Bændablaðið - 21.02.2013, Blaðsíða 14
Bændablaðið | Fimmtudagur 21. febrúar 201314
Framleiðnisjóður landbúnaðarins auglýsir eftir umsóknum um styrki:
Áhersla lögð á kornrækt og
nýbreytni í landbúnaði
Framleiðnisjóður landbúnaðarins
auglýsir nú eftir umsóknum um
styrki. Sjóðurinn hefur nú úr um
70 milljónum að spila auk áður
úthlutaðra styrkja sem ekki hafa
verið sóttir.
Kallað er eftir umsóknum frá
bændum, samvinnuhópum bænda
og aðilum innan rannsókna- og
þróunargeirans. Við ákvarðanatöku
um úthlutanir til verkefna, sem hafa
það að markmiði að stuðla að fjölgun
atvinnutækifæra í sveitum, njóta
forgangs þau verkefni sem fela í sér
verulega nýbreytni. Þá mun sjóðurinn
veita styrki til framhaldsnáms (MS
eða PhD) á fagsviði sjóðsins.
Umsóknafrestur er til 4. apríl
næstkomandi (póststimpill gildir).
Ný stjórn skipuð
Þann 21. janúar skipaði Steingrímur
J. Sigfússon, atvinnuvega- og
nýsköpunarráðherra, nýja stjórn til
næstu fjögurra ára. Þar er Ríkharð
Brynjólfsson, prófessor, formaður
en hann kemur nýr inn í stjórn.
Elín Aradóttir verkefnastjóri og
Björn Halldórsson bóndi á Akri í
Vopnafirði eru svo tilnefnd af ráðherra.
Guðný Helga Björnsdóttir bóndi á
Bessastöðum Húnaþingi vestra og
Sveinn Ingvarsson bóndi í Reykjahlíð
á Skeiðum eru síðan tilnefnd af
Bændasamtökum Íslands.
Varamenn í sömu röð: Torfi
Jóhannesson sérfræðingur, Sigríður
Jóhannesdóttir skrifstofustjóri, Fanney
Ólöf Lárusdóttir ráðu nautur, Vigdís
Sveinbjörnsdóttir bóndi á Egilsstöðum
og Jóhannes Sigfússon bóndi á
Gunnarsstöðum.
Framleiðnisjóður er með
aðsetur á Hvanneyri, nánar tiltekið
Hvanneyrargötu 3, 311 Borgarnes.
Netfangið er fl@fl.is en umsóknar-
eyðublöð má nálgast á heimasíðu
sjóðsins, www.fl.is.
Ætlað að stuðla að hagræðingu og
nýjungum
Framleiðnisjóður landbúnaðarins var
stofnaður með lögum nr. 89/1966 sem
sett voru á Alþingi þann 17. desember
1966. Samkvæmt 1. gr. þeirra laga er
hlutverk sjóðsins að veita styrki og lán
til framleiðniaukningar og hagræðingar
í landbúnaði. Mátti jöfnum höndum
styrkja framkvæmdir og rannsóknir til
lækkunar framleiðslukostnaðar og til
þess að laga landbúnaðarframleiðsluna
að markaðsaðstæðum innan lands og
utan. Þannig gátu einstakir bændur,
afurðastöðvar, rannsóknastofnanir o.fl.
aðilar leitað eftir lánum eða styrkjum
úr sjóðnum.
Í kjölfar hruns fjármálakerfisins
2008 voru fjárframlög til
Framleiðnisjóðs landbúnaðarins
skorin niður við trog og var það hluti
þeirra skerðinga sem landbúnaðurinn
varð að taka á sig. Sjóðnum var að
nýju markaður tekjustofn í nýjum
Búnaðarlagasamningi sem undirritaður
var í fyrra og gildir fyrir árin 2013-
2017. Er starfsfé sjóðsins aukið
stighækkandi út samningstímann.
Áherslan lögð á kornrækt og
nýbreytni í landbúnaði
„Seinustu tvö árin hefur ekki verið
veitt fé til þróunarverkefna heldur
nær eingöngu til framkvæmd a á
bújörðum. Þar hefur aðallega verið
um fjárveitingar að ræða varðandi
ferðaþjónustu, m.a. hestatengdri
þjónustu. Upp á síðkastið hafa verið
styrkir til matvælaframleiðslu eins og
Beint frá býli, heimaeldhússtarfsemi
og þess háttar,“ segir formaðurinn
Ríkharð Brynjólfsson.
Um 70 til 90 milljónir í pottinum
„Nú er aftur búið að opna fyrir það
að fé sé veitt til þróunar. Sjóðurinn
hefur nú úr 70 milljónum króna að
spila úr ríkissjóði. Þá verða um 10 til
20 milljónir sem falla til vegna styrkja
sem ekki hafa verið sóttir.
Þessu verður að mestu skipt í
tvennt, annars vegar til kornræktar
og til að stuðla að markaðssetningu
á korni. Það þýðir með öðrum orðum
að opna markað fyrir íslenskt bygg
en slíkt kallar á að koma þarf upp
aukinni þurrkun. Þá er sjóðnum
einnig upp álagt að semja við
Landbúnaðarháskólann um framhald
á kynbótaverkefni í byggi. Að öðru
leyti á sjóðurinn að styðja við ýmislegt
er lýtur að aukinni fjölbreytni og
framförum og þá helst að það feli í sér
einhverja nýbreytni.“ Í þessum orðum
Ríkharðs felst væntanleg a að minni
áhersla verður lögð á uppbyggingu
ferðaþjónustu í sveitum sem notið
hefur forgangs síðustu ár.
Bókunin í búnaðarlagasamningi
Í bókun með Búnaðarlagasamningn-
um er sjóðnum settur eftirfarandi
rammi á samningstímanum:
I. Efling kornræktar
a. Framleiðnisjóður stuðli að
eflingu kornræktar m.a. með
stuðningi við grunnfjárfestingar
til markaðsfærslu á íslensku
korni.
b. Framleiðnisjóður styðji
við stofnræktun á sáðbyggi,
kynbættu fyrir íslenskar
aðstæður, samkvæmt samningi
við Landbúnaðarháskóla Íslands.
II. Framleiðnisjóður verði
leiðandi stuðningsaðili við
þróunar- og nýsköpunarstarf
landbúnaðarins m.a. með:
a. Stuðningi við rannsóknarstarf
og aðra þekkingaröflun í
greininni.
b. Stuðningi við nýsköpunar- og
þróunarstarf í greininni.
c. Stuðningi við sérstakt
orkuátak í greininni, sem ætlað
verði að bæta orkunýtingu og
auka hlut innlendrar orku til
landbúnaðarnota.
d. Stuðningi við sérstakt átak
til að efla og bæta búrekstur.
Því verði m.a. ætlað að auka
framleiðni, bæta afkomu, stuðla
að fjölþættari nýtingu bújarða og
fjölga atvinnutækifærum.
Efling gjaldeyrissparandi
framleiðslu
Ríkharð segist vonast til að sjóðurinn
geti með auknum framlögum eflt
þróun og nýbreytni í íslenskum
landbúnaði. Efling kornræktar sé t.d.
einn liður í að efla gjaldeyrissparandi
starfsemi í landinu. Fram til þessa hafi
tiltölulega lítið verið þurrkað af korni
sem sé þó skilyrði fyrir því að hægt
verði að þróa hér markað með korn til
fleiri nota en sem fóður fyrir kýr. Þá
bendir Ríkharður á að þetta tengist líka
matvæla- og fæðuöryggi Íslendinga.
Fjölmargir þættir geti valdið því að
það lokist fyrir innflutning.
„Það má rifja það upp að í október
2008 var aðeins til kjarnfóður í landinu
til eins mánaðar. Ríkisstjórnin varð
þá að forgangsraða innkaupum og
þar voru lyf efst á blaði. Ef þá hefði
lokast fyrir frekari innflutning á korni
hefði þurft að slátra öllum svína- og
hæsnastofninum á einu bretti.“
Segir Ríkharð að meðan allt leiki í
lyndi hugsi menn lítið um það öryggi
sem felist í því fyrir þjóðina að vera
sjálfri sér næg varðandi framleiðslu
matvæla. Efnahagshrunið sýni vel
hvernig málin geti þróast til verri
vegar á örskömmum tíma. Ef við
slíkar aðstæður sé búið að skera niður
landbúnað í landinu sé afar erfitt að
koma honum á fót aftur. Slíkt taki í
það minnsta mörg ár eða áratugi ef
það verði þá á annað borð hægt að fá
inn nýja stofna til að ræktunar.
Sjálfbærni í orkumálum
Einn þáttur í aukinni sjálfbærni
varðar orkumál. „Það er eitt af þeim
atriðum sem talin eru upp og miðar
að því að gera bændur sjálfbærari
með þá orku sem þeir þurfa að nota.“
Vonast Ríkharð til að Orkusetur
landbúnaðarháskóla Íslands geti orðið
þar að liði.
„Það kemur einhvern tíma að því
að það verður takmarkaður aðgangur
að olíu. Þá þurfa menn að svara þeirri
spurningu hvernig eigi að leysa það
mál,“ segir Ríkharður.
/HKr.
Ríkharð Brynjólfsson prófessor er nýr formaður Framleiðnisjóðs
landbúnaðarins. Mynd / HKr.
Nefnd ráðherra um lagningu jarðstrengja:
Haldlítil niðurstaða
Nefnd sem skipuð var til að fjalla
um lagningu raflína í jörð skilaði
af sér lokaskýrslu til atvinnuvega-
og nýsköpunarráðherra þann 11.
febrúar sl. Nefndin leggur áherslu
á að langtímastefnumörkun um
breytingar í raforkukerfinu í
heild sinni fari fram. Telur hún
eðlilegast að kanna fýsileika þess
að slík stefnumörkun verði hluti
af rammaáætlun um vernd og
nýtingu landsvæða. Ekki náðist
sameiginleg niðurstaða í nefndinni
um jarðstrengi eins og lagt var upp
með.
Þetta er önnur nefndin sem
skipuð er um þetta sama mál. Þann
1. mars 2012, skipaði þáverandi
iðnaðarráðherra nefnd um mótun
stefnu um lagningu raflína í jörð í
samráði við umhverfisráðherra, í
samræmi við þingsályktun Alþingis
frá 1. febrúar 2012. Nefndin skilaði
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra
áfangaskýrslu fyrir 1. október 2012.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra
endurskipaði síðan 29. október 2012,
nefnd til að móta stefnu um lagningu
raflína í jörð. Nýir nefndarmenn
komu frá Landvernd, Landsneti,
Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
Neytendasamtökunum, Samtökum
atvinnulífsins, Bændasamtökunum
og fulltrúi landeigenda.
Greinilegt var að veruleg
tortryggni ríkir í garð Landsnets
varðandi lagningu jarðstrengja
og helst benda menn á ógagnsæi
varðandi kostnaðarmat þegar vega
þarf kostnað milli loftlínulagna og
jarðstrengja. Í síðasta Bændablaði
kom reyndar fram að ríkið
leggur sjálft á mismundandi
innflutningsgjöld á loftlínur og
jarðstrengi þeim síðarnefndu í
óhag. Það hefur m.a. tafið lagningu
jarðstrengja víða um land að mati
RARIK.
Landeigendur deila á Landsnet
Fulltrúi landeigenda í nefndinni gerði
eftirfarandi bókun í nefndinni:
„Ég harma að ekki hafi í
starfi nefndarinnar verið reynt
að nálgast gögn um áreiðanleika
þeirra kostnaðar upplýsinga sem
flutningsfyrirtækið heldur á lofti
um háspennulínur í jörð á 220kV.
Flutningsfyrirtækið, sem eitt
fyrirtækja hefur sérleyfi á þessu sviði,
hefur ítrekað sett fram í opinberri
umræðu og í samskiptum við
einstök sveitarfélög og landeigendur
(einnig eftir að forstjóri þess settist í
nefndina f.h. fyrirtækisins í nóvember
2012) villandi upplýsingar um
kostnaðarmun á loftlínum og 13
jarðstrengjum. Í fundargerð fyrri
nefndar kemur fram að fyrirtækið hafi
gefið upplýsingar um að kostnaður
væri 6-8 faldur við að leggja
jarðstreng. Órökstuddar upplýsingar
um kostnað hafa og komið frá
fyrirtækinu á opinberum vettvangi,
m.a í tengslum við þverun Eyjafjarðar
við Akureyrarflugvöll. Bæjarfulltrúi
í Vogum greindi nýlega í fjölmiðlum
frá fullyrðingum fyrirtækisins á fundi
með fulltrúum sveitarfélagsins um 6-7
faldan mun. Í nýlegu bréfi lögmanns
fyrirtækisins til landeiganda í Vogum
er fullyrt að kostnaðarmunurinn sé
5-9 faldur. Fullyrðingarnar eru ekki
studdar gögnum.“
Landsneti ekki skemmt
Landsnet er heldur ekki sátt við
afgreiðslu nefndarinnar og segir í
sínu áliti Hagsmunaaðilar um allt
land hafa horft til nefndarinnar um
svör en orðið fyrir vonbrigðum.
„Nefndin hefur ekki skilað
neinum beinum niðurstöðum sem
taka afstöðu til umfangs jarðstrengja
á hæstu spennustigum í ljósi þeirra
áhrifa sem vænta má á gjaldskrá
almennings og atvinnufyrirtækja.
Staða Landsnets við undirbúning
verkefna í náinni framtíð er því
óbreytt. Hagsmunaaðilar um allt land
hafa horft til nefndarinnar um svör, en
samkvæmt þeirri skýrslu sem nefndin
skilar af sér eru hagsmunaaðilar litlu
nær. Nefndin hefur því ekki skilað
því verkefni sem henni var falið.“
segir Landsnet.
Þá náðist ekki samstaða í nefndinni
um að lagning jarðstrengja, loftlíwna
og sæstrengja verði tekin fyrir í þriðja
áfanga rammaáætlunar um vernd
og orkunýtingu landssvæða. Benti
Landvernd m.a. á að flutningskerfin
væru hluti virkjana sem yrðu ekki
reknar án þess að frá þeim lægju
raflínu.
Bændasamtökin með margvíslegar
athugasemdir
Bændasamtök Íslands áttu fulltrúa
í nefndinni en það var Ólafur R.
Dýrmundsson. Fyrir 13. Fund
nefndarinn í desember lagði hann
fram minnisblað í sjö liðum. Þar
bendir hann m.a. á að fjarlægðarmörk
fyrir háspennustrengi í jörðu séu ekki
eins skýrar og þær sem gilda fyrir
háspennulínu. Þá benti hann á að í
landbúnaði sé að jafnaði meiri truflun
á umsvifum frá háspennulínum í lofti
en í jörðu. Þó þurfi að skoða aðstæður
í hverju tilviki. Sagði hann að leggja
yrði mikla áherslu á nauðsyn þess
að mótuð verði stefna um lagningu
raflína í jörð og tryggt verði samráð
við bændur og landeigendur, allt frá
því hugmynd um lagningu jarðstrengs
kemur fram. Þetta sé mikilvægt af
ýmsum ástæðum, m.a. er varða
áframhaldandi nýtingarmöguleika
þess lands sem jarðstrengir eru lagðir
í. Jarðstrengir geti líka valdið því að
tryggingariðgjöld bænda hækki vegna
aukinnar áhættu af jarðstrengjum sem
lagðir eru um þeirra lönd. Því væri
því brýnt að lögbinda ákvæði um
merkingar jarðstrengja.
Bókun BÍ og fleiri
Gerð var sameiginleg bókun Bænda-
samtaka Íslands, landeigenda,
Landverndar, Neytendasamtakanna
og Sambands íslenskra sveitarfélaga
í lokaskýrslu nefndarinnar. Bókunin
er svohljóðandi:
Við stöndum að skýrslu meirihluta
nefndarinnar með þeirri athugasemd
að við teljum að svo tillagan um
svokallaða valkostaskýrslu megi
að fullu ná tilgangi sínum, hefði
þurft að koma fram ráðagerð um að
skýrslan og þau gögn sem að baki
henni liggja yrðu yfirfarin af óháðum
skoðunaraðila. Enn fremur hefði
þurft að auka skýrleika fyrirhugaðs
kynningarferlis með því að lýsa betur
samráðinu, sem jafnframt væri undir
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra,
sem síðar staðfesti valið. Er slíkt
í anda þess ferlis sem lýst er í
skýrslunni Vi bygger Norge3. Er
því einnig nánar lýst í tillögum
er fulltrúar Landverndar og
landeigenda lögðu fyrir nefndina.
F.h. Bændasamtaka Íslands,Ólafur
R. Dýrmundsson. F.h. landeigenda,
Ólafur Valsson. F.h. Landverndar,
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
F.h. Neytendasamtakanna, Þóra
Guðmundsdóttir og f.h. Sambands
íslenskra sveitarfélaga, Þorvaldur
Lúðvík Sigurjónsson.
/HKr.