Bændablaðið - 21.02.2013, Blaðsíða 8

Bændablaðið - 21.02.2013, Blaðsíða 8
Bændablaðið | Fimmtudagur 21. febrúar 20138 Fréttir Flug- og ferjukostnaður til og frá Grímsey hækkar stöðugt: Illmögulegt fyrir fjölskyldufólk að bregða sér í land Jóhannes Henningsson, formaður hverfisráðs Grímseyjar, segir að fargjöld sem Grímseyingar þurfi að greiða fyrir ferju og flug hækki stöðugt og sé nú svo komið að illmögulegt sé fyrir fjölskyldufólk að fara á milli lands og eyja. Hann segir að dýrustu fargjöld með flugi kosti ríflega 14 þúsund krónur en vissulega séu á stundum í boði fargjöld á lægra verði. Algengt verð fyrir flugsæti sé á bilinu 9-12 þúsund króna. „Og það sér hver maður hver útgjöldin verða þurfi fjögurra manna fjölskylda að bregða sér í land,“ segir Jóhannes. „Maður heyrir á fólki að það hefur af þessu miklar áhyggjur, enda þurfa eyjarskeggjar að sækja ýmsa nauðsynlega þjónustu í landi af og til.“ Gjaldskrá fyrir flutninga milli lands og eyjar hefur einnig hækkað stöðugt að sögn Jóhannesar. Hann segir að íbúar hafi eftir sameiningu við Akureyrarbæ vænst þess að bærinn myndi leggja þeim lið í baráttu fyrir t.d. afsláttarkjörum, en það hafi ekki gerst. Hann sagði Grímseyinga ekki búa við nein kjör af því tagi en myndu gjarnan vilja að þau stæðu þeim til boða. „Okkur þykir ekki óeðlilegt að heimafólk gæti keypt ferðir á milli með afsláttarkjörum,“ segir hann en bætir við að íbúar séu sáttir við samgöngur til og frá eyjunni, bæði í lofti og sjó. Hverfisráð vill byggja við sundlaugina Hverfisráð Grímseyjar leggur til að útbúin verði íþróttaaðstaða við sundlaugina, enda þurfi hvort eð er að ráðast í talsverðar endurbætur og framkvæmdir á svæðinu. Bendir ráðið á að ótækt sé að íbúar eyjarinnar hafi ekki aðgang að íþróttaaðstöðu. Verst sé að kenna þurfi skólabörnum íþróttir í samkomusal og þar megi ekki nota bolta. Engar sturtur eru til staðar í samkomusalnum. Leggur hverfisráð því til að byggt verði við sundlaugina, en með því nýtist forstofa, búningsklefar og sturtur sem þar eru til staðar. Raunar bendir ráðið á betrumbætur þurfi að gera á sturtunum í sundlauginni, þær séu ekki nema þrjár talsins í hvorum klefa og hafi í það minnsta ein þeirra sem í kvennaklefanum er verið í ólagi ekki skemur en tvö undanfarin ár. Ferðasjóður barnanna fór í kaup á skjávarpa Börn úr Grunnskólanum í Grímsey nýttu fé sem þau áttu í skólasjóði til að kaupa nýjan skjávarpa í aðra af tveimur skólastofum skólans. Börnin safna sjálf peningum yfir skólaárið í sjóð og er hann yfirleitt notaður til að fjármagna ferðalög þeirra upp á fastalandi, m.a. skíðaferðir. Skjávarpinn kostaði 140 þúsund krónur. Enginn skjávarpi er í hinni kennslustofunni. Hverfisráð Grímseyjar hefur vakið athygli á því að ýmislegt sé úr sér gengið í Grunnskólanum í Grímsey, þar sé ótalmargt sem ekki sé hægt að búa við lengur eins og það er orðað í fundargerð ráðsins. Auk þess sem börnin hafi sjálf staðið staum af tækjakaupum til skólans er nefnt að tölvuborðin í skólanum séu meira og minna ónýt. Töflur í kennslustofum er gamlar, voru sendar út í Grímsey þegar líftíma þeirra í grunnskólum Akureyrarbæjar lauk og þá er nefnt að allir tölvustólar séu ónýtir og hillur í ólagi. „Við erum ekki neitt að væla yfir þessu, bara að benda á hvernig ástandið er og að margt þurfi endurnýjunar við,“ segir Jóhannes Henningsson, formaður hverfisráðs Grímseyjar. Hann sagði krakkana í skólanum duglega að safna peningum og þau færu örugglega í sitt ferðalag síðar þó svo að þau hefðu nú kosið að leggja skólanum lið við tækjakaup. /MÞÞ Það verður nóg um að vera á Skútustöðum helgina 22.-24. febrúar. Þá verður haldið hið feykivinsæla hestamót Mývatn Open – Hestar á ís. Þetta er í tíunda skiptið sem mótið er haldið á Stakhólstjörn við Skútustaði, en það er samvinnuverkefni Hestamannafélagsins Þjálfa og Sel-Hótels Mývatns. Hestamannafélagið Þjálfi býður í reiðtúr út á frosið Mývatn á föstudeginum og er öllum hjartanlega velkomið að taka þátt í því að kostnaðarlausu. Sel-Hótel Mývatn býður knöpum upp á samlokur og heitt kakó úti í eyju. Mótshaldið á laugardeginum endar með hestamannahófi á Sel-Hótel Mývatni um kvöldið. Dagskrá Föstudagur 22. febrúar hópreið um Mývatn kl. 16.30-18.30 (allir velkomnir) Laugardagur 23. febrúar Kl. 10.30 Tölt B Kl. 13.00 Tölt A Stóðhestakeppni og skeið Verðlaunaafhending yfir kaffihlaðborði í Selinu Kl. 19.30 Húsið opnar fyrir stemningu kvöldsins Vídeósýning frá afrekum dagsins á breiðtjaldi Kl. 20.30 Hestamannahóf hefst – ýmsar uppákomur – öllum opið. Kl. 23.30 Kráarstemning og lifandi tónlist fram á nótt Á sunnudeginum stendur Sel-Hótel Mývatn fyrir sagnagleði á konudag, fyrsta dag góu, þann 24. febrúar. Eiginmönnum, unnustum og vinum gefst þar tækifæri til að bjóða konum til skemmtunar og veislu. Það er ekki eingöngu andleg næring sem verður boðið upp á, heldur einnig veglegur dögurður. Mývatn Open – Hestar á ís Refaveiði í Húnaþingi vestra: Vilja taka upp vetrarveiði Vetrarveiðar refa voru til umræðu á fundi landbúnaðarráðs Húnaþings vestra í síðustu viku og tók ráðið þá ákvörðun að leggja til við sveitarstjórn að vetrarveiði á ref yrði tekin upp að nýju haustið 2013. Fram kemur í fundargerð land- búnaðarráðs að á einu ári, frá 1. september 2011 til 31. ágúst 2012, hafi unnin grendýr verið alls 70, yrðlingar alls 156, hlaupadýr alls 24 og minkar alls 77. Kostnaður Húnaþings vestra vegna refa- og minkaveiði á tímabilinu hafi verið alls 5.251.287. Vakin er athygli á því að kostnaður og fjöldi veiddra dýra á við um sameinað sveitarfélag Bæjarhrepps og Húnaþings vestra. Eftir ítarlega skoðun lagði ráðið til við sveitarstjórn að vetrarveiði á ref yrði tekin upp að nýju næsta haust. Þá yrði miðað við að þeir sem hygðust stunda vetrarveiðar á ref sæktu um leyfi til þess til land- búnaðarráðs. Miðað yrði við að heildarfjárhæð sem veitt yrði til vetrarveiða á ref yrði að hámarki 500 þúsund krónur og að fyrir hvert unnið dýr yrðu greiddar 4 þúsund krónur. Landbúnaðarráð mun móta frekari reglur eða viðmið um greiðslur til veiðimanna verði til- laga ráðsins samþykkt. Þá skulu þeir sem hyggjast stunda vetrarveiðar á ref sækja um leyfi til þess til land- búnaðarráðs. /MÞÞ Neysla á grænmeti og ávöxtum eykst en er langt undir viðmiðunarmörkum Íslenskir garðyrkjubændur eru stöðugt á vaktinni þegar kemur að kostnaði við ræktun á grænmeti. Metnaðarmál þeirra er að leggja sitt af mörkum til að efla heilsu landsmanna. Til þess að svo megi verða þarf grænmeti að vera á við- ráðanlegu verði fyrir alla lands- menn. Í Landskönnun á mataræði 2010- 2011 (Landlæknir o.fl. 2012) kemur fram að „ávaxtaneyslan hefur aukist um 54% frá árinu 2002 og er nú 119 grömm á dag að meðaltali. Neysla á grænmeti hefur aukist minna, eða um 19% og er nú að meðaltali 120 grömm á dag. Þrátt fyrir aukna neyslu grænmetis og ávaxta er hún enn langt undir markmiðum, sem eru a.m.k. 400 grömm af grænmeti og ávöxtum á dag. Samtals er neysla þessara vara 239 grömm á dag að meðaltali, eða rúmur helmingur af því sem ráðlagt er“. Þetta segir okkur bara eitt, við borðum allt of lítið af grænmeti og ávöxtum. /MHH Norðlenska eykur umsvifin á Húsavík og kaupir Rækjuhúsið Norðlenska hefur keypt svokallað Rækjuhús á Húsavík af útgerðarfélaginu Vísi. Fasteignin er að Suðurgarði 2, þar sem Fiskiðjusamlag Húsavíkur var á sínum tíma. Norðlenska hefur síðastliðin ár leigt hluta hússins, meðal annarsundir starfsemi dótturfélagsins Icelandic Byproducts, sem vinnur verðmæti úr aukaafurðum. Rækjuhúsið er tæpir 2.000 fermetrar að flatarmáli. Vísir hefur notað húsið að hluta, Fiskmarkaður Húsavíkur hefur einnig verið þar með starfsemi, svo og framleiðsla og sala á lausfrystum ís. Fram kemur á heimasíðu Norðlenska að húsið sé keypt til að styrkja stöðu Norðlenska á Húsavík enn frekar, en áður hafði félagið leigt þar frysti og notað hluta hússins undir heimasögun á kjöti í sláturtíð auk þess sem Icelandic Byproducts hefur verið þar með starfsemi. „Fyrirtækið vinnur verðmæti úr aukaafurðum í sláturtíðinni, það hefur vaxið mikið á síðustu árum og við sjáum fyrir okkur enn frekari vöxt í því fyrirtæki,“ segir Sigmundur E. Ófeigsson, fram- kvæmdastjóri Norðlenska. Norðlenska leitaði tilboða í fjár- mögnun kaupanna og var samið við Arion banka. Sigmundur segir húsið í mjög góðu standi og vel með farið. „Við ætlum að auka starfsemi okkar í húsinu en munum væntan- lega reyna að leigja frá okkur ein- hvern hluta þess,“ segir Sigmundur. Íslenskt grænmeti á bakka. Neysla á þessum ljúffengu vörum er aðeins um helmingur þess sem ráðlagt er. Grímseyingar hafa auknar áhyggjur af vaxandi kostnaði við að ferðast upp á meginlandið. Mynd / Vikudagur

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.