Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.01.1993, Blaðsíða 32

Læknablaðið - 15.01.1993, Blaðsíða 32
26 LÆKNABLAÐIÐ reykingamanna en sterkara samband við hlébilsþrýsting hjá reykingamönnum. Að þessu leyti líkjast reykingamenn fremur hópi eldri einstaklinga og minnir á þann möguleika að reykingar geti flýtt öldrunarbreytingum. Skýring á þessu sambandi hjartsláttartíðni og blóðþrýstings er talin vera að minnsta kosti að hluta til »hjartlæg« þannig að aukin hjartsláttartíðni valdi auknu útfalli hjartans með samhliða óbreyttri eða aukinni mótstöðu í slagæðakerfi en það gerist við örvun á betai-viðtækjum í hjarta og alfa-viðtækjum í viðnámsæðum slagæðakerfisins. Líklega má skýra hið sterka samband hjartsláttartíðninnar við fastandi blóðsykur sem kemur fram í öllum hópunum á sama máta, það er með auknu sympatikus-álagi á lifur og þar með aukinni nýmyndun þrúgusykurs (glucosu) úr birgðum. Hið ákveðna jákvæða samband við bæði hemóglóbín- og hematókrítgildi kemur nokkuð á óvart. Var hér jafnvel vænst neikvæðrar fylgni við þessa þætti, en líklega vegur tiltölulega lítill fjöldi einstaklinga með blóðleysi, sem að öllu jöfnu hefur í för með sér aukinn hjartsláttarhraða, ekki upp þau óþekktu öfl sem orsaka þetta samband. Jákvætt samband er einnig á milli hjartsláttartíðni og sökkgilda og er það óháð hemóglóbínmagni. Sterkasta sambandið er hjá sígarettureykingamönnum, nokkru minna hjá hinum reykingahópunum en er ekki til staðar hjá þeim sem aldrei höfðu reykt. Að sjálfsögðu getur verið að þessir tveir heilsufarsþættir, reykingar og sökk, endurspegli á óháðan hátt líkamlegt ástand einstaklinganna. Hins vegar getur einnig verið um beint orsakasamband að ræða, það er að reykingar geti á stundum valdið sökkhækkun eins og svo mörgum öðrum ltfefnafræðilegum breytingum. Ahrif reykinga á sambandið á milli hjartsláttartíðni og annarra þátta kemur glöggt fram þegar vægi aldurs er athugað í hinum einstöku hópum. Þannig er fylgni milli hjartsláttar og aldurs og reyndar einnig þyngdarstuðuls meðal þeirra sem aldrei hafa reykt en ekki í hinum hópunum. Koma þessar niðurstöður heim og saman við þá kenningu að reykingar valdi röskun á líkamsstarfsemi með tvennum hætti, annars vegar vegna lífeðlisfræðilegra áhrifa og hins vegar vegna sjúkdóma sem tengjast reykingum beint eða óbeint. í þverskurðarrannsóknum virðist samband hjartsláttartíðni í hvíld við aldur vera óverulegt eins og í þessari athugun. Aðrir (12) hafa fundið nokkra aukningu á hjartsláttarhraða með hækkandi aldri. í nýlegri bandarískri rannsókn á einstaklingum eldri en 65 ára, þar sem einstaklingum var fylgt eftir í átta ár (13), kom hins vegar fram marktæk lækkun á hjartsláttartíðni á þessu tímabili. Skýring þessa liggur ekki ljós fyrir en líkum hefur verið að því leitt, að á tímabilinu hafi hraustustu einstaklingamir valist úr og skilað sér til endurtekinnar rannsóknar en hinir veikari hafi ýmist látist á tímabilinu eða verið ófærir um að koma til skoðunar. Fylgni hjartsláttartíðni við styrk kólesteróls og þríglýseríða í sermi er til staðar í öllum undirhópum. Þetta samband hverfur þegar tekið hefur verið tillit til annarra þátta, svo sem blóðþrýstings, blóðsykurs og hematókrít. Ber þessum niðurstöðum saman við niðurstöður Gillum et al. (2) sem sýndu að ekki var um óháða fylgni á milli hjartsláttarhraða og s-kólesteróls að ræða en slíkt samband fannst hins vegar við blóðþrýsting, bæði í slagbili og hlébili meðal hvítra karla yngri en 55 ára og meðal kvenna. í sömu rannsókn voru jafnframt könnuð áhrif hjarta- og blóðþrýstingslyfja á samband þessara þátta án þess að nokkur marktækur munur kæmi fram. Samband hjartsláttartíðni í hvíld við dánartíðni bæði úr æðasjúkdómum og af öðrum orsökum hefur fundist í fjölmörgum erlendum rannsóknum og nýlega fengið ítarlega umfjöllun Kannel og samstarfsmanna, sem standa fyrir Framingham rannsókninni (1). Auk tengsla við þekkta orsakavalda æðakölkunar, eins og reykingar, háþrýsting og kólesteról í sermi, hefur hjartsláttartíðnin sjálfstætt forspárgildi langt fram í tímann. Enn er flest óljóst um hvort hér er unt orsakasamband að ræða og í hverju það er þá fólgið. Þó má benda á, að hraður hjartsláttur í hvíld er oft vísbending um lélegt þjálfunarástand (samanber fylgni við þyngdarstuðul), sem í mörgum rannsóknum hefur reynst vera sjálfstæður áhættuþáttur kransæðasjúkdóms (1). 1 tilraunum á öpum þar

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.