Morgunblaðið - 02.02.2013, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 02.02.2013, Blaðsíða 27
27 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. FEBRÚAR 2013 Skálafell Skíðasvæðið í Skálafelli er með bestu skíðasvæðum landsins og rétt ofan við efstu skíðalyftur, í um 790 metra hæð, blasa við fjarskiptamöstur sem gegna mikilvægu hlutverki. Árni Sæberg Sóknarfæri Sjálfstæðisflokksins í kosningunum í vor eru tvímælalaust mikil, um það vitnar sterk staða hans í skoðanakönnunum og málflutningur okkar fær góðan hljómgrunn meðal fólks. Það fann ég vel í nýliðnu prófkjöri þar sem ég hitti mikinn fjölda fólks í Norðausturkjördæmi. Fólk hefur feng- ið nóg af bakkgírs- og kyrrstöðustefnu ríkisstjórnarinnar og vill nýjar áherslur sem eru til þess fallnar að hleypa lífi í atvinnulífið, efla atvinnustigið og bæta um leið hag heimilanna. Almenningur hefur fengið nóg af skattastefnu rík- isstjórnarinnar sem er til þess fallin að draga þróttinn úr fólki og fyrirtækjum í stað þess að ýta undir fjárfestingu og hvatningu til þess að sækja fram. Viðvörunarbjöllunum er hringt ótt og títt. Það er raunalegt að verða vitni að því og fá það staðfest í samtölum við fólk hvernig skattar og nýjar álögur skerða sífellt lífsgæði þess og mögu- leika á því að ná endum saman. Það sama er upp á teningnum í atvinnulíf- inu, t.d. í sjávarútvegi og ferðaþjónustu, þar sem skattkrumla ríkisstjórnarinnar er hægt og bítandi að draga kraftinn úr þessum atvinnugreinum. Enda gefa nýjustu hagtölur til kynna að verulega hafi hægt á hjól- um efnhagslífsins að undanförnu. Einkaneysla stóð nánast í stað á síðasta ársfjórðungi liðins árs, sem er skýrt merki um þá kyrr- stöðu sem er í samfélaginu. Á sama tíma halda stjórnvöld áfram á braut skattahækkana. Það er mikið verk að vinna; samfélagið er í vörn, í besta falli kyrrstöðu. Stjórnarstefnan undanfarin ár hefur gert það að verk- um að dregið hefur úr þeim krafti og áræðni sem lengi hefur ein- kennt Íslendinga og knúið öðru fremur áfram hjól samfélagsins. Þetta á sér stað um allt land og það er algjörlega lífsnauðsynlegt að komast upp úr þessu djúpa hjólfari. Við verðum að sækja fram á nýjan leik. Á yfirvegaðan og markvissan hátt. Með breyttri stefnu. Það verður að rjúfa þann vítahring skattahækkana og nið- urskurðar sem núverandi ríkisstjórn hefur búið til. Við verðum að lækka skatta, ekki hækka þá. Við þurfum að efla nýsköpun og at- vinnulíf til að auka atvinnutækifæri, hækka laun hinna lægst laun- uðu og auka kaupmáttinn. Við verðum að létta byrðar milli- tekjufólksins, sem flestir á vinnumarkaði á Íslandi teljast til, ekki síst barnafólk. Við verðum að skoða gaumgæfilega allar leiðir til að koma fjölskyldum í landinu undan oki verðtryggingarinnar. Ekkert af þessu kemst í framkvæmd undir núverandi rík- isstjórn. Við þurfum nýja pólitíska forystu. Alþingskosningarnar í apríl næstkomandi eru tækifæri til þess að skipta um stefnu, rjúfa kyrrstöðuna og sækja fram. Eftir Kristján Þór Júlíusson Kristján Þór Júlíusson Lækkum skatta » Alþingis- kosning- arnar í apríl næstkomandi eru tækifæri til þess að skipta um stefnu, rjúfa kyrrstöðuna og sækja fram. Höfundur er 2. varaformaður Sjálfstæðisflokks- ins og þingmaður í Norðausturkjördæmi. Tilgangur nátt- úruverndarlaga er í gróf- um dráttum tvíþættur; að vernda náttúruna og að auðvelda umgengni al- mennings um hana. Stundum togast þessi sjónarmið á, en til lengri tíma litið eru sameig- inlegir hagsmunir að við- halda þeirri miklu nátt- úrufegurð sem Ísland býr yfir og gera sem flestum kleift að njóta hennar án þess að á hana sé geng- ið. Langur aðdragandi og dýrmætt samtal Frumvarp til laga um náttúruvernd er afrakstur vinnu sem hefur staðið stóran hluta þessa kjörtímabils. Í nóv- ember 2009 skipaði ég nefnd um endur- skoðunina sem skilaði tveimur árum síðar af sér hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands. Slíkar bækur eru gjarnan undanfari lagasetningar í nágrannaríkjunum, en teljast nýmæli hér á landi. Á grundvelli hvítbókar var boðið til umræðu á umhverfisþingi haustið 2011, á kynningarfundum víða um land og kallað eftir athugasemdum á vef ráðuneytisins. Með allt þetta dýrmæta efni í fartesk- inu vann ráðuneytið drög að frumvarpi til náttúruverndarlaga sem síðan fóru aftur í opið umsagnarferli síðastliðið sumar. Farið var yfir ábendingar og at- hugasemdir sem bárust sem margar urðu til þess að skerpa á ákveðnum at- riðum frumvarpsins og bæta það. Að þessu þriggja ára ferli loknu mælti ég loks fyrir frumvarpi til laga um náttúruvernd nú í janúar. Ég vænti þess að frumvarpið styrkist enn frekar í þinglegri meðferð, um það verði breið sátt og ný náttúruverndarlög öðlist gildi fyrir þinglok. Hljóð úr horni Undanfarna daga hefur borið á há- værri gagnrýni á afmarkaðan hluta náttúruverndarfrumvarpsins, gagnrýni sem snýr að rétti fólks til að ferðast um hálendi landsins. Gagnrýnin snýr að því að skýrt þurfi að vera hvar megi og megi ekki aka um óbyggðir landsins, svo náttúran beri ekki skaða af. Þar ber sér- staklega að nefna ákvæði um kortagrunn yfir veg- slóða á hálendinu og al- mannarétt. Hér er mikilvægt að taka fram að náttúruunnendur þurfa ekki að óttast lög um náttúruvernd, þvert á móti eru náttúruverndarlög til að styrkja þeirra málstað. Má þar til dæmis benda á að eitt af markmiðum frum- varpsins er að „tryggja rétt almennings til að fara um landið og njóta náttúrunn- ar og stuðla þannig að almennri útivist í sátt við náttúruna“. Skýr rammi gegn utanvegaakstri Akstur utan vega hefur lengi verið vandamál á Íslandi, enda er náttúran víða viðkvæm fyrir slíkum ágangi. Und- anfarin ár hefur markvisst starf farið fram gegn utanvegaakstri og nokkuð áunnist. Munar þar verulega um fræðslu- og samráðsvettvang um ut- anvegaakstursmál þar sem saman koma fulltrúar hagsmunaaðila, samtaka ferðafólks og opinberir aðilar til að vinna að því að upplýsa og fræða ferða- menn um málið. Samkvæmt gildandi lögum er akstur utan vega bannaður. Þetta er mikilvægt bann, sem hefur ekki gengið nógu vel að framfylgja. Til að skýrt sé hvar megi aka á hálendinu er lagt til að kortleggja slóða sem forsvaranlegt er að aka, en slíkan grunn mætti þá nýta í leið- sögukerfi bíla sem um hálendið fara. Mikilvægt er að hafa skýrar upplýs- ingar í höndunum til að geta gengið vel um náttúruna. Þennan kortagrunn hafa samtök ferðfólks stutt dyggilega, meðal annars með mikilli vinnu einstaklinga við að leggja gögn í hann. Náttúran nýt- ur vafans um leið og ferðamenn þurfa ekki lengur að velkjast í vafa um hvaða leið er óhætt að fara. Fjölmargar úrbætur fyrir ferðamenn Rétt er að halda til haga að þrátt fyr- ir gagnrýni á frumvarp til nátt- úruverndarlaga virðast flestir sammála því að í því horfi margt til bóta fyrir náttúruvernd og að miklir hagsmunir felist í því að ljúka afgreiðslu þess. Sumar þeirra úrbóta snúa raunar beint að rétti almennings til farar um landið. Í hvítbók um náttúruvernd var bent á að styrkja þyrfti almannarétt í lögum. Almannaréttur á sér langa hefð í ís- lenskum rétti og vísar til frjálsrar farar almennings um land og vötn, þó ekki á vélknúnum ökutækjum, en um akstur er fjallað í sérstökum kafla frumvarps- ins. Í seinni tíð hefur oft borið á því að almannaréttur sé skertur og því er í frumvarpinu m.a. lagt til að opna al- menningi leið til að krefjast úrlausnar um hvort hindranir við för um landið séu lögmætar. Loks er sérstaklega ánægjulegt að nefna ákvæði þar sem gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun geti veitt und- anþágur frá banni við akstri vélknúinna ökutækja utan vega sem taki til ákveð- ins hóps einstaklinga. Þessu er ætlað að mæta þörfum fatlaðs fólks og hreyfi- hamlaðra og er gert að tillögu starfs- hóps sem hafði það verkefni að finna leiðir til að hreyfihamlaðir geti notið náttúrunnar í sama mæli og aðrir. Að- gengi fatlaðra að náttúrunni verður með þessu beinlínis aukið, verði frum- varpið að lögum. Það er sameiginlegt verkefni stjórn- valda og þeirra sem um landið fara að tryggja að landgæði erfist til komandi kynslóða. Það er mikilvægt að ná jafn- vægi á milli þess að vernda náttúruna og að ferðast um hana sér til yndisauka. Ég treysti því að þorri þeirra sem ferðast um hálendi Íslands geti verið samstiga stjórnvöldum í þeirri viðleitni að vernda og viðhalda náttúru þessa einstaka svæðis. Ný lög um nátt- úruvernd eru mikilvægt skref í þá átt. Vernd og vegir Eftir Svandísi Svavarsdóttur » Þrátt fyrir gagnrýni á frumvarp til nátt- úruverndarlaga virðast flestir sammála því að í því horfi margt til bóta fyrir náttúruvernd. Svandís Svavarsdóttir Höfundur er umhverfis- og auðlinda- ráðherra.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.