Bændablaðið - 21.02.2013, Blaðsíða 20

Bændablaðið - 21.02.2013, Blaðsíða 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 21. febrúar 2013 Landsvirkjun vígði þann 14. febrúar sínar fyrstu vindmyllur til að framleiða rafmagn. Þar er um að ræða tvær vindmyllur af E44 gerð frá þýska fyrirtækinu Enercon. Þær eru staðsettar á svokölluðu Hafi skammt ofan við Búrfellsvirkjun í Þjórsá. Fyrsta stóra vindmyllan hér á landi sem framleiddi rafmagn og var tengd dreifikerfi Landsnets var þó vindrafstöð Haraldar Magnússonar í Belgsholti, sem gangsett var sumar- ið 2011. Hún var sænsk af gerðinni Hannevind og stórskemmdist í hvassviðri þann 29. nóvember sama ár. Haraldur hefur unnið að endurgerð þessarar vindmyllu og gert á henni margvíslegar endurbætur. Ætlunin var að reyna að koma henni upp í nóvemberlok en sú áætlun brást vegna veikinda. „Nú vonast ég til að koma henni upp í mars,“ sagði Haraldur í samtali við Bændablaðið í síðustu viku. Allan kostnað, þar á meðal kostnað við endursmíði vindmyllunnar, hefur Haraldur greitt úr eigin vasa. Segir hann kostnaðinn nú samsvara verði á gróðri dráttarvél. Um 2.000 ára saga Vindmyllur eiga sér langa sögu og eru fyrstu vindmyllurnar raktar til gríska verkfræðingsins Herons frá Alexandríu á fyrstu öld eftir Krist. Þar var um að ræða vindmyllu sem notuð var til að knýja bullustrokk sem dældi lofti í pípuorgel. Skoti hannaði fyrstu vindmylluna sem framleiddi rafmagn Fyrsta vindmyllan til að framleiða rafmagn var hönnuð af skoska rafmagnsfræðingnum James Blyth árið 1887. Hún var með lóðréttum öxli og lágréttu vindmylluhjóli sem fangaði vindinn í eins konar skóflur. Var hún staðsett við sumarhús hans í Marykirk í Skotlandi. Hann þróaði síðan endurbætta vindmyllu af sömu gerð sem var notuð sem varaaflsstöð fyrir Montrose-geðveikrahælið í Hillside fyrir norðan Montrose í Skotlandi í um 30 ára skeið. Þrátt fyrir þetta frumkvæði James Blyth þótti notkun vindorku til að framleiða rafmagn óhagkvæm og voru ekki fleiri vindtúrbínur byggðar á Bretlandseyjum fyrr en árið 1951, 64 árum eftir að Blyth smíðaði sína vindmyllu. Fyrirtækið John Brown Engineering í Glasgow smíðaði frumgerð þeirrar vindmyllu og var hún sett sett upp á Costa Head á Orkneyjum. Þetta fyrirtæki varð síðan hluti af John Brown & Company, sem smíðaði mörg heimsfræg skip á borð við stolt breska herskipaflotans HMS Hood, farþegaskipin Queen Mary, Queen Elizabeth 1 og 2 og fleiri. John Brown Engineering hefur undanfarin ár m.a. smíðað stórar gastúrbínur í samstarfi við General Electric. Fyrsta sjálfvirka rafmagnsvindmyllan Fyrsta sjálfvirka vindmyllan í heiminum til að framleiða rafmagn var vindmylla Charles Francis Brush í Ohio í Bandaríkjunum. Mylluna reisti hann á búgarði sínum sem var 10 mílur frá miðbæ Cleveland á árunum 1887-1888, tæpu ári á eftir James Blyth. Þetta var firnamikið mannvirki með lóðréttu spaðahjóli sem var sautján metrar í þvermál. Sneri það dínamónum sem framleiddi rafmagnið fimmtíu snúninga í hverjum hring sem spaðahjólið snerist. Var rafmagninu síðan hlaðið inn á tólf batterí sem hvert var með 34 sellum. Vindmylla þessi gat framleitt tólf kílówött. Turn vindmyllunnar var með gríðarmiklu stéli sem hafði þann tilgang að snúa spaðahjólinu alltaf á móti vindi. Þessi vindmylla framleiddi rafmagn fyrir eiganda sinn í um 20 ár og var þetta jafnframt fyrsta heimilið í Cleveland sem fékk rafmagn. Til margvíslegra nota Vindmyllur hafa verið nýttar til ýmissa verka í gegnum tíðina, m.a. til að dæla vatni eins og gert var í Hollandi og til að mala korn. Vindknúnar kornmyllur voru algengar um alla Evrópu og eina kornmyllan hér á landi sem varð- veist hefur er vindmyllan í Vigur við Ísafjarðardjúp. Talið er að Daníel Hjaltason gullsmiður hafi reist myll- una um 1860 en hún hefur síðar verið stækkuð og endurbætt. Síðast mun hafa verið malað korn í henni árið 1915. Þessi vindmylla hefur verið í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1992. /HKr. Orkumál Fyrstu vindmyllur Landsvirkjunar formlega afhentar og gangsettar með aðstoð ráðherra um síma frá Þýskalandi: Saga vindmylla spannar nærri 2000 ár en þær hafa aðeins verið notaðar til raforkuframleiðslu í 126 ár – Vindmyllan í Belgsholti væntanlega gangsett að nýju eftir gagngerar endurbætur og endursmíði í mars Vindmylla gríska verkfræðingsins Herons frá Alexandríu frá því á fyrstu öld eftir Krist var notuð til að knýja bullustrokk sem blés lofti í pípuorgel. Haraldur Magnússon í Belgsholti við vindmyllu sína þegar hún var gangsett sumarið 2011. Þetta er fyrsta stóra vindmyllan á Íslandi sem tengd var við dreifikerfi Landsnets. Mynd /HKr. Fyrsta vindmyllan til að framleiða rafmagn var hönnuð af skoska rafmagns- fræðingnum James Blyth árið 1887. Hún var með lágréttu skófluhjóli og var staðsett við sumarhús hans í Marykirk í Skotlandi. Fyrsta sjálfvirka vindmyllan í heiminum til að framleiða rafmagn var vindmylla sem Charles Francis Brush reisti í Ohio í Bandaríkjunum á árunum 1887-88, tæpu ári á eftir James Blyth. Dæmigerð evrópsk kornmylla.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.