Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.03.2013, Side 47
24.3. 2013 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 47
Myndin er í gamansömum dúr og hafði
Ágúst Ladda strax í huga varðandi hlutverk
Ófeigs. „Ég byrjaði að skrifa handritið fyrir
fjórum árum og sendi Ladda strax fyrstu
drögin.“
Nú hleypir Golli ljósmyndari brúnum og
gerir hlé á sínum störfum. „Hvað segirðu,
sendirðu Ladda fyrsta drauginn?“
Dátt er hlegið.
„Já, það má alveg orða það þannig líka.“
Gísli Örn kemur á óvart
Laddi sýndi verkefninu strax áhuga og
Ágúst segir hann smellpassa í hlutverkið.
Unga parið, Anna Sól og Ingi Brjánn, er
leikið af Ilmi Kristjánsdóttur og Gísla Erni
Garðarssyni. Ilmur hefur um árabil verið í
hópi okkar ástsælustu gamanleikkvenna en
Ágúst segir Gísla Örn sýna á sér nýja hlið í
myndinni. „Gísli Örn á eftir að koma á óvart.
Hann hefur ekki leikið svona hlutverk áður í
kvikmynd.“
Af öðrum leikurum má nefna Vigni Rafn
Valþórsson, sem leikur son Ófeigs, og Hall-
dóru Geirharðsdóttur, sem fer með hlutverk
miðilsins. Sú síðarnefnda á einmitt heima í
götunni.
„Það gerist margt á Grettisgötunni,“ segir
Ágúst, óræður á svip.
Nú, svona almennt?
„Já.“
Hvað sem það nú þýðir!
Myndin gerist að langmestu leyti í mið-
bænum. Ein sena var tekin uppi á Úlfars-
felli, lengra fór hópurinn ekki. „Þetta er
sannkölluð Reykjavíkurmynd,“ segir leik-
stjórinn.
Spurður hvort örlað hafi á draugagangi í
húsinu eftir að tökum lauk skellir Ágúst upp
úr. „Nei, allt hefur verið með kyrrum kjör-
um. Laddi leit við í fyrradag og það var eng-
in leið að sjá í gegnum hann!“
Tónlistin er eftir Karl Olgeirsson og er
Ófeigur gengur aftur hans fyrsta bíómynd.
„Ég hitti Karl í fyrsta skipti í samkvæmi hjá
Vesturporti á nýársdag. Ég fékk hann til að
semja eitt stef til prufu og þremur dögum
síðan fékk ég upphafsstefið. Það smellpass-
aði eins og allt sem komið hefur frá Karli
síðan,“ upplýsir Ágúst og skrúfar frá upp-
hafsstefinu í tölvunni. „Þetta er alveg frá-
bært.“
Skúli vakinn af værum blundi
Nú vill Golli ljósmyndari standa upp frá eld-
húsborðinu og mynda Ágúst í stofunni, lítur
húsbóndastólinn hýru auga. Þar sefur kött-
urinn Skúli svefni hinna réttlátu. Vöflur
koma á Ágúst en Golli gefur sig ekki. Hús-
bóndastóllinn skal það vera. Skúli mjálmar
geðvonskulega þegar Ágúst tekur hann upp
og hugsar Golla þegjandi þörfina. Kötturinn
fer þó mannavillt í hefnd sinni, stelur stóln-
um við eldhúsborðið af mér en ekki Golla.
Fær sér blund. Gott og vel, ég færi mig þá
bara.
Oft er sagt að kvikmynd Ágústs, Land og
synir, hafi markað upphafið að íslenska kvik-
myndavorinu árið 1980. Skömmu síðar gerði
hann Útlagann og Með allt á hreinu. Spurð-
ur hvort ekki hafi margt breyst í kvik-
myndagerð á þessum þremur áratugum
rúmum er Ágúst fljótur að kinka kolli.
„Kvikmyndagerð hefur þróast með jákvæð-
ari hætti en maður gat vonast eftir á þessum
tíma. Þar skiptir tæknin mestu máli, staf-
ræna byltingin. Nú er algjör óþarfi að leita
til útlanda, hægt er að gera bíómynd frá
upphafi til enda á Íslandi. Þegar við vorum
að gera Land og syni þurfti að senda film-
urnar utan til framköllunar og þegar tökum
lauk vorum við bara búin að sjá helminginn
af því sem við höfðum tekið. Biðum bara eft-
ir hinu. Núna sér maður efnið strax.“
Hann segir þekkingu líka hafa fleygt
fram. „Ég var með slíkt einvalalið í kringum
mig í þessari nýju mynd. Fólk sem gjör-
þekkir alla möguleika miðilsins. Íslendingar
eru upp til hópa mjög nýjungagjarnir og fyr-
ir vikið alltaf með nýjustu græjurnar. Ka-
meran sem þessi mynd er tekin á, Alexa,
kom til dæmis bara á markað fyrir um
tveimur árum.“
Tæknin dugar ekki ein og sér
En tæknin dugar ekki ein og sér. „Það þarf
alltaf gott handrit þegar búa á til kvikmynd
og góðan leik. Ég þekki engin dæmi þess að
tæknin hafi bjargað vondu handriti,“ segir
Ágúst og glottir við tönn.
Spurður um stöðuna í íslenskri kvik-
myndagerð nú um stundir vill Ágúst ekki
setja sig í dómarasæti yfir kollegunum.
„Einhvern tíma var ég spurður að því hvað
einkenndi íslenskar myndir og þá var mér
efst í huga hvað þær eru í rauninni ólíkar,
leikstjórarnir læra fagið í ólíkum heims-
hornum og myndirnar bera þess merki. Ég
fann þó einn rauðan þráð sem glittir í hér og
þar, ekki síst í myndum frá fyrstu tveimur
áratugunum, og það er áhugi á dularfullum
fyrirbærum. Þetta er í flestu sem Egill Eð-
varðsson og Kristín Jóhannesdóttir gerðu,
Friðrik Þór notar þetta oft, ég sömuleiðis. Í
Með allt á hreinu er meira að segja skyggni-
lýsing. Að gera mynd þar sem tvær persón-
ur eru ekki af þessum heimi er eðlileg þróun
á þessari hefð. Ég fór á skyggnilýsingar og
tók þátt í miðilsfundi, ennfremur fór ég á
námskeið um handanheiminn. Svona eins
konar vettvangskönnun.“
Níu ár eru frá því síðasta mynd Ágústs
var frumsýnd, Stuðmannamyndin Í takt við
tímann. Hann segir ýmsar ástæður fyrir
þessu langa hléi. „Það tók tíma að sinna
Bandalagi íslenskra listamanna sem ég gerði
í fjögur ár. Ég er líka tengdur stóru verk-
efni með dönskum framleiðanda sem hefur
dregist. Verkefni fara ekki alltaf eftir áætlun
í þessu fagi.“
Um er að ræða sögu sem gerist á Norð-
austur-Grænlandi á stríðsárunum. Töluð
verður danska og þýska í myndinni en þó
aðallega enska. „Við verðum að taka þessa
mynd að vori og samkvæmt áætlun áttum
við að vera í Lapplandi við tökur núna. Það
hefur hins vegar tafist en vonandi komumst
við í þetta næsta vor.“
Hjúkrunarkona og víkingur
Ágúst er með fleiri járn í eldinum. „Ég er
með tvö verkefni í gangi hérna heima. Ann-
ars vegar mynd um hjúkrunarkonu sem fer
að vinna á heilsugæslunni á Höfn í Horna-
firði. Það er saga um óendurgoldna ást.
Mynd í alvarlegri kantinum. Ég hef rætt við
Nínu Dögg Filippusdóttur um að taka að sér
aðalhlutverkið. Mig langar að drífa í því
verkefni sem fyrst.“
Hins vegar er Ágúst tilbúinn með handrit
að víkingakómedíunni Berserkjum sem ger-
ist í Jórvík og Vatnahéraðinu. Hermir þar af
norrænum dreng sem er uppfullur af illa
grundaðri hetjuhugsjón, eins og Ágúst lýsir
því. „Þessi tvö verkefni eru í forgangi en
ýmislegt fleira gæti komið til greina. Þessa
dagana á þó Ófeigur hug minn allan. Ég hef
þá trú að honum verði vel tekið.“
Morgunblaðið/Golli
Ófeigur gerir tengdasyni sínum lífið leitt. Laddi og Gísli Örn í hlutverkum sínum.
Vignir Rafn Valþórsson og Laddi leika feðga í myndinni. Ágúst segir Ladda smellpassa í hlutverkið.