Fréttatíminn


Fréttatíminn - 11.03.2011, Page 28

Fréttatíminn - 11.03.2011, Page 28
Þ að má segja að það hafi ríkt marg-föld gleði þegar Hayley Kaja Canrom kom í heiminn á fæðing- ardeild Landspítalans laugardaginn 29. mars árið 2008. Sólin skein, himinninn var bjartur og allt hélst í hendur til að gera þennan dag að sæludegi í lífi for- eldranna, Matthildar Stefánsdóttur og Herberts Canrom. Hayley Kaja hefur verið mikill gleði- gjafi í fjölskyldu sinni frá þeim degi sem hún kom í heiminn. Nú er hún orðin stór stelpa, alveg að verða þriggja ára, og farin að venjast því að fólk nánast stökkvi á hana á Laugaveginum eða í stórmörk- uðum og hálf gargi: „Almáttugur, hvað hún er falleg!“ Talar út í eitt! Og það er ekki orðum aukið. Falleg blanda foreldra frá Íslandi og Úganda sem kynntust eins og margir á skemmtistað í Reykjavík nokkrum árum áður og höfðu gengið í heilagt hjónaband árið 2007: „Herbert var búinn að dvelja hér í nokkurn tíma við nám í Háskólanum,“ segir Matthildur, sem starfar sem leið- beinandi við leikskólann Álfatún í Kópa- vogi. Þar er Hayley Kaja líka, bara ekki á sömu deild og mamma hennar starfar á. „Hayley er mjög vinsæl stelpa og á marga góða vini, en bestu vinirnir eru Onni Máni og Særós María. Ef ég á að lýsa henni þá þarf ég nú ansi mörg orð!“ segir Matthildur hlæjandi. „Hún er glöð, skapgóð, ákveðin, fyndin, stríðin – og mjög sjálfstæð, sem sýndi sig til dæmis í því að hún byrjaði að klæða sig sjálf eins og hálfs árs og það var ekkert mál hjá henni að hætta með bleiu og snuð. Hún byrjaði líka að borða sjálf mjög ung; vildi ekkert vera að láta mata sig! Hún er líka alveg einstaklega minnug, man til dæmis auðveldlega hvað gerðist fyrir tveimur, þremur mánuðum. Hún talar út í eitt – og sækir það víst í móðurætt mína,“ segir Matthildur stríðnislega og sendir hér með móðurfjölskyldunni tóninn í gríni. „Við Herbert tölum saman á ensku og Hayley Kaja skilur alveg ensku, en talar íslenskuna auðvitað miklu meira, þar sem hún er á leikskóla allan daginn og Herbert vinnur frá morgni til kvölds eins og fleiri. Amma hennar – mamma mín – segir að Hayley sé svona lítil „kelling“!“ Dansar um leið og hún heyrir tónlist Þær mæðgur eru miklar útivistarmann- eskjur og varla líður svo dagur að þær fari ekki saman í langar gönguferðir: „Hayley Kaja vill helst alltaf vera á hreyfingu,“ segir Matthildur. „Hún má ekki heyra tónlist, þá er hún byrjuð að dansa, og svo er hún alveg þrælliðug. Við erum ákveðin í að koma henni í fimleika sem fyrst. Við förum mikið í sund, förum auðvitað að skoða í búðir eins og allar alvöru mæðgur, förum á snjóþotu þegar það er nægur snjór, heimsækjum vini og ættingja og erum mjög nánar mæðgur. Hún er algjört ljós í lífi mínu.“ Fæddi andvana barn fyrir sjö árum Hér talar Matthildur af reynslu því fyrir sjö árum fæddi hún andvana dóttur þegar hún var komin nítján vikur á leið. „Nathalia Rut fæddist 20. febrúar árið 2004 og það var óskaplega erfitt að fæða andvana barn. Það sem bjargaði mér algjörlega eftir þá lífsreynslu var að góð vinkona mín, Thelma, eignaðist dóttur tveimur árum síðar, Hrafntinnu Ölbu, og leyfði mér að vera mikið með hana. Ég hafði hlakkað mikið til að verða mamma, enda hef ég alltaf verið mjög hrifin af börnum og gerði í því að fá að passa frændsystkin mín og önnur börn þegar ég var yngri. Þegar ég varð ófrísk að Nat- haliu Rut fór ég strax að undirbúa komu hennar, kaupa föt og annað sem ungbörn þurfa að eiga, en fór samt fremur gæti- lega þar sem sú hjátrú er ríkjandi að ekki eigi að undirbúa komu barns of mikið. Eftir að hafa upplifað að missa hana, var ég fegin að hafa ekki verið búin að gera meira.“ Ónærgætni Það var við skoðun í sónar á nítjándu viku meðgöngu sem Matthildi var sagt að barnið sem hún gengi með væri látið. „Ég hafði ekki orðið vör við neitt óeðli- legt og hafði meira að segja farið í fóstur- mælingu skömmu áður þar sem allt var í lagi. Þegar ég kom í sónarinn var hjá mér kona sem sagði strax að eitthvað væri ekki í lagi. Ég spurði hvað hún meinti, en þá bað hún mig að bíða á meðan hún sækti lækni. Það fóru þúsund hugsanir í gegnum huga minn, en ekki sú að barnið væri dáið. Þegar læknirinn kom sögðu þau mér að barnið væri dáið og hvorugt þeirra sýndi nokkra tillitssemi. Það var eins og þetta væri ekkert mál.Mér var ekki einu sinni klappað á öxlina. Með mér þarna var Karó vinkona mín og við vorum bara tvær nítján ára stelpur sem enga reynslu höfðum af sorg og sorgar- viðbrögðum. Ég grét algjörlega út í eitt og ég er alls ekki viss um að fólk átti sig á þeim sáru tilfinningum sem fylgja fóstur- missi. Margir sögðu við mig: „Já, en þú átt nú örugglega eftir að eignast barn seinna.“ Síðar fékk ég langt og gott sam- tal við félagsráðgjafa og gat rætt hvað ég var ósátt við hvernig að þessu var staðið. Hún sagði mér að hún skyldi sjá til þess að tekið yrði á þessum málum og ég veit að það var gert. Það skipti öllu máli á þessu tímabili hvað ég á góða og trausta fjölskyldu. Mamma, pabbi, bræður mínir og barnsfaðir minn voru öll sem klettar við hliðina á mér og leyfðu mér að gráta. Það var enginn í töffaraleik né sagði að allt yrði í lagi. Þau tóku fullan þátt í sorg minni og grétu með mér.“ Jarðsett hjá langafa sínum Matthildur var látin fæða litlu stúlkuna látnu og segist aldrei sjá eftir því: „Ég var farin að bindast barninu svo sterkum böndum að ég hefði ekki viljað vera svæfð eða deyfð og barnið fjarlægt. Hinn 20. febrúar 2004 fæddi ég því litla, gullfallega andvana stúlku, með fallegt nef og alveg eins og ég hafði séð hana fyrir mér í draumum mínum. Ég fékk að sjá hana strax eftir fæðinguna og svo var hún tekin af stofunni og klædd í falleg föt og komið með hana aftur. Hún var þá komin með húfu á höfuðið, alltof stóra húfu á þetta litla fallega höfuð og húfan var alltaf að renna til. Pabbi hennar brást við með því að vera sífellt að laga húfuna þá klukkustund sem við höfðum hana hjá okkur. Séra Jóna Hrönn Bolladóttir, sem þá var miðborgarprestur, annaðist minn- ingarathöfnina á einstakan hátt, en hana þekkti ég í gegnum starf hennar hjá sam- tökunum „Gleym mér ei“. Hún hélt svo bænastund fyrir allan hópinn í Fríkirkj- unni og það var mér mikils virði. Nathalia Rut var síðan jarðsett hjá afa mínum, Árna Kristjánssyni, í Gufuneskirkjugarði og þangað fer ég reglulega og set kerti eða blóm á leiði þeirra.“ Átti alltaf þann draum að eignast barn Barnsmissirinn varð ekki til þess að Matthildur missti trúna á að hún gæti eignast barn aftur. „Nei, ég þráði alltaf að eignast barn. Eftir barnsmissinn elskaði ég að sjá lítil börn og ófrískar konur því ég hélt alltaf í þann draum að ég yrði aftur ófrísk. Þegar sá draumur rættist svo var ég auðvitað alveg í skýjunum. Mér leið vel alla með- gönguna en það eina sem ég breytti var að ég þorði ekki að kaupa neitt og hafa tilbúið fyrir barnið ef eitthvað kæmi fyrir. Þegar ég var komin nítján vikur á leið, greip óttinn mig: „Hvað ef þetta gerist aftur?“ En, guði sé lof, þá gerðist ekkert og fröken Hayley Kaja mætti í heiminn 29. mars 2008, þremur vikum á undan áætlun, enda alltaf verið bráðlát!“ segir hún og brosir við fallegu dóttur sinni. „Þetta gekk allt ótrúlega hratt og vel fyrir sig, ég fékk harðar hríðir upp úr mið- nætti og daman mætti í heiminn rétt fyrir klukkan tíu næsta morgun. Ég trúði því alltaf að ég myndi upplifa hamingjuna við að eignast barn og langar mest að eignast þrjú – það væri nú pínulítið gaman að fá einn eða tvo stráka!“ segir hún kímin. Föðurfjölskylda Hayley Kaju hefur ekki hitt hana enn, enda búsett í Úganda: „Stefnan er sett á að fara með hana þangað þegar hún verður örlítið eldri, svo hún muni nú eftir landinu hans pabba síns og fjölskyldu sinni þar,“ segir hún. „Herbert hefur verið duglegur við að senda fjölskyldunni myndir af henni og segja þeim frá lífi hennar.“ Sólargeislinn sem kom með gleðina „En litli engillinn minn með stóru húfuna gleymist auðvitað aldrei, og ég held minningu hennar á lofti bæði með því að fara að leiðinu hennar og minn- ast hennar á vefsíðunni litlirenglar.is. Ég ráðlegg þeim sem standa í þessum sporum að tala um upplifunina. Svona reynslu fylgir allt sorgarferlið og þar er reiðin ekki undanskilin. Það er ekki hægt að ná sáttum nema vinna í málunum, fara til góðs sálfræðings, tala við prest og við vini og fjölskyldu. Það getur enginn borið sorg aleinn og það tekur marga mánuði að jafna sig á að missa fóstur eða fæða andvana barn. Ég trúi því að það hafi verið tilgangur með því að Nathalia Rut fékk ekki að lifa. Ég held að Guð færi okkur börn þegar við erum alveg tilbúin að verða foreldrar og ég var alveg tilbúin þegar litli sólargeislinn minn hún Hayley Kaja kom til okkar. Hún er mikill gleði- gjafi í fjölskyldunni og seinna á ég eftir að segja henni og hinum börnunum, sem ég vona að ég eignist, frá litlu systur þeirra, englinum á himnum sem vakir yfir okkur öllum.“ Anna Kristine ritstjorn@frettatiminn.is Sorg og sólargeisli Matthildur og Her- bert á brúðkaups- degi sínum 27. júlí 2007. Matthildur Stefáns- dóttir var nítján ára þegar henni var sagt að barnið sem hún gengi með væri dáið. Hún var látin fæða andvana stúlkuna og skírði hana Nathaliu Rut. Hún minnist hennar með því að fara að leiði hennar og kveikja á kerti og heldur minningu hennar vakandi með því að skrifa um hana á vefsíðunni litlirenglar.is Matthildur trúði því alltaf að hún myndi fæða heil- brigt barn og varð að ósk sinni þegar sólargeislinn Hayley Kaja fæddist árið 2008. Matthildur sagði Önnu Kristine frá sorginni við að fæða andvana barn og gleðinni yfir að sjá draum sinn rætast. Lj ós m yn d/ H ar i 28 fréttir Helgin 11.-13. mars 2011

x

Fréttatíminn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttatíminn
https://timarit.is/publication/944

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.