbætur á eftirlitinu. Flúor hleðst upp í beinum og tönnum Flúor keppir við kalkið, sest í tennur og bein, ryður kalkinu til hliðar, veikir beinin, ef mengunin er mikil. Góður búnaður er til, sem hreinsar flúor úr verksmiðjugufunni að miklu leyti. Hvað gerist, ef búnaðurinn bilar? Það hefur gerst. Þá hellist óþverr- inn yfir gróður, skepnur og fólk í umhverfinu og hann hleðst upp í líkamanum, safnast fyrir. Hvað gerist, ef bilunin uppgötv- ast ekki í tæka tíð, eða, ef þagað er yfir slysinu? Það hefur líka gerst. Afleiðing þess er eitrun, sem kemur í ljós eftir nokkurn tíma, jafnvel nokkur ár, ef magnið er ekki mjög mikið. Varnarbúnaður getur bilað og mannleg mistök orðið. Þá er voðinn vís. Mín niðurstaða er sú að slíkar verksmiðjur eigi ekki að reisa í grennd við bústaði manna og búskap- arlönd. Dokum við og athugum, hvaða áhættu við erum að taka og hverju við viljum fórna fyrir ágóðann og látum á það reyna, hvort fram- kvæmanlegt er að hreinsa óholl efni úr verksmiðjureyknum, hvort það verður gert, áður en hafist er handa um stækkun. Mikilvægast af öllu, er þekking íbúanna og samstaða um að verja gersemar sínar. Þess vegna erum við hér. Sigurður Sigurðarson dýralæknir. Réttur landsmanna til að eiga óspilltar auðlindir: Hreint umhverfi er þjóðargersemi - Grein byggð á ávarpi á fundi Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð 10. apríl 2011 Ræktun sauðkindarinnar og framleiðsla landbúnaðarafurða á allt sitt undir því að umhverfið sé óspillt af mengunar- efnum. Sigurður Sigurðarson dýralæknir skoðar tennur í kindarhaus í leit að flúor- skemmdum árið 1980.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.