Bændablaðið - 21.02.2013, Blaðsíða 28

Bændablaðið - 21.02.2013, Blaðsíða 28
28 Bændablaðið | Fimmtudagur 21. febrúar 2013 Nýtt félag reist á grunni Barra hf. – Skúli Björnsson fráfarandi framkvæmdastjóri ræðir þrengingar í skógræktargeiranum og nýtt upphaf Skógarplöntustöðin Barri hf. fór í þrot í byrjun árs en hún var ein hin fullkomnasta og stærsta sinnar tegundar á Íslandi. Hún var stofnuð árið 1990, af 109 hluthöfum, og var lengi framan af eina einkarekna stöðin sem starfaði við það að stærstum hluta að rækta skógarplöntur. Nú liggur það fyrir að nýtt félag, Gróðrarstöðin Barri ehf., hefur gert tilboð í þrotabú Barra hf.; birgðir, lausafé og merki Barra hf. – ásamt leigu á fasteignum þess að Valgerðarstöðum 4. Skúla Björnssyni, fráfarandi framkvæmdastjóra Barra hf., var falið að gæta eigna og birgða hins gjaldþrota fyrirtækis á meðan framtíð þess var óráðin og hann hefur einnig farið fyrir þeim hópi sem nú hyggst taka það yfir. „Félagið rak megin gróðrastöð sína á Egilsstöðum en í kjölfar breytinga á miðbæjarskipulagi þar flutti félagið starfsemi sína að Valgerðarstöðum 4, Fellabæ og byggði þar upp fullkomna aðstöðu. Þá tók Barri hf. á leigu Gróðrarstöðina á Tumastöðum á Suðurlandi árið 2007. Þrátt fyrir að staða félagsins væri á þessum tíma góð (eiginfjárhlutfall um 60% í lok uppbyggingar) þurfti að taka töluverða fjármuni að láni til að standa undir byggingarkostnaði að Valgerðarstöðum 4 og voru þau lán í erlendri mynt. Þegar gengi íslensku krónunnar fór að falla síðla árs 2007 og á árinu 2008 fóru saman miklar hækkanir á skuldum félagsins og samdráttur af hálfu hins opinbera í kaupum á plöntum til skógræktarverkefna. Þetta leiddi til gríðarlegra áfalla í rekstri félagsins. Stórfelldri lækkun rekstrartekna vegna trjáræktunar hefur verið reynt að mæta með m.a. samstarfi við líftæknifélagið Orf-líftækni. Þær tekjur hafa hins vegar ekki dugað til að mæta skuldbindingum félagsins. Rekstur félagsins hefur verið erfiður síðustu ár, enda framlag hins opinbera til nýskógræktar dregist verulega saman. Séu allar tölur reiknaðar til sama verðlags var fjárframlag ársins 2011 til Héraðs- og Austurlandsskóga aðeins 54% af því sem það var árið 2006 og 58% af meðaltali áranna 2003-2008, en þetta hafa löngum verið aðal viðskiptavinir Barra hf. Hlutdeild Barra hf. á þessum markaði hefur minnkað umtalsvert á sama tíma,“ segir Skúli. Gróðrarstöðin Barri ehf. tekur við keflinu „Í október síðastliðnum var það ljóst að Barri hf. stæðist ekki útboðsskilyrði Ríkiskaupa vegna fjárhagsstöðu en þá voru í útboðsferli ræktun skógarplantna fyrir þrjú landshlutaverkefni í skógrækt. Til að geta tekið þátt í útboðinu var boðið í verkefnið í nafni Fasteignafélags KHB. Búið er núna að skipta um nafn á því félagi, skipa stjórn og samþykkja nýjar samþykktir undir nafninu Gróðrarstöðin Barri ehf.,“ segir Skúli um þróun mála á síðustu vikum og mánuðum. „Gróðrarstöðin Barri ehf. hefur nú gert tilboð til þrotabús Barra hf. í birgðir, lausafé og merki Barra hf. ásamt leigu á fasteignum á Valgerðarstöðum 4. Þetta er allt gert með fyrirvara um fjármögnun, en á þessum tímapunkti lítur út fyrir að okkur muni lánast að afla lágmarks fjárupphæðar. Þá hafa verið undirritaðir ræktunarsamningar, á grundvelli útboðs Ríkiskaupa, um ræktun á ríflega 200 þúsund plöntum sem verða afhentar árlega árin 2014 til 2016 – með mögulegri framlengingu til 2018.“ Áhersla á ræktun matjurta Í framtíðaráætlunum fyrir Gróðrarstöðina Barra fyrir árin 2013-2015 er gert ráð fyrir að efla vefjaræktun í stofnræktun ýmissa berjaplantna og berjarunna, sem nú er komið á framleiðslustig. Einnig er verið að skoða möguleika á ræktun á matjurtum sem ekki krefjast mikilla fjárbindingar. „Áætlunin gerir ráð fyrir mjög hóflegri aukningu í ræktun og sölu á skógarplöntum á áætlunartímabilinu sem þó verði að teljast líklegt að verði miðað við yfirlýsingar ráðherra skógarmálefna til landsfundar Landssambands skógareigenda á síðasta ári.“ Að sögn Skúla eru næstu skref að ljúka fjármögnun og frágangi samninga. Því næst er að ráða starfsfólk og ganga í að afla fræja, græðlinga og efniviðar til ræktunarinnar. „Eins þurfum við að setja okkur í samband við birgja og kaupendur og leysa ýmis hagnýt mál. Við höfum verið að sækja um styrki til komast enn betur af stað með stofnræktunina í berjaplöntunum og koma því verkefni á fullt framleiðslustig en í vor ættum við að eiga 10 til 15 þúsund slíkar jarðarberjaplöntur til sölu. Þá ætlum við að prófa okkur áfram í ræktun á grænmeti og salati sérstaklega hugsað fyrir nærmarkaðinn.“ Skerðing á framlögum til marks um skammsýni „Mér finnst það ótrúleg skammsýni af stjórnvöldum að draga svo lengi úr framlögum til skógræktarverkefna. Þetta þýðir að uppbygging skógarauðlindar Íslands verður götótt, sem aftur verður þess valdandi að í framtíðinni mun draga úr arðsemi í greininni. Það var sjálfsagt nauðsynlegt að skera niður en það átti að halda áfram að búa til plöntur og gróðursetja því trén vaxa á meðan við sofum. Ég get ímyndað mér að árleg virðismyndun í hektara af skógi á sæmilega góðu landi sé á milli hundrað og tvö hundruð þúsund. Þetta er oftast land sem ekki er verið að nýta nema til takmarkaðrar beitar.“ Skúli segir að reikna megi með að skógarplöntumarkaðurinn hafi dregist saman um 50-60 prósent á síðustu árum. „Hjá okkur hefur þetta þróast þannig að frá því um aldamót hefur framleiðslan verið frá 1,8 til 2,8 milljón plöntur á ári en síðastliðin þrjú ár hefur salan verið í kringum 1,4 milljónir plantna að meðaltali. Frá stofnun Barra hf. árið 1991 hefur hlutdeild í landsframleiðslunni verið frá 35 og upp í 60 prósent. Bjartsýnn á framtíðina Þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum erfiða tíma með Barra á undanförnum misserum er Skúli bjartsýnn á framtíðina. „Ég vonast til að ná að efla og styrkja fyrirtækið með því að vinna úr þeim verkefnum sem bíða okkar í nýja fyrirtækinu. Þá held ég að landsframleiðslan aukist hægt en örugglega á næstu árum. Það er nú þannig að aðstaðan á Valgerðarstöðum er fyrst og fremst hönnuð og byggð fyrir skógarplönturæktun. Það er líka öruggt að ef við reynum að aðlaga okkur markaði og bjóðum upp á gæðavöru hvort sem það eru trjáplöntur, berjaplöntur, grænmeti, salat eða önnur framleiðsla verður Gróðrarstöðin Barri ehf. öflugt fyrirtæki sem vex og dafnar. Í þessum geira sem og víðar er það mannauður fyrirtækisins sem allt veltur á.“ /smh Markmiðið um 15 milljóna hlutafé náðist fyrir miðjan mánuðinn S tjórn Gróðrarstöðvarinnar Barra ehf. ákvað í samræmi við fjárhagsáætlun að fjármögnun félagsins yrði 20 milljónir með hlutafé og 15 milljónir með lánsfé. Markmiðið var að ná að safna a.m.k. 15 milljónum í hlutafé fyrir miðjan þennan mánuð. Að sögn Skúla er því markmiði náð, sem þýðir að farið verður næst í að afla lánsfjár til að ljúka fjármögnun á kaupum á lausafé og birgðum þrotabús Barra hf. Öflun hlutafjár fór þannig fram að auglýstur var kynningarfundur fyrir áhugasama um að hefja rekstur að nýju á Valgerðarstöðum 4. Þá var haft samband við alla þá aðila sem talið var að hefðu hag og áhuga á að rekstur færi af stað á ný. Skúli segist hafa fundið fyrir miklum meðbyr í þessu verkefni hvar sem hann hefur komið. Hann geti á þessari stundu ekki upplýst að fullu hverjir standi að hluthafahópnum nema að hann sé saman settur af fyrrverandi starfsmönnum Barra hf., stjórnendum, skógarbændum, sveitarfélögum og ýmsum ótengdum einstaklingum og fyrirtækjum. Valgerðarstaðir 4, sumarið 2008. Mynd / Skarphéðiinn Þórisson Skúli Björnsson

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.