Kjarninn - 27.02.2014, Qupperneq 19
03/05 stjórnmál
í lausu lofti
Til viðbótar hefur þeim skilaboðum verið komið til Bjarna
að nauðsynlegt sé að skýra betur hvað standi til að gera
þegar kemur að fjármagnshöftunum og peningastefnunni
í landinu. Verst sé að skilja framtíðarstefnuna eftir í lausu
lofti.
Innan hagsmunasamtakanna eru þó skiptar skoðanir
um málefni ESB, eins og nýlegar skoðanakannanir hafa
leitt í ljós. Um 38,1 prósent þeirra sem svöruðu könnun fyrir
Samtök atvinnulífsins vildi slíta viðræðunum við ESB en 55,6
prósent vildu halda þeim áfram. Ríflega sex prósent tóku
ekki afstöðu.
Bjarni lagði spilin á Borðin á fundi í Valhöll
„Það er pólitískur ómöguleiki fyrir hendi, hann er
öllum ljós,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður
Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahags-
ráðherra, í ræðu sinni á hádegisfundi í Valhöll
síðastliðinn þriðjudag, þar sem hann ræddi um
þá ákvörðun stjórnvalda að draga umsóknina um
aðild að ESB til baka. Bjarni sagði málið þurfa að
skoðast í pólitísku ljósi, þeirri stöðu sem væri uppi í
íslenskum stjórnmálum eftir að Sjálfstæðis flokkur
og Framsóknarflokkur mynduðu stjórn. Báðir
flokkar væru á móti aðild að ESB og það væri ekki
trúverðugt að „draga 28 þjóðir í Evrópusambandinu
á asnaeyrum lengur“. Ferlið þyrfti að stöðva. Bjarni
sagðist sannfærður um að Ísland stæði frammi fyrir
miklum tækifærum utan ESB og stjórnvöld þyrftu
að ná betri tökum á fjármálum ríkisins og hagstjórn,
samhliða afnámi fjármagnshafta. Á fundinum voru
mestmegnis stuðningsmenn Bjarna og ákvörðunar
um að draga umsóknina til baka. Það heyrðist vel á
lófaklappi gesta þegar Bjarni gerði hlé á ræðu sinni
stöku sinnum. Þekktir stuðningsmenn umsóknar um
aðild að ESB, eins og Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi
formaður flokksins, létu ekki sjá sig á fundinum.
Bjarni hvatti í lok fundarins flokksmenn til þess að
slíðra sverðin og taka saman höndum um að rétta
þjóðarskútuna af og horfa björtum augum til fram-
tíðar. Tækifærin fyrir Ísland væru svo sannarlega
fyrir hendi.