Bændablaðið - 21.02.2013, Blaðsíða 16

Bændablaðið - 21.02.2013, Blaðsíða 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 21. febrúar 2013 Með ástríðu fyrir smíðum og hestum Jóhanna Haraldsdóttir á Selfossi hefur smíðað barnaleikföng í tæp þrjátíu ár og sífellt bætist í flóruna hjá henni við smíðarnar og hannyrðir því til viðbótar við sveitabæ, húsdýr og traktora rennir hún penna og býr til skóhorn og vettlinga með dósahaldi, svo fátt eitt sé nefnt. Fyrir utan smíðarnar á hestamennskan hug hennar allan. Jóhanna var svínabóndi á Haga í Þjórsárdal ásamt manni sínum Rúnari Andréssyni frá Ásatúni í Hrunamannahreppi í fjölmörg ár áður en þau tóku sig upp og fluttu á Selfoss fyrir rúmum tíu árum. Þau eiga fjögur börn: Jóhann, Harald, Sverri og Önnu Margréti. Fyrir utan tréleikföngin framleiðir Jóhanna vettlinga með haldi, sem er snúningur út frá hefðbundnum bjórvettlingum. Einnig gerir hún skóhorn og rósamálar á dúkkuvöggur og -vagna og saumar í það sængurföt ásamt fleiru. „Það eru 28 ár síðan ég byrjaði að gera barnaleikföngin í kjölfarið af því að ég keypti mér norsku smíðablöðin Gjør det selv. Ég fékk margar hug- myndir úr smíðablöðunum eins og til dæmis sveitabæinn sem ég gerði fyrst en ég hef stundum þurft að finna út úr uppskriftunum á minn hátt. Það voru mjög góðar og sniðugar leið- beiningar í blöðunum sem eru breytt í dag og nú er lögð meiri áherslu á stærri smíði en áður eins og til dæmis sólpalla og slíkt,“ útskýrir Jóhanna. Fjölhæf í handverkinu Jóhanna byrjaði í barnaleikföngum og hefur þróað línu með þau en einnig gerir hún fjölmargt sem hentar fyrir fullorðna. „Húsdýrin eru mjög vinsæl og eins traktorarnir. Ég hannaði hús- dýrin alveg sjálf en það hefur verið mikil þróun með þau alveg frá því að ég byrjaði á þeim. Ég geri líka fullorðinsgjafir eins og penna sem ég renni og ég flyt inn efnið í pennana. Einnig er ég farin að gera tréöskjur utan um pennana sem hefur verið vinsælt en ég nota lerki, hlyn og gull- regn í framleiðslunni á pennunum en einnig nota ég harðvið í leikföngin,“ segir Jóhanna og bætir við; „Ég fór hér áður á nokkur rennismíðanámskeið. Sverrir sonur minn fór á rennismíðanámskeið þegar hann var 12 ára gamall og hannaði síðan traktorinn sem ég geri í dag. Ég renni hjólin á öll farartækin svo það er mikil ending í þessu og þau fara ekki undan tækjunum. Ég er mjög smámunasöm að þetta sé vel gert og vil hafa alla hluti nánast fullkomna þannig að ég vil pússa allt mitt sjálf. Það er lykilatriði hjá mér að hafa leikföngin sterk svo að þau endist vel en einnig að hafa mjúkar línur fyrir börnin og aldrei hvassar brúnir.“ Samstarf við Maríuhús Fyrir þremur árum hóf Jóhanna samstarf við Maríuhús í Reykjavík sem er dagþjálfun fyrir fólk með heilabilanir. Jóhanna sker út húsdýr fyrir Maríuhús en síðan sjá vistmenn þess um fullvinnslu þeirra. „Það er til eftirbreytni samstarf mitt við Maríuhús. Þau fá hjá mér húsdýrin alveg hrá en síðan pússa þau dýrin og bera á þau olíu. Því næst pakka þau þessu og selja sínum aðstandendum. Forstöðumenn Maríuhúss fundu strax mikinn mun á vistmönnum sínum sem urðu mjög jákvæð og glöð að fá þetta verkefni til að dunda við. Þau opna sig um gamla tíma, sumir sem tala lítið sem ekki neitt og þau bíða alltaf eftir því að fá að gera meira ef skammturinn klárast. Mér finnst mjög skemmtilegt að geta tekið þátt í svona starfi og að sjá að þetta hjálpi svona mikið til,“ útskýrir Jóhanna með bros á vör. Hestamennska í bland við smíðarnar Jóhanna er í stöðugri þróunarvinnu með vörur sínar og hefur ekki nægan tíma til að fylgja öllum sínum hug- myndum eftir. Fyrir utan smíðarnar dvelur hún mikið í hesthúsinu en hestamennskan á hug hennar allan. „Ég er mikið fyrir að hafa allt vistvænt og ber til dæmis dökk- græna ólífuolíu á barnaleikföngin. Núna er ég að gera tilraun með að nota repjuolíu frá Þorvaldseyri til að húða leikföngin með, hún er kald- pressuð, vistvæn og þránar ekki,“ segir Jóhanna og bætir við; „Ég skipti um gír eftir jólin eftir pakkaflóðið og fer þá í hesthúsin. Það hægist verulega um svo núna er ég í því að smíða til að eiga á lager. Ég er í hestunum öllum stundum, það er mitt líf og yndi en auðvitað smíðarnar líka. Ég er með margar hugmyndir í kollinum en hef aldrei tíma til að gera allt sem mig langar til. Ég hef alltaf haft gaman af að smíða, það hefur alltaf togað í mig.“ Hægt er að sjá framleiðslu Jóhönnu á Facebook-slóðinni; johanna haralds-TreLeikfong /ehg Jóhanna í hesthúsinu með mm bræður á járnum sem eru undan Fjólu frá Haga í Þjórsárdal. Rúnar, maður Jóhönnu, kom með Vindu frá Ásatúni, mömmu Fjólu, frá heimaslóðum Rúnars, sem var uppha ð að hestaræktun þeirra. Frá vinstri Skuggi, Dropi, Logi, Fákur og Trítill. Myndir / ehg Jóhanna Haraldsdóttir hefur hannað og smíðað leikföng í um þrjátíu ár og hefur góða aðstöðu til þess í bílskúrnum heima hjá sér og í hesthúsinu. Vörubílar úr smiðju Jóhönnu eru mjög sterkir og endingargóðir. Fjölskylda stendur hjá. Jóhanna hefur unun af hestamennskunni og þykir gaman að keppa enn þann dag í dag. Hér sést hún á Loga frá Selfossi. Mynd / Þórdís Sigurðardóttir Rauði sveitabærinn með græna þakinu er það fyrsta sem Jóhanna tók sér fyrir hendur í smíðunum. Einnig má sjá sýnishorn af húsdýrum og traktorum. Pennarnir sem Jóhanna rennir hólk utan um hafa verið vinsælir til gjafa og boxin utan um þá.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.