Bændablaðið - 21.02.2013, Blaðsíða 36

Bændablaðið - 21.02.2013, Blaðsíða 36
36 Bændablaðið | Fimmtudagur 21. febrúar 2013 Sendur í sveit Þakklátur fyrir þá góðu reynslu sem ég öðlaðist á Gvendarstöðum Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Hvar varstu í sveit og hvenær? Sumarið sem ég varð þrettán ára, 1983, var ég sendur í sveit á bæinn Gvendarstaði í Kinn. Mig minnir að það hafi verið amma mín, Jódís Kristín Jósefsdóttir, sem þekkti þar eitthvað til og vissi af því að þar væri pláss fyrir unglinga í vist. Ég er fæddur og uppalinn á Akureyri en var þegar þarna var komið sögu nýfluttur suður og kunni því heldur illa. Dvaldi ég því í flestum fríum fyrir norðan hjá ömmu minni og vann meðal annars við að bera út blöð auk þess sem ég afgreiddi í blaðavagninum á Ráðhústorginu hjá Pálma og Ellu. Sumarið sem ég varð þrettán var enga vinnu að fá sunnan heiða fyrir tólf að verða þrettán ára krakka, blaðaútburðurinn á Akureyri var ekki full vinna og því var það talið tilvalið að koma piltinum í sveit. Ábúendur og tegund bús? Á Gvendarstöðum bjuggu syst- kin in Jónas og Kristín, börn Helga Jónassonar, þess merka grasafræðings. Þá aðstoðaði sonur Kristínar, Helgi, við búreksturinn hluta úr ári. Auk mín voru í vist þetta sumarið strákur og stelpa á svipuðu reki og ég. Búið var hefðbundið blandað íslenskt bú; kýr, kindur og hross og annað sem því tilheyrir. Hvað var skemmtilegast við dvölina? Ég á fátt annað en góðar minningar frá þessari dvöl sumarið 1983. Þarna fékk maður tækifæri til að kynnast sveitalífinu af alvöru og taka þátt í öllum verkefnum sem til féllu. Ég kom á Gvendarstaði um leið og skólanum lauk það vorið, seint í maí, og eitt af fyrstu verkefnunum var að halda á lömbunum meðan þau voru mörkuð. Tilvalið verkefni til að kanna hvort not væru fyrir tólf ára pjakk að sunnan. Síðan bættust fleiri verkefni við en þau skemmtilegustu voru óneitanlega að fá að aka dráttarvélum. Mér var treyst fyrir því að raka í garða og snúa heyi á vélunum og það var óneitanlega spennandi fyrir pjakkinn að fá að aka dráttarvél, tæpast orðinn kynþroska. Hvað var erfiðast við dvölina? Í minningunni var fátt erfitt við það að fara í sveit en ugglaust hafa þetta verið töluverð viðbrigði á sínum tíma að skipta svona rækilega um gír og detta inn í algjörlega nýja rútínu þar sem maður hafði verkefnum að sinna með tilheyrandi ábyrgð. Hvaða verk voru á þinni könnu? Við krakkarnir fengum fjölbreytt verkefni, við strákarnir fyrst og fremst útiverkefnin meðan stelpan var í eldhúsinu og heima við og hjálpaði Stínu þar. Það kom ekki til álita að hafa það með einhverjum öðrum hætti, ég kannaði það. Við náðum m.a. í kýrnar að morgni, mokuðum flórinn og sinntum heyskap, girðingarvinnu og öllu því sem til féll. Rútínan var föst, vaknað snemma og farið út að vinna, morgunmatur á föstum tíma og síðan áfram haldið út til vinnu. Hádegismaturinn alltaf á sama tíma þar sem hlustað var á síðasta lag fyrir fréttir og eftir hann lögðu menn sig um stund. Þá héldu verkefnin áfram fram að kaffitíma og í kjölfar hans var farið að huga að seinni mjöltum. Þetta endaði síðan með kvöldmat eins og við var að búast. Kvöldin hafði maður fyrir sjálfan sig, þá kannaði maður umhverfið, fór á fótboltaæfingar hjá ungmenna- félaginu Gamni og alvöru, las bækur og horfði stöku sinnum á sjónvarpið. Þetta sumar var raunar sá háttur ennþá við lýði að sjónvarpið fór í sumarfrí í júlímánuði, flestum til gleði og ánægju. Geturðu nefnt eftirminnileg atvik? Þau eru nokkur eftirminnileg atvikin þetta sumarið. Mér tókst að komast stórslysalaust í gegnum sumarið þrátt fyrir allt, en náði þó einu sinni að kippa girðingu upp á snúningsvélina þegar ég gætti ekki nægilega vel að mér. Það tók töluverðan tíma að vinda ofan af því öllu saman eins og gefur að skilja. Þá keppti ég á héraðs- móti fyrir ungmennafélagið Gaman og alvöru á Húsavík um sumarið og krækti í nokkra verðlaunapeninga fyrir hlaup og stökk. Hápunkturinn á mínum frjálsíþróttaferli. Skildi dvöl þín í sveitinni eitthvað sérstakt eftir sig? Fyrst og fremst góðar minningar, aukna þekkingu á lífinu í sveitinni sem og virðingu fyrir því öfluga fólki sem gerir búrekstur að sínu ævistarfi. Ég hugsa afar hlýlega til systkin- anna á Gvendarstöðum og er þakklátur fyrir þá góðu reynslu sem ég öðlaðist þar. /fr Gvendarstaðir í Kinn í Þingeyjarsveit, áður Ljósavatnshreppi. Heyi blásið í hlöðun á Gvendarstöðum. Strákarnir mata blásarann með heykvísl að vopni. Stefán Eiríksson Deutz-dráttarvélin á Gvendarstöðum. Stjáni blái tilbúinn í slaginn. Í Bændablaðið 24. janúar skrifaði Birna Þorsteinsdóttir þarft lesanda- bréf með fyrirsögninni „Er ekki þörf á að skoða dráttarvélar?“ Birna spyr eins og margir aðrir um skoðunarskyldu á dráttarvélum og tækjum, en almennt eru dráttarvélar og tengitæki við þær ekki skoðuð árlega, nema þær séu sérstaklega skráðar sem vinnuvélar, þ.e. traktorsgröfur, snjóruðningstæki og fleira. Einnig á það við svokallaða liðléttinga, sem eru skráðir í flokk með lyfturum og því skoðaðir árlega. Samkvæmt upplýsingum frá Steinari Harðarsyni hjá Vinnueftirlitinu reyna þeir eftir megni að skoða dráttarvélar á tveggja ára fresti en vegna anna og manneklu hefur verið misbrestur á þessu undanfarin ár. Vinnueftirlitið hefur undanfarin ár verið að miðla þekkingu og reynslu til bænda í þeim tilgangi að forðast slys og að bændur sjái hag sinn í að vélar og tæki séu í lagi. Förum varlega, landbúnaðarstörf eru hættuleg Í starfi mínu hjá Bændasamtökunum hef ég oft talað við bændur um vélar og tæki þegar þeir koma í heimsókn í „Bændahöllina“ , en undanfarin þrjú ár hef ég skrifað hér í Bændablaðið um bíla og tæki. Ég er enginn sérfræðingur í þessum málum en hef alltaf haft gaman af vélaspjalli og að lesa um og prófa bæði gömul og ný tæki. Síðastliðna þrjá mánuði hef ég kynnt mér mjög náið öryggismál í og við landbúnaðarstörf bæði hér heima og erlendis. Sama í hvaða landi maður skoðar skýrslur um slys í landbúnaði er slysatíðni há við landbúnaðarstörf, en við það að bera saman slys í hinum ýmsu löndum rekur maður sig á ýmislegt sem maður hafði ekki áttað sig á. Maður hefði haldið að þrátt fyrir lítið eftirlit með dráttarvélum og tækjum á Íslandi væru slysin algengari en víða erlendis. Staðreyndin er þó sú að hér verða færri vinnuvéla- og dráttarvélaslys en t.d. á Írlandi. Þar eru dráttarvéla- og tækjaslys um 48% allra slysa í landbúnaði. Á Íslandi er þessi tala innan við 20%, sem er samt of mikið. Hraðinn drepur Mismunurinn er mikill en eflaust er hægt að skýra eitthvað af þessum mismuni á einfaldan hátt: Sennilega er mesti munurinn á því hvernig slys eru skráð, en mik- ill munur er á skráningu slysa hér og erlendis. Strangt eftirlit er með skráningu slysa á Írlandi, en á Íslandi eru sárafá slys tilkynnt (að meðal- tali 12-16 slys árlega, en getgátur eru um að slys í íslenskum landbúnaði sé nálægt 350 slys árlega). Það er heimilt á Írlandi að aka dráttarvélum hraðar en hér. Fjöldi dráttarvéla- slysa verður líka þar úti á vegum og á miklum hraða. Slík slys væru skráð hér á landi sem umferðarslys en ekki vinnuslys á býlið (veit ég fyrir víst að til stendur að breyta þessu). Hver kíló- metri yfir 40 km hraða eykur hættuna á slysi til muna á stórum og þungum dráttarvélum sem eru almennt ekki á hjólbörðum sem ætlaðir eru til þjóðvegaaksturs. Því er ekkert nema háskaleikur að keyra hratt á vegum, svo maður tali nú ekki um ef maður er með vagn aftan í vélinni fullan af heyrúllum. Hraði umfram 40 km eykur líka slit á vél og hjólbörðum um allt að helming og olíueyðslan er allt að 60% meiri á 50 en 40 svo dæmi sé tekið. Um leið og hraðinn er komin yfir 40 eykst hlutfallslega bremsuvegalengdin ekki ósvipað og við mælum jarðskjálfta eða hávaða ( richter-kvarða og desíbel). Allra hagur að hafa tæki í lagi Marga hef ég spurt hvers vegna dráttarvélar séu ekki skoðanaskyldar en fátt hefur verið um svör. Meðal þeirra fáu skýringa sem ég hef fengið við spurningum mínum er að langt sé að fara fyrir bændur ef bifreiðaskoðunarstöðvar séu notaðar, fjársvelti og mannekla hjá Vinnueftirlitinu, en athyglisverðasta svarið fannst mér vera: „Þetta á að vera í lagi og því óþarfi að skoða dráttarvélarnar.“ Varðandi síðasta svarið eru eigendur dráttarvéla mislagnir og duglegir að viðhalda vélunum sínum og til eru menn sem einfaldlega vantar „viðhaldsgenið“ í þó að þeir séu snillingar í notkun á dráttarvélinni. Persónulega tel ég að Vinnueftirlitið, Bændasamtökin, tryggingafélögin og lánastofnanir sem lána til landbúnaðar ættu að gera sameiginlegt átak í að fara á milli býla og skoða öll vinnutæki í landbúnaði með reglulegu millibili. Allir hafa hag af því að tæki séu í lagi, bæði eigandi og ríki því þá minnka líkur á slysum. Sjúkrakassi og slökkvitæki Það er endalaust hægt að miðla upplýsingum og vinna að forvörnum í kringum vélar og tæki. Eins og fyrr segir hef ég talað við marga bændur og oft hef ég spurt þá hvort sjúkrakassi og slökkvitæki sé í dráttarvélunum þeirra. Ætli fjöldinn sé ekki að nálgast 100 og enn er ekki komið langþráð já við spurningunni, en mönnum til fróðleiks sýna rannsóknir að orsök þess að dráttarvélar verði eldi að bráð er í 75% tilfella óhreinindi sem gera eldinum kleift að magnast, oftast hey og olía sem auðvelt er að þrífa. Til samanburðar, ef maður á jeppa sem telst breyttur jeppi fær sá bíll ekki skoðun nema í honum sé bæði slökkvitæki og sjúkrapakki. Hægt er að fá saman í tilboði sjúkrapakka og slökkvitæki sem ætti að henta vel í dráttarvélar og kostar ekki nema 8-9.000 krónur. Að lokum vil ég hvetja bændur til að fara á sambærileg námskeið og Birna fór á og í leiðinni vil ég óska Birnu til hamingju með dráttarvélaökuréttindin. Hjörtur Leonard Jónsson hlj@bondi.is Misbrestur á skoðun dráttarvéla Alltaf á að gæta fyllsta öryggis í meðferð dráttarvéla, einnig að þær séu í fullkomnu lagi.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.