Árbók skálda - 01.12.1955, Blaðsíða 64
62
aftur á myndina, sem ég var að tala um áðan, ef gert er
ráð fyrir að hraðboðinn sé ekki með náðunarpappíra í hönd-
unum, heldur skilaboð frá kónginum um að hengja manninn
strax. Ingi getur varla staðið á fótunum og svitinn bogar af
honum, og hann er enn farinn að tauta: Aumingja vesalings
barnið! Auk þess virðist hann vera búinn að missa sjónina,
og það er aðeins snarræði mínu að þakka að hann arkar
ekki beint undir einn af póstkassarauðu sendiferðabílunum
hans Gvendar. Ingi er satt að segja svo aumur að mig langar
sem snöggvast að fara inn aftur og heilsa upp á Gvend, en
þá man ég að Ingi þarf að vera kominn með afborgunina
í bankann fyrir klukkan þrjú, og ég gríp í handlegginn á
honum og drösla honum af stað og segi: Nú skulum við
koma snöggvast niður í Skýli og hringja.
Þá er klukkan fimm mínútur gengin í þrjú. Og þegar við
komum niður í Skýli, er Ingi orðinn svo máttlaus í fótunum
að ég má ganga fyrir báða, og það er með naumindum að
ég get valið númerið, og ég er orðinn dauðuppgefinn þegar
Gvendur svarar í símann.
Þvottahúsið Bót, vinnufatadeild, segir Gvendur. Góðan dag-
inn!
Góðan daginn, Gvendur, segi ég.
Nú, þú aftur? segir Gvendur. Hvað get ég gert fyrir þig,
væni?
Ég skal ekki tefja þig lengi, Gvendur minn, segi ég, en
mikið gerðirðu mér stóran greiða ef þú vildir aðgæta hvort
ég hef ekki gleymt umslagi í brjóstvasanum á jakkanum
mínum.
Gvendur segir að ekkert sé sjálfsagðara, og ég skýt stól
undir Inga og held í öxlina á honum svo að hann velti ekki
um koll, og bíð.
Eftir drykklanga stund kemur Gvendur aftur í símann og
segir jú, það sé umslag í brjóstvasanum. Hvítt umslag, segir
Gvendur.