Sveitarstjórnarmál


Sveitarstjórnarmál - 01.10.1986, Síða 4

Sveitarstjórnarmál - 01.10.1986, Síða 4
FORUSTUGREIN ✓ Islenzk sveitarfélög við aldahvörf Á nýafstöðnu landsþingi sambands okkar tengdust mörg framsöguerindi umræðuefninu ísland árið 2000, en með því vildi fráfarandi stjórn sambandsins stuðla að því að beina athygli sveitar- stjórnarmanna að þróun mála næstu tvö áratugina eða svo. Magnús Ólafsson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri nefndar þeirrar, sem fjallað hefur um framtíðarkönnun á vegum forsætisráðu- neytisins, flutti t.d. á þinginu athyglisvert erindi um mannlíf og möguleika á tækniöld, og er þar að finna ýmsar merkilegar upplýsingar, m.a. um mannfjöldahorfur og þróun byggðar hér á landi og um breytingar á því alþjóðlega umhverfi, sem afkoma okkar byggist á. Þær framtíðarspár, sem Magnús gerði grein fyrir, eru vissulega ekki óbrigðular, en engu að síður gefa þær vísbendingu um, hvert stefni og tilefni til bollalegginga um, hvernig hægt sé að grípa inn í framvindu mála og e.t.v. breyta henni. Peir Sigurður Blöndal, skógræktarstjóri, og Ingvi Þorsteinsson, magister, fluttu erindi á lands- þinginu um sveitarfélögin og gróðurvernd og sýndu fram á nauðsyn stórátaks í gróðurverndarmál- um hér á landi. Ljóst er, að án sérstakra aðgerða mun gróðurlendi halda áfram að eyðast og rýrna að gæðum, en með réttum aðgerðum er hægt að snúa þróuninni við og vinna á ný það gróðurlendi, sem tapazt hefur frá því að byggð hófst í landinu. Er það gott dæmi um, hvernig bregðast má við fyrirsjáanlegri þróun. Nú eru að verða grundvallarbreytingar á hinum hefðbundnu atvinnugreinum landsmanna, og þær breytingar munu hafa veruleg áhrif á búsetu þjóðarinnar. Með opinberum aðgerðum er hægt að auka eða draga úr þeim áhrifum. Full ástæða er því fyrir sveitarstjórnarmenn að hafa meiri afskipti af mótun og framkvæmd byggðastefnu í landinu en verið hefur. Gera þarf úttekt á áhrifum þeirra aðgerða, sem gengið hafa undir nafninu „byggðastefna" síðustu 15 árin. Niðurstöður slíkrar úttektar má nota til þess að móta markvissari byggðastefnu jafnframt því sem áhrif og ábyrgð sveitarstjórna á framkvæmd hennar verði aukin. Með nýjum sveitarstjórnarlögum er gert ráð fyrir, að sveitarstjórnir móti sér stefnu um rekstur og framkvæmdir til þriggja ára í senn, og gera verður þá kröfu til ríkisins, að hið sama gildi um framkvæmdaframlög þess til sameiginlegra verkefna ríkis og sveitarfélaga. Að öðrum kosti er hætt við, að verulegt ósamræmi myndist milli væntinga sveitarstjórna um framlög úr ríkissjóði annars vegar og endanlegra fjárveitinga skv. fjárlögum hins vegar. Stjórn sambandsins mun taka þetta atriði til umræðu á næsta samráðsfundi með forsvarsmönn- um ríkisins. Þá verður nú ekki undan því vikizt að gera úttekt á skuldastöðu ríkisins vegna sameiginlegra framkvæmda ríkis og sveitarfélaga, sem Alþingi hefur fallizt á, en ekki veitt fé til í samræmi við framkvæmdahraða. Þótt ekki sé við því að búast, að ríkissjóður geri upp skuldir sínar á skömmum tíma, þá er mikilvægt, að niðurstaða fáist um upphæð skuldanna og að greiðsla þeirra hafi fyrst um sinn forgang fram yfir nýjar framkvæmdir. Til þess að mæta breyttum tímum og til þess að auðvelda nýja framfarasókn byggðanna í landinu er nauðsynlegt að gera breytingar á stjórnsýslu hins opinbera. Með sameiningu sveitarfélaganna í fjölmennari og styrkari einingar og með endurskipulagningu stjórnsýslu ríkisins í héraði er hægt að flytja fleiri verkefni frá ríki til sveitarfélaga og auka þjónustu ríkisins jafnframt bættri stýringu á henni. Nýju sveitarstjórnarlögin hafa ákvæði um lágmarksíbúatölu sveitarfélaga, en vonandi reynir sjaldan á þau. Sameining sveitarfélaga með frjálsu samkomulagi hlýtur að vera sú leið, sem fara á. í því sambandi mega menn ekki sökkva sér um of niður í hagfræðilega útreikninga á hagkvæmni sameiningar og á efnahag einstakra sveitarsjóða. Þegar menn ganga í hjónaband, byggist það ekki á útreikningum á kostnaði af væntanlegum maka eða á tekjuauka af honum. Menn glíma sameigin- lega við þau fjárhagsvandamál, sem upp koma, eftir að hjónabandið er stofnað, og sú glíma reynist yfirleitt tveimur samhentum einstaklingum árangursríkari en ef þeir stæðu hvor í sínu lagi. Það sama á við um sameiningu sveitarfélaga. Ávinningurinn verður ekki eingöngu mældur á fjárhagslegan mælikvarða, heldur þarf einnig að taka tillit til þeirrar orku, sem losnar úr læðingi við að stærri hópur kjósenda leggur sameiginlega fram krafta sína í þágu byggðarlagsins. Björn Friðfinnsson 218 SVEITARSTJÓRNARMÁL

x

Sveitarstjórnarmál

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Sveitarstjórnarmál
https://timarit.is/publication/1063

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.