SunnudagsMogginn - 13.05.2012, Blaðsíða 19
13. maí 2012 19
eru komin á sjóinn,“ segir Halla. Allt
hefur þó hingað til gengið að óskum – á
endanum.
Aldrei er farið með lömbin út í eyj-
arnar fyrr en æðarvarpinu er lokið á
sumrin, það er seinnipartinn í júlí, og
segir Halla beitina ekki hafa komið niður
á því. „Ekki er heldur að sjá að lát sé á
hvönninni.“
Mögulega verður þetta síðasta sumarið
sem lömbin verða flutt út í eyjar en nú
styttist í að sérræktaður hvannarakur í
landi Ytri-Fagradals, sem sáð var í árið
2008, verði tilbúinn. Búið er að girða
fimm hektara af sem þýðir að hægt verð-
ur að beita mun fleiri lömbum en í eyj-
unum.
Fastakúnnum fjölgar
Ekki veitir af en eftirspurn hefur, að sögn
Höllu, vaxið ár frá ári og fastakúnnum
farið fjölgandi. Sumir koma og sækja
kjötið sitt beint á býlið en Halla tekur
einnig að sér að skutla vörunni heim á
tröppur til fólks.
Halla hefur kynnt hvannarlambið víða
á undanförnum misserum, meðal annars
á keppninni Matreiðslumaður Íslands ár-
ið 2009 en þeirri keppni var lagt til
hvannarlamb. „Hvannarlambinu var vel
tekið þar og raunar hefur fólk í mat-
vælaiðnaði upp til hópa verið mjög já-
kvætt í okkar garð,“ segir hún.
Besta auglýsingin sem þau hafa fengið
var þó sennilega þegar Einar K. Guð-
finnsson, þáverandi landbúnaðarráð-
herra, smakkaði hvannarlambið á sínum
tíma. „Eftir á tjáði hann mér í trúnaði að
hann hefði verið smeykur við að finna
engan mun á hvannarlambi og venjulegu
lambi en þegar á reyndi fann hann alveg
muninn. Ég held það eigi við um flesta,
bragðið er öðruvísi. Hvort það er betra
eða verra er ekki mitt að meta enda er
það eflaust smekksatriði – en bragðið er
sannarlega öðruvísi!“
Ljósmynd/Guðmundur Guðmundsson
Ljósmynd/Halla Steinólfsdóttir
Bíla- og tækjaáhugi ábúenda í
Ytri-Fagradal fer ekki framhjá
nokkrum manni sem kemur í
hlaðið. Hver dráttarvélin er
upp af annarri og engu færri
bifreiðar, af öllum stærðum og
gerðum. Sú elsta gangfæra er
55 ára. „Sautján,“ svarar Guð-
mundur sposkur, spurður hvað
dráttarvélarnar séu margar,
„en að vísu bara tíu í notkun.“
Flestar eru þær komnar til
ára sinna og sumar hefur Guð-
mundur fengið fyrir lítið sem
ekkert fé hjá öðrum bændum
til að brúka í varahluti. Síðan
hefur hann gert þær upp og
notað – árum saman. „Það er
voða þægilegt að hafa svona
margar vélar, hver vél þjónar
sínum tilgangi.“
Dráttarvélarnar heita allar
nöfnum, frægust er Júlíana,
Deutz, árgerð 1973, sem á
sína eigin síðu á Snjáldrunni
(e. Facebook), líklega ein
dráttarvéla á landinu. Spurður
hversu marga vini Júlíana eigi
á þeim vettvangi svarar Guð-
mundur því til að hún sé afar
vandlát. Síðan dregur hann
augað í pung. Júlíana er komin
í meira en þrettán þúsund
vinnutíma en kvartar aldrei –
og hefur aldrei verið betri.
Það eru ekki bara drátt-
arvélarnar sem lifa langan dag
á Skarðsströnd, Halla vekur
athygli á sinni prívat bifreið,
Mitsubishi Lancer á þrítugs-
aldri. Á gömlum númerum. „Ég
er í sveitarstjórninni og við
göntumst stundum með það á
fundum að Lancerinn minn sé
eldri en bílar allra hinna stjórn-
armannanna til samans. En
alltaf skilar hann mér á
áfangastað,“ segir Halla.
Lancerinn er þó nánast eins
og úr kassanum við hliðina á
bílnum sem Guðmundur er að
gera upp þessa dagana,
Dodge Coronet, árgerð 1970.
Sannkölluð glæsikerra. Meðan
sendinefnd Sunnudagsmogg-
ans er í Ytri-Fagradal kemur
bréfberinn með mikinn böggul
í hús. Reynast það vera gólf-
mottur í Coronetinn. Brúnin á
bónda lyftist. „Er þetta org-
inal?“ spyr Ragnar ljósmynd-
ari. Guðmundur þarf ekki að
taka til máls, hann svarar með
augunum.
Aðspurður kveðst hann
panta alla varahluti núorðið
frá útlöndum gegnum netið.
Það margborgi sig.
46 ára gamall steypubíll
Eldri bíla er að finna á bænum,
til dæmis forláta steypubíl frá
1966 sem Guðmundur festi
kaup á þegar hann steypti
grunn að nýju fjárhúsi fyrir
nokkrum árum. Sá var sann-
arlega betri en enginn og bíð-
ur nú næstu verkefna í krús-
unum nærri bænum.
Upphaflega stóð til að hann
færi á Byggðasafnið á Skógum
en töf verður bersýnilega á
því.
Hlutir úr bílum eru til margs
brúklegir, þannig eru stælleg
sæti úr Chevrolet Corvette fyr-
ir utan fjárhúsin. „Það er ekki
amalegt að tylla sér hér og
hvíla lúin bein í sauðburð-
inum,“ segir Halla og fær sér
sæti. „Það er verst þegar sólin
skín, þá liggur vinnulýðurinn
bara í sætunum.“
Guðmundur nýtur sín hvergi
betur en þegar hann er að
gera upp eða tjasla við bílana
sína eða eins og Halla hefur
eftir honum: „Það væri margt
hægt að gera til sveita ef ekki
væri þetta sauðfé!“
„… ef ekki væri þetta sauðfé“
Dráttarvélar eru í miklum metum í Ytri-Fagradal, ekki síst sú græna,
Júlíana, sem er meira að segja með síðu á Snjáldrunni.
Morgunblaðið/RAX
Árin segja sitt1979-2012
BISTRO
Laugarásvegi 1 | 104 Reykjavík | Sími: 553 1620 | laugaas.is