SunnudagsMogginn - 09.09.2012, Blaðsíða 33

SunnudagsMogginn - 09.09.2012, Blaðsíða 33
irþyrmandi rétttrúnaði sem umlykur okkur? Ég er alls ekki kreddufastur í skoðunum. Íhaldssamt fólk er yfirleitt ekki mjög hugmyndafræðilega sinnað. Það vill hins vegar að staðið sé fast við ákveðin gildi. Ströng hugmyndafræði hefur aldrei spilað stórt hlutverk í sögu Sjálfstæðisflokksins, sam- anber stofnstefnuskrá flokksins sem er tvær línur, um að tryggja sjálfstæði landsins og hafa frelsi ein- staklingsins og frjálst atvinnulíf að leiðarljósi.“ Finnst þér Sjálfstæðisflokkurinn eins og hann er núna vera á réttri leið? „Nei, mér finnst hann alltof kraftlítill, ekki láta nóg að sér kveða og ekki standa nægilega vörð um grundvallarsjónarmið sín. Þetta hefur leitt til þess að vinstrimenn hafa undanfarin ár haft frítt spil. Það þarf endurnýjun í Sjálfstæðisflokknum, eins og reyndar í öðrum flokkum. Fólk þarf að finna að kjörnir fulltrúar tali sama mál og það og finni til samkenndar með því. Um leið og fólk kemst inn á þing er eins og það sogist margt inn í umhverfi sem gerir það að þrælum kerfisins. Það treystir sér ekki til að brjóta upp kerfið og gerist þjónn þess og embættismannanna. Það vantar þingmenn sem segja meiningu sína, tala tæpitungulaust og standa vörð um hagsmuni venjulegs fólks, skattgreið- enda. Það eru „Jón og Gunna“ sem á endanum þurfa að standa undir öllu bákninu.“ Bækurnar hafa verið minn heimur Víkjum að bókaútgáfu þinni. Þetta er ekki stórt forlag en þú gefur samt út allmikið á hverju ári, aðallega pólitískar bækur og erlendar fagurbók- menntir. Af hverju fórstu út í bókaútgáfu? „Ja, ég hef lifað og hrærst í bókum frá því að ég var lítill. Pabbi var bóksali á Akureyri í átján ár og gaf út nokkrar bækur, þar á meðal með bróður sín- um, Bárði, sem var hæstaréttarlögmaður, og þriðji bróðirinn, Guðmundur, rak bókaútgáfu í 25 ár, Ægisútgáfuna. Pabbi skrifaði svo tuttugu bækur eftir að hann hætti sem bóksali. Bækurnar hafa því alltaf verið minn heimur, ef svo má segja. Ég fór út í eigin útgáfu fyrst og fremst vegna þess að ég hélt að ég gæti með því skapað mér svigrúm til skrifta. Það er ekki hægt að lifa af ritstörfum á Íslandi nema maður detti í styrkja-lukkupottinn, komist á garðann hjá Launasjóði rithöfunda, og ég var nú ekki líklegur til þess. Ég hef aldrei fengið krónu úr þeim sjóði. En ég varaði mig ekki á því að bókaút- gáfa er mjög tímafrekt stúss. Mér hefur því gefist mun minni tími til að skrifa en ég hugði. Já, Ugla er öðrum þræði pólitískt útgáfufélag og miklu pólitískara en Almenna bókafélagið var á sínum tíma. Almenna bókafélagið gaf í rauninni ekki út svo margar pólitískar bækur, AB var miklu fremur skjól fyrir rithöfunda sem hneigðust til hægri í stjórnmálum. En auk þess að gefa út póli- tískar bækur hef ég blásið nýju lífi í klassískar barnabækur eins og Pollýönnu, Heiðu og Öddu- bækurnar. Þá hef ég lagt mig talsvert eftir því að gefa út þýðingar á sígildum bókmenntaverkum. Það hafa aðallega verið þýðingar gamals félaga úr blaðamannastétt, Atla Magnússonar. Alls hef ég gefið út um 120 bókatitla á átta árum. Ég hef einstaklega gaman af því að gefa út bæk- ur, handleika bækur, búa bækur undir prentun og lesa þær. En Ísland er svo lítill markaður. Flest af því sem ég hef áhuga á að gefa út hefur fólk al- mennt ekki áhuga á að lesa! Ég verð því miður að sætta mig við það. Ég myndi til dæmis vilja gefa út tíu þýðingar á meistaraverkum Dickens en fyrir því er enginn fjárhagsgrundvöllur. Litlir útgefendur eiga almennt mjög erfitt upp- dráttar. Til að selja bók þarf að leggja fé í auglýs- ingar. Í þeim efnum er hins vegar ekki á vísan að róa. Ef illa fer á litli útgefandinn erfitt með að bera tapið. Stóri útgefandinn, sem auglýsir 10–20 bæk- ur, þolir vel að 2–3 titlar seljist ekki, hann gerir í rauninni ráð fyrir því. En litli útgefandinn, sem leggur allt undir til að auglýsa tvo titla, má ekki við því að þeir klikki báðir. Jafnframt stendur hann frammi fyrir því að ef hann auglýsir bækurnar ekki eru þær sjálfdauðar í jólabókaflóðinu. Litlir útgef- endur hafa þar að auki miklu minni aðgang að sölustöðum en þeir stóru og sterku. Það er því ekki að furða að litlir útgefendur hafi stundum allt á hornum sér.“ Þú heldur samt ótrauður áfram, ertu svona þrjóskur? „Nei, ekki þrjóskur en ég hef einhverja undarlega tilhneigingu til að synda á móti straumnum. Mér er illa við að láta segja mér fyrir verkum, þótt ég að öðru leyti reyni að þóknast fólki alltof mikið. Jæja, það er kannski í mér eitthvert þráablóð. En það er mikill munur á þrjósku og því að standa fast á réttum málstað. Ég hef alltaf verið tilbúinn að taka afstöðu með þeim sem eiga undir högg að sækja í ýmsum skilningi, ekki síst þegar það er í andstöðu við ríkjandi viðhorf. Eftir því sem sjálfstraust mitt hefur aukist með aldrinum hef ég haft vaxandi tilhneigingu til að segja og gera það sem mér finnst rétt. Ég ber mikla virðingu fyrir fólki sem hættir öllu til að berj- ast gegn ranglæti. Þess vegna, meðal annars, skrifaði ég heila bók um lýðræðisbaráttu Aung San Suu Kyi í Búrma. Ég bý ekki yfir hugrekki slíks fólks, en ég er kominn á þann aldur að ég treysti mér alveg til að láta fólk vita ef mér finnst það sýna ósanngirni eða beita rangsleitni.“ Er það ekki rétt að þú hafir undanfarin ár verið að skrifa ævisögu Bjarna Benediktssonar forsætis- ráðherra? „Já, það hefur því miður dregist fyrir mér að ljúka við hana. Börn Bjarna hafa sýnt mér mikla þol- inmæði. Það er einstakt tækifæri að fá að skrifa um mann eins og Bjarna Benediktsson. Hann var af- burðagáfaður maður og víðsýnn, þótt öðru væri stundum haldið fram. Þegar ákvarðanir hans eru skoðaðar sýnist hann yfirleitt hafa verið mjög sann- gjarn og réttsýnn. Enda fór það svo að hann ávann sér, með verkum sínum og staðfestu, meiri virðingu almennings en nokkur stjórnmálaleiðtogi allt frá Jóni Sigurðssyni. Í upphafi stjórnmálaferils síns var hann geysilega umdeildur en þegar hann dó var hann nán- ast óumdeildur sem landsfaðir. Fólk bar traust til hans og vildi njóta leiðsagnar hans. Það er ógæfa Ís- lendinga að slíkur maður skuli ekki hafa verið til taks þegar bankarnir hrundu.“ Morgunblaðið/Kristinn 9. september 2012 33

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.