Bændablaðið - 21.02.2013, Blaðsíða 6

Bændablaðið - 21.02.2013, Blaðsíða 6
Bændablaðið | Fimmtudagur 21. febrúar 20136 Málgagn bænda og landsbyggðar LOKAORÐIN Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði. Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu. Árgangurinn kostar kr. 6.900 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.450. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300– Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279 Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 Blaðamenn: Erla H. Gunnarsdóttir ehg@bondi.is Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Freyr Rögnvaldsson fr@bondi.is – Sigurður M. Harðarson smh@bondi.is Auglýsingastjóri: Eiríkur Helgason eh@bondi.is – Sími: 563 0303 – Myndvinnsla og frágangur: Prentsnið ehf. Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621 Bændahreyfing á breyttum tímum LEIÐARINN Þjóðin getur sannarlega glaðst yfir frábærum árangri æðarbænda, sem drógu yfir hálfan milljarð króna í formi gjaldeyris í þjóðarbúið á síðasta ári. Þar er þó „bara“ verið að tala um dún sem hráefni, en ekki þann dún sem seldur er í fullunnum vörum sem framleiddar eru hérlendis. Þessi árangur er trúlega enn athyglisverðari ef menn rifja upp fréttir frá síðasta vori. Víða um norðanvert landið og á Vestfjörðum fennti æðarfugla í kaf á hreiðrum og í sumum tilfellum hraktist fugl af hreiðrunum vegna vosbúðar. Æðarbændur gerðu sitt besta til að hlúa að þessum bústofni sínum, sem enn fær að vera í friði hérlendis fyrir skotveiðum, á meðan hann er réttdræpur í sæluríkjasamsteypu ESB- landanna. Æðarfuglinn hefur þó ekki bara legið á hreiðrum í sæluvímu alla daga og reytt af sér dún þjóðinni til tekna. Hann hefur nefnilega átt sér ýmsa óvini eins og vargfugl, ref og mink. Maðurinn hefur heldur ekki verið saklaus í samskiptum sínum við æðarfuglinn. Í hartnær tvo áratugi, eftir að netaveiðar á hrognkelsum voru heimilaðar fyrr á vori en venjan var áður, mátti æðarstofninn þola mikill afföll. Æðarfuglinn nýtir nefnilega vorin til fæðuöflunar og til að fita sig fyrir varpið og langa setu á hreiðri án þess að nærast. Með reglugerðarbreytingum á hinu háa Alþingi fyrir mörgum árum var fæðuöflunaröryggi hans skyndilega ógnað. Hrognkelsanet á fæðuöflunarsvæði æðarfuglsins hafa síðan höggvið stór skörð í stofninn eins og æðarbændur hafa lýst. Það hlýtur því að vera fagnaðarefni að hlustað hafi verið á rödd Guðmundar Helgasonar í Hvalseyjum og fleiri góðra manna fyrir nýliðin áramót. Þótt hann eigi hagsmuna að gæta af hrognkelsaveiðum fór hann fram á að tekið yrði tillit til lífshátta æðarfuglsins. Steingrímur J. Sigfússon atvinnu- vega- og nýsköpunarráðherra hefur oft verið gagnrýndur fyrir ýmis mál, líka í þessu blaði. Hann á samt heiður skilinn fyrir nýja reglugerð sem hlífir æðarfuglinum og varplöndum æðarfuglsins við Mýrar. Það snýst ekki bara um afkomu æðarbænda á svæðinu, heldur ekki síður um heilbrigða skynsemi í veiðistjórnun sem gefur þannig kost á sjálfbærri nýtingu ólíkra nytjastofna. Vissulega má þó deila um harkalegan niðurskurð veiðidaga í reglugerðinni, en slíku ætti þó að vera auðvelt að hnika til ef aðstæður leyfa og sama skynsemin fær að ráða ríkjum. /HKr. Bændur og samtök þeirra þurfa og verða að taka til við að rýna starf sitt og skipulag. Í samtökum bænda býr mikill kraftur og mannauður. Reynsla og þekking sem þarf að varðveita, en ekki síður að efla. Samtök bænda byggja á gömlum grunni og eru ein elstu samtök hér á landi. Tímarnir breytast og mennirnir með. Aðstæður bænda og vinnulag hefur gjörbreyst á síðustu áratugum. Framfarir í búskap eru hraðar og landbúnaður stundaður á ýmsum forsendum. Rekstrarumhverfið hefur líka breyst og rekstrarform víða orðið annað en það var. Í búskapnum er mikil fjárbinding og skuldbindingar stórar sem kalla á trausta umgjörð. Samtök bænda láta sér fátt óviðkomandi en félög eru misvirk eins og gengur. Mörg félög vinna glæsilegt starf, láta sig varða umræður um hagsmuni landbúnaðar og standa fyrir margháttuðu starfi sem eflir bændur. En eru kraftar heildarsamtaka bænda of dreifðir? Ekki er ég í vafa um að ná má betri árangri með skarpari og hnitmiðaðri vinnu. Félög bænda þurfa líka að átta sig betur á hlutverki sínu, rækta það og virða. Í framtíðinni skulum við einbeita okkur að því að missa ekki vinnuna út um víðan völl. Við upphaf nýrra tíma í ráðgjafarþjónustunni kristallast tækifærin og verkefnin. Undanfarin ár, eins og áður hefur verið rakið í leiðurum Bændablaðsins, hafa innheimt gjöld til að standa undir verkefnum sem eru á herðum heildar- samtakanna lækkað verulega. Í raun er núna skorið svo nærri búnaðarsamböndum og Bændasamtökum að eitthvað þarf undan að láta. Hins vegar skera búgreinasambönd sig alveg úr í þeirri þróun sem verið hefur undanfarin ár. Almennt hafa þau ekki lækkað hlut sinn í búnaðargjaldi, svo dæmi sé tekið. Sum þeirra hafa aukið hlut sinn. Auðvitað er það ekki boðlegt lengur. Þau hljóta sjálf að mæta til leiks með afgerandi tillögur til breytinga. Bændasamtökin og búnaðarsambönd hafa skyldum að gegna samkvæmt landslögum og þurfa að rækja þær. Búnaðarsambönd eru og hafa verið framfarafélög. Þau hafa nú aukið rými til að snúa sér að umræðu og aðgerðum til eflingar byggðar og framförum. Samböndin hafa hlutverk í sínum landshlutum og sameina alla bændur óháð búgreinum. Þróun landbúnaðarins er ekki lokið, verkefnin felast í nýjum áskorunum og nýjum tækifærum. Ný vinnubrögð Nútíminn kallar líka á ný vinnubrögð. Ef eitt dæmi er nefnt sérstaklega eins og vinna með löggjafanum þá hafa Bændasamtökin, undir verkstjórn framkvæmdastjórans Eiríks Blöndal, lagt áherslu á að kanna grundvöll og forsendur frumvarpa með sjálfstæðum rannsóknum. Þingmál sem hafa grundvallarþýðingu fyrir landbúnað þurfa samtök bænda að meta með vönduðum hætti og mæta vel undirbúin til umræðna. Slík vinna kostar mikla fjármuni og öflugan mannskap. Þar vinna samtök bænda vel saman og þurfa að gera þar enn betur. Breytingar eiga ekki síður að miðast að því að virkja fleiri bændur í öfluga umræðu. Félagsmál okkar þrífast fyrst og fremst á því að bændur láti sig mál varða. Vegalengdir og dreifð búseta má ekki útiloka bændur frá virkri þátttöku. Er tímabært að huga að breyttum samtökum er hafa grunn sinn í hverjum og einum bónda? Beint lýðræði. Kosning um mál á netinu? Kosningar til æðstu trúnaðarstarfa verði hjá hverjum félagsmanni? Kostir fulltrúalýðræðis eru enn miklir og slíkt fyrirkomulag tryggir ágætlega fleiri en færri sjónarmið, ekki síst dreifðra byggða. Nýtum alla krafta sem bjóðast Samtök bænda eiga að bjóða velkomna alla þá sem vilja láta sig varða landbúnað og sveitir. Eftirtektarvert er að fylgjast með þróun systursamtaka okkar annars staðar á Norðurlöndunum er hafa stigið fram með þessum hætti. Þau eiga líka þétt samstarf við fólk og fyrirtæki sem tengjast landbúnaði. Kröftum bænda þarf að finna heppilegan farveg og það er lifandi verkefni á hverjum tíma. Ég vil sérstaklega fagna hve margt ungt og vel menntað fólk gengur bjartsýnt til búskapar. Það fólk lætur sig mál hans varða og því fylgja ferskir vindar. Eftir því er tekið í félagsstarfi ungra bænda að þar er horft til þess sem sameinar og að starfa saman sem bændur. Virkni bænda í félagsstörfum er mikil og það er helsti auður hreyfingar okkar. Framtíð hennar er björt og verkefnin óþrjótandi. Breytingar fela í sér tækifæri til nýrra sigra. Það eru forréttindi að starfa fyrir bændur og það ætla ég að gera áfram þótt nú verði kaflaskil. Ég hef notið þess að eiga trúnað og velvild þeirra. Það er ekki sjálfgefið og fyrir það vil ég þakka bændum. /HB Til hamingju Endurmenntun LbhÍ hélt í byrjun febrúar námskeið undir yfir- skriftinni Fóðrun og fóðurþarfir sauðfjár. Var námskeiðið haldið á Egilsstöðum og þótti heppnast vel. Hafa sams konar námskeið verið í boði víðar um land. Þessi mynd var tekin á námskeiðinu mánudaginn 4. febrúar. Kennari á námskeiðinu á Egilsstöðum var Jóhannes Sveinbjörnsson (fjórði frá hægri á myndinni). Engum sögum fer þó af því hvernig til hafi tekist með fóðrun sjálfra þátttakendanna á námskeiðinu og hvort fóðurþörfum þeirra hafi verið sæmilega sinnt. Ekki er samt að sjá annað á myndinni en að þeir séu þokkalega haldnir, enda með bakkelsið fyrir framan sig og væntanlega rjúkandi heitt kaffi á könnunni. Mynd / Guðrún Schmidt. Endurmenntun LbhÍ: Fóðrun og fóðurþarfir sauðfjár

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.