Læknablaðið - 15.02.1994, Side 46
86
LÆKNABLAÐIÐ
Heilblóð - rauðkornaþykkni
□ Heilblóð
13 Rauðkornaþykkni
Mynd 4. Framleiðsla á heilblóði og rauðkomaþykkni á
árunum 1983-1992.
Blóðflöguvinnsla
Einingar
Mynd 5. Framleiðsla ú blóðflöguþykkni ú úrunwn /983-
1992.
3). Þar af eru rauðkornaþykkni um 12.000
árlega (mynd 4) en blóðflöguþykkni um og
yfir 4.000 á sama tíma (mynd 5). Síðamefndi
blóðhlutinn er að verulegu leyti notaður
fyrir hvítblæðisjúklinga á lyfjameðferð.
Framleiðsla á fersku blóðvatni hefur verið um
3.000 einingar. Vegna húsnæðisþrengsla eru
Blóðbankanum settar skorður hvað viðvíkur
nýtingu á blóðvatni til vinnslu á prótínþáttum
til lyfjaframleiðslu.
Erfðafrœðideild: Allt frá því að
systkinabarnarannsóknir voru í gangi 1972-
1975 á vegum Erfðafræðinefndar Háskólans,
Blóðbankans og fleiri stofnana, hafa ýmsar
sérrannsóknir og vísindarannsóknir verið
gerðar í erfðafræðideild. Sú deild hefur þróast
með ýmsum rannsóknarverkefnum, sem
gerðar hafa verið áætlanir um í samvinnu
við legu- og rannsóknardeildir sjúkrahúsa
hérlendis og erlendis.
Ýmsar breytingar hafa orðið á erfðafræðideild
í áranna rás. Sú mikilvægasta er
tvímælalaust að þar hefur verið byggð upp
rannsóknarstarfsemi fyrir DNA rannsóknir frá
hausti 1985 og hefur sú uppbygging þegar
sannað gildi sitt við greiningu og rannsóknir
margra erfðasjúkdóma hérlendis. Fyrirsjáanlegt
er að framangreint rannsóknarsvið verður í
örri þróun á nýbyrjuðum áratugi.
Meðal stærstu viðfangsefna deildarinnar
hafa verið samfelldar rannsóknir á
arfgengum heilablæðingum vegna cystatín C
mýlildis (amyloid). Þetta er umfangsmesta
rannsóknarverkefni erfðafræðideildar frá
1978 og hefur lengst af verið unnið í
náinni samvinnu við taugalækningadeild
Landspítalans og Rannsóknastofu Háskólans
við Barónsstíg. Helstu samvinnuaðilar erlendis
um þessar rannsóknir hafa verið prófessor
Anders Grubb og samstarfsmenn í Malmö og
Lundi í Svíþjóð og prófessor Blas Frangione
og samstarfsmenn á meinafræðideild
læknamiðstöðvar New York háskóla (New
York University Medical Centre). Arangur
þessara rannsókna er með bestu dæmum
um þann ávinning, sem getur náðst með
notkun erfðatækni og lífefnarannsókna við
sjúkdómarannsóknir. Rannsóknir þessar
eru jafnframt lýsandi dæmi um mikilvægi
fjölþjóðasamvinnu í læknavísindum.
Ekki má heldur gleyma fjárhagsstuðningi
líknarfélaga eins og Heilaverndar og
Blóðgjafafélags Islands og styrkjum
Vísindaráðs. Sá stuðningur hefur skipt sköpum
við uppbyggingu og starfsemi deildarinnar.
í erfðafræðideild Blóðbankans eru gerðar
Ijölþættar sameindaerfðafræðirannsóknir
og ýmsar frumuónæmisrannsóknir og
frumuræktanir. Vefjaflokkarannsóknir voru
gerðar þar 1976-1991.
Síðustu árin hafa kjarnsýrurannsóknir (DNA
rannsóknir) orðið sífellt stærra viðfangsefni í
læknisfræði eins og öðrum greinum líffræði.
Meginviðfangsefni DNA greiningartækni í
læknisfræði hafa verið erfðasjúkdómar, sem
erfast samkvæmt Mendelslögmáli, svokallaðir
eingenasjúkdómar. En tækni þessari er
í vaxandi mæli beitt við ýmsa algengari
sjúkdóma í seinni tíð, þar sem arfbundinn
breytileiki eðlilegra lífefna er talinn skipta
máli í mynd og þróun sjúkdóma. Þetta eru
kallaðir fjölgena sjúkdómar og má nefna
gigtsjúkdóma, insúlínháða sykursýki, ýmsa
ónæmissjúkdóma og sum krabbamein sem
dæmi. I starfi sínu við ættfræðirannsóknir
hefur deildin notið mikillar aðstoðar
Erfðafræðinefndar Háskóla Islands.