Kjarninn - 03.04.2014, Blaðsíða 41
06/08 Stjórnmál
Nýhafin öld verður líka öld borganna ef að líkum lætur.
Fyrir um hundrað árum bjó tíunda hvert mannsbarn í þétt-
býli en gangi spár eftir munu þrír fjórðu hlutar mannkyns
búa í borgum um miðja þessa öld. En þær borgir verða ekki
allar sælureitir, margar samsafn yfirfullra fátækrahverfa.
Offjölgun er einmitt einn manngerði vandinn enn. Taki fólk
ekki í taumana mun náttúran gera það fyrir okkur, sagði
David Attenborough nýlega.
Hvernig mun aðþrengdum lýð ganga að búa í sátt og
samlyndi? Auðvelt er að ímynda sér síaukin átök um þverr-
andi auðlindir, væntanlega í nafni þjóðar eða trúar. Megi
marka nýlega rannsókn gætu skortur og misskipting valdið
borgarastyrjöldum, fólksflótta og samfélagsupplausn um
víða veröld innan fárra áratuga. Langt er reyndar síðan
lærðir menn spáðu hruni vestrænnar menningar og nú síðast
hnignun Bandaríkjanna, heimsveldis okkar daga. Fólkið
sjálft virðist á fallanda fæti, margt þjakað af offitu, sykursýki
og öðrum velmegunarkvillum. Í þessu sambandi má líka velta
fyrir sér framtíð Evrópusambandsins. Verða til Bandaríki
Evrópu eða munu þjóðríkin halda velli? Verður sambandið
jafnvel lagskipt? Um það getur enginn fullyrt nú.
Ísland
Við hlýnun jarðar er ekki spurt um landamæri. Hækki
sjávarmál eins mikið og verst má vera verður Seltjarnarnes
að eyju og Kvosin í Reykjavík fer í kaf. Jöklar hyrfu eða yrðu
ekki nema svipur hjá sjón. Það hefði áhrif á nýtingu vatnsafls
í landinu. Fari svo verður að koma í ljós hvort nýjar siglingar-
leiðir um bráðnandi norðurheimskaut færi björg í bú á
móti. Þar er ekkert fast í hendi. Að sama skapi gæti hlýnun
sjávar laðað fiskistofna á Íslandsmið eins og makríllinn
hefur þegar sýnt. Þetta gæti þó reynst skammgóður vermir.
Sjávardýr dafna ekki í súru hafi. Og þá var til lítils barist í
þorskastríðunum.
Er útvegur Íslendinga kannski í sömu stöðu og land-
búnaður var fyrir um hundrað árum, meginstoð sem hlýtur
þó að minnka að vægi eigi hagur þjóðarinnar áfram að