Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 15.10.1988, Page 50

Læknablaðið - 15.10.1988, Page 50
340 LÆKNABLAÐIÐ jafnframt, að sá búnaður sé óspart notaður í auglýsingaskyni til að laða að viðskiptavini. Kunnugt er, að fari »tækjaauglýsingakapphlaup< af stað á annað borð, fer það tíðast út í öfgar, sem oftar en ekki leiðir til ófarnaðar. Það er augljóslega mjög bagalegt, ef slíkt kapphlaup verður til að blekkja fólk og skapa því oftrú á ágæti tiltekinna tækja. Meira virði fyrir líkams- og heilsuræktarstöðvar en glæstur tækjabúnaður er traust þjónusta, byggð á þekkingu og staðgóðri reynslu. Annað Mikilvægt er, að almenningi sé kunnugt, að þjónusta líkams- og heilsuræktarstöðva er fyrst og fremst ætluð einkennnalausu (frísku) fólki, þ.e. fólki, sem ekki hefur sýnileg einkenni sjúkdóma. Einnig er mikilvægt, að þeir, sem hafa einkenni, en óska engu síður að sækja líkams- og heilsuræktarstöðvar, ráðfæri sig við lækni sinn og fræðist um áhættuþætti og áreynslumörk. Hið sama gildir raunar um allt kyrrsetufólk. Til að forðast óhöpp væri æskilegt, að vissir hópar færu ávallt í áreynslupróf hjá sérfræðingi, áður en líkamsþjálfun er hafin. Á það einkum við um þá, sem hafa einkenni um hjartasjúkdóm eða einkenni, sem vekja grun um slíkan sjúkdóm. Einnig alla þá, sem komnir eru yfir miðjan aldur og þá, sem komnir eru yfir fertugt og hafa áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma eins og reykingar, hækkun blóðfitu og háþrýsting. Þá er og nauðsynlegt, að fólk, sem hefur einkenni um sjúkdóma og sækir þjónustu líkams- og heilsuræktarstöðva, fái þá þjónustu frá sjúkraþjálfurum. Á seinni árum hefur færst í vöxt, að íþróttakennarar og íþróttafræðingar sérmennta sig á ýmsum sviðum, m.a. þeim, sem lúta að heilsufarslegum vandamálum. Komi þeir til með að sinna fólki með líkleg heilsuvandamál í vaxandi mæli í framtiðinni, er nauðsynlegt, að heilbrigðisyfirvöld geri hæfniskröfur til þeirra og setji þeim starfsreglur. Hvað sem líður rekstri og starfsemi líkams- og heilsuræktarstöðva og ofangreindum athugasemdum, vill stjórn L.í. í lokin vísa á ný til íslenskrar heilbrigðisáætlunar, markmiðs 10, sem tengist lið 4.5 í áætluninni og vitnað var til í upphafi þessarar umsagnar: »Það á að gefa þjóðfélagsþegnum fleiri og meiri tækifæri til heilbrigðrar hreyfingar en nú er. Efla þarf aðstöðu almennings til íþróttaiðkana innan dyra og byggja í því skyni almenningsíþróttahús eða samnýta betur en nú er tiltæk íþróttamannvirki. Einnig þarf að gefa gaum að því, að fólk fái tækifæri til að hreyfa sig utan dyra og setja upp sérstakar gang- og hjólreiðabrautir í þéttbýli. Skipulagsmálum skal hagað þannig, að fólk, einkum það eldra og þeir, sem eru fatlaðir, geti notið umhverfisins með hreyfingu og þjálfun utan dyra.« í þessu markmiði felast önnur sjónarmið en koma fram i þjónustu veittri af líkams- og heilsuræktarstöðvum. í því er lögð áhersla á aðra þætti: eflingu íþróttaiðkunar almennings, greiðari aðgang að almennningsíþróttahúsum og öðrum íþróttamannvirkjum, góðum kosti á hreyfingu utan dyra. Stjórn Læknafélags íslands tekur að öllu leyti undir sjónarmið markmiðs 10 íslenskrar heilbrigðisáætlunar og telur, að útivist og hæfileg hreyfing utan dyra sé til lengdar heppilegasta, gagnvirkasta og ódýrasta form Iíkams- og heilsuræktar fyrir íslendinga. Framangreind umsögn er m.a. byggð á áliti Félags íslenskra heimilislækna, Svæfingalæknafélags íslands, Félags íslenskra orku- og endurhæfingarlækna og Hjartasjúkdómafélags íslenskra lækna.« EFTIRLIT MEÐ REIKNINGUM LÆKNA Allt frá því snemma árs 1987 hafa ýmsar væringar verið uppi af hálfu samningsaðila læknafélaganna um eftirlit með reikningum lækna. Eftir því sem leið á árið og kom fram á þetta ár mögnuðust deiluatriðin fremur en hitt. Verða þau ekki rakin hér en vísað í greinargerð stjórnar L.í. um þessi mál í 3. tbl. Fréttabréfs lækna 1988 (og leiðréttingu í 4. tbl. þar sem ein setning hafði fallið niður og merkingin við það brenglast nokkuð.) Eftir birtingu greinargerðarinnar óskaði ríkisendurskoðandi birtingar á athugasemdum við þann lið greinargerðarinnar sem bar yfirskriftina «þáttur ríkisendurskoðanda». Sjálfsagt þótti að verða við þessari ósk. Ekki taldi stjórn L.í. ástæðu til að teygja frekar lopann á vettvangi Fréttabréfsins í tilefni athugasemdarinnar þar eð ljóst var í þessu máli sem mörgum öðrum að atriði má vega og meta á ýmsan hátt eftir því frá hvaða sjónarmiði þau eru skoðuð. Eftir að leitast var við af hálfu beggja samningsaðila að beita þeirri framkvæmd við eftirlitið sem báðir geta við unað hefur framkvæmd þess gengið betur og er vonast til.að svo verði áfram.

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.