Bændablaðið - 29.03.2012, Blaðsíða 28

Bændablaðið - 29.03.2012, Blaðsíða 28
28 Bændablaðið | fimmtudagur 29. mars 2012 Útigangshross – klakaklárar 2012 – Í umhleypingum og hrakviðrum frá áramótum Lesendabás Frá því fyrir áramót og fram undir það síðasta hefur verið rysjótt tíðar- far, umhleypingar. Það skiptust á snjóar með jarðbönnum, frosti og þíðum, aftur frosti, roki, hagléljum og úrfelli stundum. Mér bárust eins og oft áður ábendingar frá ýmsum stöðum á landinu um hross, einnig nautgripi, sem hímdu við hraklega vist í skjólleysi á nauðbitnu landi, lítið væri flutt til þeirra af fóðri, jafnvel ekkert dögum saman. Margir komu að máli við mig um þetta, þar á meðal menn í ferða- þjónustu, sem sögðust skammast sín þegar þeir þyrftu að svara spurningum útlendinga um hross sem stæðu skjól- laus á blettum við veginn. Sums staðar væru blettirnir upptroðið forarsvað. Þokkaleg landkynning það! Mörgum var þungt niðri fyrir og sögðu að seint gengi að losna við þessa þjóðarsmán, sem ill meðferð á dýrum væri. Ég sagðist myndi koma kvörtunum þeirra til ábyrgðaraðila eða eftirlitsaðila og reyna að fylgja þeim eftir. Mér var sagt að það þýddi lítið. Á sumum þessum stöðum hefði þetta ástand verið óbreytt lengi, jafnvel varað árum saman, þrátt fyrir árlegar kvartanir. Því væri svarað til af eftirlitsaðilunum, að málin ,,væru í skoðun“, væru í ,,ferli“, stundum væri sagt, að manni kæmi þetta ekkert við. ,,Það virðist gleymast að dýrin kveljast á meðan beðið er,“ var sagt við mig. Margir hika við að kæra, óttast að nafnleynd verði ekki virt og það kosti óþægindi, illyrði, vinslit, jafnvel lang- varandi óvináttu. Þrjú dæmi af mörgum um vonda meðferð á útigangshrossum Á einum staðnum voru tvær fylsugur. Þær voru sagðar farnar að leggja af, langt væri síðan til þeirra var flutt hey, kannske ein rúlla um áramót. Ég hrökk við, þegar ég heyrði þetta. Þetta var rétt sunnan við Suðurengi á Selfossi, þar sem ég bý. Ég hafði ekkert vitað af þessu. Ég kannaði aðstæður á þeim stöðum, sem mér var bent á og sann- færðist um að ekki væri allt eins og vera ætti. Hryssurnar tvær og folöldin voru svöng, þau eigruðu til mín, þegar ég fór að girðingunni þeirra. Beit var snauð, ekki merki um að hey hefði verið flutt til þeirra nýlega, ekkert skjól. Á öðrum stað í næsta hólfi voru 10 hestar, sem ekki höfðu skjól heldur. Beit var rýr. Menn höfðu fylgst með þessum hrossum vikum saman og sögðu að lítið hefði verið fóðrað. Á þriðja staðnum niður með Eyrarbakkavegi voru nær því hálft hundrað hrossa, þ.á.m. hryssur með folöldum. Flest voru þau hross farin að leggja af, ekkert skjól var til staðar, ekki voru för eftir vélar, sem flutt hefðu hey til hrossanna nýlega en plastdrasl af eldri rúllum var á girð- ingum og troðið ofan í svaðið, landið orðið bitið. Eftir að reynt hafði verið án árangurs að fá upplýsingar um eigendur og ná sambandi við þá, var þess óskað, að ég ræddi við útvarp og sjónvarp. Ég gerði það. Það brá svo við, að á flestum stöðum þar sem aðbúð og umhirða var ekki í lagi varð þessi fregn til þess að úr var bætt strax, samdægurs eða daginn eftir. Hryssurnar og folöldin voru fjarlægð og farið að flytja hey til hrossanna í hinum hólfunum, ný för voru eftir dráttarvél hjá síðast nefndu girðingunni. Ekki hafa þó verið sett upp skýli ennþá. Það ætti að gera strax. Ekki er jarðklakinn til að hindra það. Vonandi verða skjól komin næsta haust. Það ætti að banna útleigu á skjóllausum hólfum til vetrarbeitar, nema þar séu sett upp fullgild skýli eða mat lagt á það, hvort náttúrleg skjól séu nógu góð, áður en hross eru flutt á svæðin. Vonandi eru úrbæturnar ekki bara til að sýnast, heldur varanlegar. Til þess þarf eftirfylgni en hún gleymist því miður allt of oft. Langflestir hestamenn fara vel með hrossin Það er ósanngjarnt og rangt að saka alla hestamenn um illa meðferð á hestum sínum eins og örlað hefur á og að þeir tími ekki að gefa þeim hey. Ég veit, að flestir hrossaeigendur og hestamenn fara vel með sína gripi og hafa aðbúðina óaðfinnanlega. Heiður sé þeim. Hinir þurfa að bæta ráð sitt. Það þarf að safna glóðum elds að höfð- um þeirra fáu, sem spilla mannorði annarra hestamanna og þjóðarinnar, brjóta lög og reglur og fara illa með skepnur og láta þá engan frið fá, uns þeir hafa bætt ráð sitt. Þeir sem hafa allt í lagi, þola skoðun, hvenær sem er og þeirra sómi vex þegar staðfest er að allt sé í lagi. Það þarf að reyna að bæta og sam- ræma vinnu eftirlitsaðilanna og snerpa á framgöngu þeirra. Jafnvel þyrftu þeir að skiptast á eftirlitssvæðum. Það hefur reynst vel og kippir mönnum frá kunningjum og vinum í hópi þeirra sem þeir eiga að líta eftir. En það er ekki bara vanfóðrun, sem er til óþurftar, offóðrun er það líka. Nú þarf sjónvarpið með aðstoð hestamanna að sýna og benda á aðstæður, aðbúð og umhirðu, þar sem allt er til sóma. Sýna hvernig gera á. Mikil viðbrögð við fréttum um útigangshrossin Ég hef fengið talsverð viðbrögð við viðtölunum í útvarpi og sjónvarpi, 40-50 símtöl og tölvupósta. Ég gleðst yfir áhuga manna. Nær því allir sam- þykkja að þetta viðkvæma mál var tekið upp með þessum hætti. Flestir sjá að hjá okkur er ekki allt í nógu góðu lagi. Ég fékk líka ábendingar um ýmislegt sem bæta þarf og hef reynt að koma þeim áfram. En menn hika við að segja frá, eru hræddir um að nafn- leynd verði ekki virt. Ég þekki þennan ótta manna við að segja frá, ,,kæra“, og reyni að létta mönnum það með því að taka við ábendingum í trúnaði, þótt ég sé hættur störfum og ætti að fara að þagna að dómi sumra. Ég er ekkert farinn að þreytast og ekki hættur að bregðast við og mun halda því áfram, ef leitað er til mín í þessum efnum. ,,Kemur nóttin næðisgóð nógu fljótt í gröfum,“ sagði Stephan G. Það mun enginn fá að vera í friði fyrir mér. Ég vona að menn átti sig á því. Nú þurfa hestamenn sjálfir að hafa fund, ræða málin, gera ályktanir og áætlun um úrbætur strax, skipa starfsnefndir í hverju héraði sem reki slyðruorð af stéttinni, ekki benda á aðra. Reka á eftir því að alls staðar séu fullgild skjól, nóg fóður og aldrei skorti vatn. Eftirlitsaðilar eru máttlausir einir. Ekki yfirdýralæknir lengur Fréttamaður sem ég ræddi við 20. mars um útigönguhross sagði að ég hefði verið yfirdýralæknir til margra ára. Það er rangt. Kannske átti hann við það, að ég hefði verið yfirdýralæknir fyrir mörgum árum. Ég er titlaður yfirdýralæknir annað kastið. Það er gert í gáttlæti af vinum og kunningjum, í stríðni og sjálfsagt í háði stundum. Ég læt mér á sama standa um það. Ég hefi reynt að leið- rétta þessa vitleysu mörgum sinnum. Ég óska þess nú enn einu sinni að menn láti af því að sæma mig þeim titli. Ég sótti ekki um embætti yfir- dýralæknis á sínum tíma, þegar ég átti e.t.v. kost á því. Ég gegndi því embætti í hálft ár fyrir 25 árum, að beiðni Páls Agnars Pálssonar yfir- dýralæknis í veikindum hans. 2. Ill vist hjá útigangshrossum og nautum Náttúrleg skjól og manngerð skýli (kaplaskjól) Víðar er illa farið með dýr árið 2012 en í kringum Selfoss. Víðar en við hring- veginn eru hross á útigangi, skjóllaus eða skjóllítil og stöku sinnum einnig fóðurlítil, einnig nautgripir, einkum á Suðurlandi, þar sem úrkoma og umhleypingar eru meiri en víðast hvar annars staðar á landi hér. Oftast fá skepnurnar þó nægilegt fóður. Offóðrun er ekki góð, getur kostað heilsuleysi hjá skepnum eins og hjá fólki. Hvorki má vera of né van. Það eiga búfjáreftirlitsmenn að þekkja og ráðunautarnir. Þeir meta aðstæður og gefa eigendum góð ráð. Algengast er að vanti skjól gegn öllum áttum í illviðrum (kaplaskjól) og stundum vantar nægan aðgang að góðu vatni. Nautgripir af íslensku kyni þola verr kulda og hrakviðri en hross og sum holdanautakyn. Náttúrleg skjól eru sums staðar fullnægjandi og ágæt, en einnig mjög víða ófullkomin. Það þarf að skilgreina, hvað teljast fullnægjandi skjól. Manngerð skýli vantar mjög víða, þar sem ekki eru náttúrleg skjól. Til eru teikningar af slíkum skjólum hjá Bændasamtökunum og víðar. Kynningu á slíkum skýlum og hvatningu til að byggja þau er ábóta- vant. Umgengni um skýli og hús, sem notuð eru fyrir skepnur, er stundum mjög slæm, en það nær samt engri átt að réttlæta skjólleysi úti með því að víða sé notað húsnæði hálft af skít og án viðunandi loftræstingar. Það þarf að bæta það sem er ófullkomið eða ólíðandi í umhverfi dýranna, hvort heldur er úti eða inni, en ekki vera að réttlæta slæmt ástand með því að til sé eitthvað enn verra. Vinnubrögð eftirlitsaðila ómarkviss Ég þekki það frá því að ég var for- maður Dýraverndarnefndar ríkisins og vegna afskipta síðar af dýra- verndarmálum, að eftirlitsaðilar eiga erfitt með að koma fram úrbótum, þegar þeir mæta ósamvinnuþýðum mönnum, sem telja sig hafa meira vit en aðrir og telja sig ekki þurfa að fylgja lögum og reglum. Viðbrögðin verða þá oft ómarkviss og fálmkennd hjá eftirlitsmönnunum. Hver vísar á annan. Ef ekki er farið nákvæmlega eftir lögum og reglum frá upphafi eins og vera þarf, getur mál tapast. Allt fer í sama far, ef eftirfylgni vantar. Vinnubrögð, sem nú eru fordæmd, voru kynnt nýlega í Þjóðmenningarhúsi á Íslandi: Loðnar skýrslur eða engar, óskýrt tal, ekkert hægt að staðhæfa, engan hægt að sakfella, engan lærdóm hægt af að draga, engar úrbætur vænt- anlegar. Vinnubrögðin ónýta stundum mál. Búfjáreftirlitsmenn fara árlega um svæði sitt á útmánuðum. Sumir þeirra telja sig ekki þurfa að sinna eftirliti þess á milli. Það er rangt. Áður var skoðað búfé og fóðurbirgðir haust og vor. Það var óheppilegur sparnaður að hætta haustskoðun, það bitnar á dýrum. Búfjárftirlitsmenn ættu að fylgjast með dýrum á sínu svæði allt árið, m.a. með því að koma upp trún- aðarmönnum. Þeir verða fyrstir manna varir við ófullnægjandi umhirðu og aðstæður og brot á dýraverndarlögum og reglum. Þeir þurfa að átelja STRAX með einurð en vinsemd það sem er ólíðandi, leiðbeina í sama anda, gefa stuttan frest, en skrifa alltaf skýrslur um stöðu mála STRAX, ekki með óskýrum orðum, ekki halda upplýs- ingunum hjá sér í von um bata. Það tefur úrbætur fyrir dýr, sem eiga rétt á þeim tafarlaust. Það er ekki von að Matvælastofnun, hvað þá dómarar, geti tekið í taumana ef skýrslur sem berast eru loðnar og kveða ekki skýrt uppúr um illa með- ferð dýra, vanfóðrun og vanhirðu. Búfjáreftirlitsmönnum er líka rétt og skylt að reka á eftir ábendingum sínum til Matvælastofnunar, héraðs- dýralæknis og hvaða dýralæknis ann- ars, sem allir hafa svarið þess eið að vernda dýrin og vera málsvarar þeirra, og til búnaðarráðunauta, lögreglu eða sveitarstjórna, ef þeim finnst seinlega brugðist við. Dýrin á þeirra svæði eru skjólstæðingar þeirra og eiga stundum ekki annan að til bjargar frá hungri, þorsta, meiðslum og annarri illri með- ferð en búfjáreftirlitsmanninn. Vilja vantar, öguð vinnubrögð og myndugleika Sjaldnast vantar lagaheimildir til að koma á úrbótum. Oftar vantar vilja, rétt og öguð, hiklaus vinnu- brögð til hjálpar dýrunum og bein í nefið á eftirlitsaðilum og dómurum. Sveitarstjórnir, sem líka bera sína ábyrgð, eru oft ráðvilltar, ef eftir- litsaðilarnir bregðast. Málin taka allt of langan tíma. Réttur eigenda til að ráða yfir sínum dýrum og græða á þeim er oft metinn hærri af dómurum en réttur dýranna til fóðurs og vatns, lífs og heilsu. Sektir eru lágar, jafnvel felldar niður. Tugthús aldrei nefnd. Það ætti að vera leyfisskylt til eins árs í senn að hafa búfé og auðveldara þyrfti að vera en nú að svipta þá leyf- inu sem bregðast. Hinir, sem allt hafa í lagi fái endurnýjun leyfis sjálfkrafa. Látið fleiri en einn eftirlitsaðila vita Ég hvet alla, sem eru í aðstöðu til að fylgjast með gripum á útigangi vegna kunnugleika, vegna ferða um landið o.þ.h. að láta fleiri en einn eftirlits- aðila (búfjáreftirlitsmanna, ráðunauta, héraðsdýralækni, sveitarstjórn, lög- reglu...) vita og það helst skriflega um illa meðferð á hrossum og eftir atvikum öðrum dýrum, hvar sem þess verður vart og fylgjast með því síðan, hvort eitthvað er gert í málinu. Okkur kemur þetta öllum við. Það er einmitt það sem vantar, að vegfarendur og nágrannar og kunnugir láti vita um illa meðferð dýra hvar sem það er augljóst eða grunur um slíkt. Aðhald almenn- ings hefur vantað. Það skaðar ekki þá sem hafa allt í lagi. Þeir hreinsast. Ég veit, að margir hika við að segja frá slíku undir nafni vegna ótta við að lenda í óvinsældum, illyrðum og jafnvel langvinnri óvináttu. Ég þekki þetta af eigin reynslu og hef tekið því vel, þegar menn leita til mín og kynna áhyggjur sínar um velferð dýra og ég reyni að koma þeim áleiðis til réttra aðila. Vegna þess að stundum er verið að koma illu orði á saklausa menn með því að segja þá ranglega dýraníðinga er nauðsynlegt að kanna allar ábendingar vel og fá upplýst (í trúnaði að sjálfsögðu) hverjir kæra. Er þagað yfir upplýsingum og villt um fyrir eftirliti? Það er ekki gott, ef eftirlitsmenn, nágrannar og sveitungar, jafnvel lögregla, sýslumenn og dómarar, stunda svarta samtryggingu, þegja eða tala óskýrt um það, sem ekki er nógu gott, vegna vináttu eða með- aumkun með sökudólgum, villa um fyrir þeim sem reyna að fylgja eftir réttum reglum og leppa þá sem dæma ber og dæmdir hafa verið. Dæmi um þetta eru þekkt og slík fúlmennska tefur það, að dýravernd sé virt alls staðar. Þeir, sem bera rangar sakir á saklausa, fá skömm í hattinn, en skömm hinna, sem brjóta af sér gegn dýrunum opinberast og þeir verða knúðir til betri siða. Sigurður Sigurðarson dýralæknir, Suðurengi 31, Selfossi „Ég veit, að flestir hrossaeigendur og hestamenn fara vel með sína gripi og hafa aðbúðina óaðfinnanlega. Heiður sé þeim. Hinir þurfa að bæta ráð sitt. Það þarf að safna glóðum elds að höfðum þeirra fáu, sem spilla mannorði annarra hestamanna og þjóðarin- nar, brjóta lög og reglur og fara illa með skepnur og láta þá engan frið fá, uns þeir hafa bætt ráð sitt. Þeir sem hafa allt í lagi, þola skoðun, hvenær sem er og þeirra sómi vex þegar staðfest er að allt sé í lagi."

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.