Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.03.2013, Side 20
*Heilsa og hreyfingGetum við átt kröfu til launa ef við höfum ekki unnið? »22
Þ
etta er fyrsta skrefið í þá átt
að sérsníða greiningu sjúk-
dóma að þörfum hvers og eins
sjúklings,“ segir Ines Thiele,
prófessor við Háskóla Íslands,
í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðs-
ins. Thiele er aðalhöfundur greinar sem
birtist um málið á dögunum í vísinda-
tímaritinu Nature Biotechnology. Hún
segir vísindamenn víða um heim farna að
nota líkanið, „götukortið“, við rannsóknir.
Alþjóðlegum hópi vísindamanna, þar á
meðal starfsmanna HÍ, hefur tekist að
búa til fullkomnasta kort af efnaskiptum
mannslíkamans (nefnt Recon 2), sem lýsir
því í smáatriðum hvernig líkaminn um-
breytir fæðu í orku og safnar saman öllum
hormónum og próteinum sem frumur og
vefir þurfa á að halda á degi hverjum.
Gæti bætt heilsu og lengt líf
Gen eru vissulega grundvöllur mann-
legrar tilveru, en það er virkni
þeirra, í líki afurðanna sem þau
búa til – frá ensímum og
hormónum til næringarefna
og hvataþátta – sem stjórna
því hvernig frumur hafa samskipti
sín á milli og hvernig líkamskerfi
virka, svo sem það hvernig við brjót-
um niður fæðu til að mynda orku.
„Það er eins og að vita hvar allir bílar í
bænum eru staðsettir hverju sinni, en
eiga ekkert götukort,“ segir Ines Thiele.
Íslensk erfðagreining (deCODE) hefur
rannsakað gen árum saman „og ef þær
gríðarlegu upplýsingar sem fyrirtækið býr
yfir yrðu settar inn í líkan eins og Recon
2 gætu áhrifin orðið stórkostleg og von-
andi til þess að bæta heilsu og lengja líf
fólks,“ segir Thiele.
Spennandi skref
Hún vill ekki nefna nákvæman tíma í
þessu sambandi. „Þetta verður ekki á
morgun en þó líklega á næstu árum; lík-
anið er reyndar hægt að nota strax til
rannsókna – og margir vísindamenn víða
um heim byrjuðu á því strax og við gerð-
um það aðgengilegt. Þegar er að sjá hvaða
áhrif ákveðnar aðgerðir hafa og ég álít að
þetta muni gagnast sjúklingahópum ein-
hvern tíma á næstu 10 árum.“
Hún segir hér alls ekki um neina end-
anlega lausn að ræða, miklu frekar ákveð-
ið upphaf. „Við lærum í raun eitthvað nýtt
á hverjum degi um efnaskipti, en með Re-
con 2 er vissulega stigið mjög spennandi
skref, sem mun leiða til aukinna lífsgæða
þegar fram líða stundir.“
Með því að setja það saman hvernig
gen og afurðir þeirra hafa samskipti innan
heilla netkerfa er hinn alþjóðlegi hópur
vísindamanna orðinn sannfærður um að
Recon 2 gæti hjálpað til við að afhjúpa
sumar af þeim orsökum sjúkdóma á borð
við krabbamein og sykursýki sem enn eru
óþekktar, ásamt því að leiða til betri með-
ferða. „Á endanum sé ég fyrir mér að
þetta verði notað til að sníða greiningu og
meðferð að þörfum hvers einstaklings. Í
framtíðinni gæti sú færni hjálpað læknum
að þróa tölvulíkön af efnaskiptakerfum
hvers og eins sjúklings og koma þannig
auga á áhrifamestu meðferðina við ýmsum
sjúkdómum og þar á meðal sykursýki,
krabbamein og taugahrörnunarsjúkdóm-
um,“ segir Ines Thiele.
Segja má að Recon 2 líkist Google map,
sem margir kannast við, þar sem það fell-
ir saman í eitt gagnvirkt verkfæri allar
smæstu upplýsingar um efnaskipti manns-
líkamans og gerir notendum kleift að
stækka myndina og sjá í eins miklum
smáatriðum og þeir vilja, allt niður í ein-
stakar frumur, einnig að þysja út til að sjá
víðari heildarmynd af öllum þeim mismun-
andi efnaskiptahvörfum sem gætu tengst
tiltekinni virkni. Slík greining getur af-
hjúpað virknimynstur sem að öðrum kosti
myndu ekki blasa við vísindamönnum sem
einbeittu sér að afmarkaðri verkefnum.
Ef Miklabrautin lokast …
Einn höfunda vísindagreinarinnar sem áð-
ur var vitnað til er Bernharð Pálsson, pró-
fessor í lífverkfræði við Jacobs verk-
fræðisvið Kaliforníuháskólans í San Diego.
Í tilkynningu skólans þar sem umfangi
verkefnisins er lýst, sagði: „Þetta er ekki
ólíkt því hvernig þú getur kallað fram
götumynd af einstöku húsi eða þysjað út
til að sjá hvernig húsið fellur inn í heilt
hverfi, borg, ríki, land og hnött. Og rétt
eins og Google maps dregur margs konar
gögn – myndir, heimilisföng, götur og um-
ferðarflæði – inn í verkfæri sem er auð-
velt að nota, þá dregur Recon 2 saman
gríðarlegt safn gagna úr birtum vís-
indaritum og þeim líkönum sem til eru yf-
ir efnaskiptaferli.“
Ines Thiele tekur nærtækt dæmi. „Ef
ég er stödd í Háskóla Íslands og þarf að
komast í Kópavog en Miklabraut og aðrar
venjulegar leiðir eru lokaðar, get ég séð á
götukorti hvaða aðrir möguleika ég hef.
Recon 2 getur á sama hátt hjálpað sér-
fræðingum að sjá hvaða leið sé fær fyrir
hormón og prótein ef þær hefðbundnu er
lokaðar af einhverjum ástæðum.“
Eins og ráða má af nafngiftinni var
einnig til Recon 1, sem kortlagði 3.300
efnaskiptabreytingar sem eiga sér stað í
vefjum og frumum. Recon 2 rúmlega tvö-
faldar fjölda þessara efnaskipta með því
að ná yfir meira en 7.400 ólík efnaskipti.
NÝTT „GÖTUKORT“ EFNASKIPTALEIÐA
Áhrifin gætu
orðið stórkostleg
HÓPUR ALÞJÓÐLEGRA VÍSINDAMANNA, M.A. VIÐ HÁSKÓLA ÍSLANDS,
HEFUR BIRT NÝTT LÍKAN AF EFNASKIPTAFERLUM MANNSLÍKAMANS,
„GÖTUKORT“ SEM NÝTAST MUN VIÐ MARGSKONAR RANNSÓKNIR VÍÐA.
Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is