Morgunblaðið - 24.11.2012, Qupperneq 4
4 Jólablað Morgunblaðsins
Í
íslensku jólahaldi eru hefðirnar ákaf-
lega sterkar. Nýjungar erlendra menn-
ingarstrauma eru oft fljótar að ná fót-
festu hér á landi og í opnu samfélagi er
slíkt eðlileg þróun. En að sama skapi
eru hefðirnar góðar, svo framarlega sem þær
þrælbinda okkur ekki. En hvað sem ytri um-
gjörð líður þá er boðskapur jólanna alltaf hinn
sami: sagan af fæðingu frelsarans sem er allt í
senn; falleg, einföld og einlæg. Ég hef séð
mestu rökhyggjumenn breytast í jólabörn um
hátíðirnar, barnatrúin er okkur svo nauðsyn-
leg,“ segir sr. Halldór Reynisson sókn-
arprestur í Hruna.
Skilaboð til allra mannanna barna
„En það bar til um þessar mundir, að boð
kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi
alla heimsbyggðina.“ Svo hljóðar upphaf sög-
unnar og við þekkjum öll framhaldið. Eigi var
rúm fyrir þau Jósep og Maríu í gistihúsinu og
því héldu þau til fjárhússins á Betlehems-
völlum þar sem María ól son þeirra frumget-
inn. Og einmitt þar hittu fjárhirðarnir foreldr-
ana fyrir samkvæmt leiðsögn engilsins.
„Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Krist-
ur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til
marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og
lagt í jötu.“ Þetta voru skilaboðin til hirðingj-
anna og raunar allra mannanna barna eftir
það.
„Jólaguðspjallið er saga um fegurð og góð-
vild,“ segir sr. Halldór „Í fátækt sinni og um-
komuleysi eru Jósep og María á flótta þegar
hún elur soninn og fæðing barns er alltaf æv-
intýri „Fegurð og góðvild, hvað er umkomu-
lausara í rangsnúnum heimi – en þó mest af
öllu og mun lifa allt segir skáldið Snorri Hjart-
arson í ljóði sínu Ung móðir. Þar bendir hann
okkur á þennan andlega þátt sem við þurfum
stundum til að lifa af; og þannig er trú bernsk-
unnar. Trú á að lífið hafi tilgang og sé gott í
sakleysi sínu. Sem það og er,“ segir Halldór og
minnir í þessu sambandi á að jólin séu allt í
senn hátíð trúar, fjölskyldu og hefða.
Í veröld merkrar sögu og fortíðar
Sr. Halldór Reynisson hóf prestskap fyrir
um 26 árum. Fyrst í Hruna og síðar varð hann
prestur við Neskirkju í Reykjavík. Undanfarin
ár hefur hann sinnt fræðslumálum hjá Bisk-
upsstofu. Og svo sannast lögmálið um að sagan
endurtaki sig. Síðasta haust tók Halldór tíma-
bundið við prestþjónustu í Hruna og sinnir nú
kristnihaldi á Flúðum og nærliggjandi byggð-
um í uppsveitum Árnessýslu. Halldór segist
raunar fljótt eftir að hann kom að Hruna í
byrjun árs 1987 hafa kynnst þar í sveitinni ær-
legu og góðu fólki sem hafi gefið honum innsýn
í veröld merkrar sögu og fortíðar.
„Áður var ég í nokkur ár forsetaritari í emb-
ættistíð Vigdísar Finnbogadóttur. Í því starfi
hitti ég stundum þjóðhöfðingja og fólk í áhrifa-
stöðum. Ungum, óþroskuðum og hégómagjörn-
um fannst manni kannski merkilegt að vera í
glæsiveislum með fínu fólki. Svo komst maður
að raun um að sumt af því var satt að segja
hvorki mikilla sanda né sæva. Hins vegar hitti
ég hér í sveitinni stundum fólk með sterka
skapgerð sem var um margt einstakt. Fyrir
ungan sveitaprest var þetta mikil uppgötvun,“
segir Halldór. Bætir við að eftir því sem árin
líði leiti sagan og fortíðin sterkar á sig.
Kynslóð fram af kynslóð
„Vitur maður hér í sveitunum sagði ein-
hverju sinni á gamals aldri að líf sitt væri ef til
vill eins og ferðalag á Willis-jeppanum sem
hann átti. Á æskuárum horfði maður í gegnum
framrúðuna á veginn fram undan, á miðjum
aldri út um hliðarrúðurnar en þegar árin færð-
ust yfir horfði hann í gegnum afturgluggann
yfir farinn veg,“ segir sr. Halldór og heldur
áfram.
„Líklega geta margir sagt svipaða sögu.
Líta þá til bernskunnar og vilja halda sín jól
með hennar svip. Í því liggur meðal annars
skýringin á því að jólasiðir Íslendinga eru svip-
aðir kynslóð fram af kynslóð. Eigi að síður
hafa þó komið inn nýir siðir svo sem Coca-Cola
jólasveininn sem er einskonar afbökun á heil-
ögum Nikulási.“
Munurinn á kirkjustarfi í sveit og borg er
talsverður, segir sr. Halldór. Í dreifbýlinu er
kirkjan afar stór þáttur í samfélagi fólksins.
Mörgum sé í mun að halda kirkjunni sem hluta
af menningararfinum og hann hafi líklega
haldist betur í sveit en borg. Í þéttbýlinu hafi
orðið meira hefðarrof í samfylgd fólks og trú-
ar.
„Í dreifbýlinu hafa prestar mikilvægum
skyldum að gegna. Oft eru þeir – ásamt heil-
brigðisstarfsfólki og kennurum – þeir einu sem
hafa það hlutverk að sinna heill og hamingju
fólks. Sálgæsluverkefnin eru mörg. Raunar
mun fleiri en á fyrstu prestskaparárum mín-
um, kannski vegna þess að fólk er opnara nú
en áður gagnvart því að leita sér hjálpar þegar
á móti blæs og ég sjálfur reyndari.“
Sterkur þáttur í menningunni
Trúin vekur jafnan sterkar tilfinningar.
Umræður á hennar nótum geta orðið átaka-
miklar. Sumstaðar hefur t.d. verið mörkuð sú
stefna að halda skuli trúnni og boðskap hennar
utan skólanna. Um það hafa verið skiptar
skoðanir. Sr. Halldór segir slíkt ef til vill skilj-
anlegt þar sem lífsviðhorf eru ólík.
„Hins vegar er sjálfsagt að nemendur í
grunnskólum, hvað sem viðvíkur lífsskoð-
unum, fræðist um hinn kristna arf, svo sterkur
er hann í allri okkar menningu. Á sama hátt
finnst mér að allir eigi að læra um hinn heiðna
sið og önnur trúarbrögð með vísan til sög-
unnar,“ segir Halldór
Hrunaprestakall er víðfeðmt. Sóknarkirkj-
urnar í uppsveitum Árnessýslu, sem því til-
heyra, eru fjórar, það er Hruni, Hrepphólar,
Ólafsvellir og Stóri-Núpur. Sálirnar eru á
þrettánda hundrað. Halldór þarf því að sinna
allmörgum messum um hátíðarnar og fram-
undan er törn við ræðuskrif og annan und-
irbúning. Alkunna er að oft flétta kennimenn
fréttir dagsins saman við boðskapinn. Tala
þannig inn í aðstæður dagsins. En hver hefur
sinn stílinn og sjálfur segist sr. Halldór hins
vegar vilja halda sig við guðspjallið sjálft í jóla-
ræðum sínum.
„Satt að segja finnast mér jólin ekki vera á
plani þessara daglegu frétta, sem oft eru frek-
ar neikvæðar. Jólin snúast um góðar fréttir,
fagnaðarerindi. Gríska orðið fyrir það, ev-
angelion, merkir bókstaflega góðar fréttir.
Barnið merkir að við erum ekki ein í tilgangs-
leysinu „utan við seilingu Guðs“ svo notað sé
orðalag Hannesar Péturssonar skálds. Það
fjallar um vonina og góðvildina. Þetta er sá
tími og þeir dagar þegar okkur á að líða vel, þó
vissulega geti þetta líka verið mörgum erfiður
tími, svo sem í kjölfar áfalla,“ segir Halldór og
heldur áfram.
„En boðskapur jólanna er að lífið sé gott.
Þetta eru dagarnir þegar fólk setur deilumálin
– pexið og ruglið – til hliðar um stundarsakir.
Tekur svo kannski þráðinn upp aftur á annan í
jólum. En þrátt fyrir allt; í stutta stund á há-
tíðisdögunum opnar fólk þarna fyrir tærleik-
ann í hjartanu.“
Eiga góðvild í hjartanu
Halldór nefnir að á dögunum hafi hann hitt
norður í landi gamla konu og átt við hana
ánægjulegt samtal. Hún hefði um dagana hlúð
að öllu því sem gott má teljast, eins og viðmæl-
andi okkar kemst að orði.
„Hún er alin upp í boðskapnum að elska
náungann og styðja við þurfandi. Sumir eiga
einfaldlega meiri góðvild í hjartanu en aðrir og
þeir gefa okkur fordæmi. Vissulega er hægt að
láta lífsreynslu fylla sig biturð og láta áföllin
brjóta sig niður. Aðrir nýta reynsluna sér til
góðs. Sannleikurinn er nefnilega sá að maður
þarf einfaldlega að þjálfa sig í góðvild í garð
annara. Í því efni eru jólin áminning og góður
upphafspunktur.“
sbs@mbl.is
Þá opnar fólk fyrir tærleika í hjarta
Mestu rökhyggjumenn breyt-
ast í jólabörn um hátíðirnar,
segir sr. Halldór Reynisson
sóknarprestur í Hruna.
Barnatrúin er okkur nauðsyn-
leg. Hátíð trúar, fjölskyldu og
hefða. Jólin áminning og góð-
ur upphafspunktur góðvildar.
Morgunblaðið/Sigurður Sigmundsson
’Satt að segja finnst mér jólin
ekki vera á plani þessara dag-
legu frétta, sem oft eru frekar
neikvæðar. Jólin snúast um góð-
ar fréttir, fagnaðarerindi. Gríska
orðið fyrir það, evangelion,
merkir bókstaflega góðar fréttir.
Barnið merkir að við erum ekki
ein í tilgangsleysinu.
Prestur „Ég hef séð mestu rökhyggjumenn breytast í jólabörn um hátíðirnar, barnatrúin er okkur svo nauðsynleg,“ segir sr. Halldór í Hruna.