Morgunblaðið - 23.08.2013, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 23.08.2013, Blaðsíða 29
29 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 23. ÁGÚST 2013 Skólasetning Börnin í Norðlingaskóla voru kát á skólasetningunni sem fram fór í Björnslundi sem er töluvert notaður til útikennslu. Hollustan var í fyrirrúmi og boðið upp á epli og banana. Ómar Búum við í rétt- arríki? Er Ísland rétt- arríki? Mig óraði ekki fyrir að ég þyrfti að varpa þessari spurn- ingu fram í blaðagrein. En nú er spurt að gefnu tilefni. Greint var frá því í fréttum fyrir síðustu helgi, að framkvæmdir væru hafnar við gerð nýs Álftanesvegar eftir endilöngu Gálgahrauni, sem er friðað eldhraun á náttúruminjaskrá. Það voru engar myndatökur, skálaræður eða blaða- mannafundir þegar samningar voru undirritaðir og verkið hafið. Það var eiginlega gert í skjóli nætur. Myrkraverk, sem Vegagerð ríkisins og bæjarstjórnarmeirihlutinn í Garðabæ standa að í sameiningu. Þessi framkvæmd er umdeild, enda er um óþörf og óafturkræf nátt- úruspjöll að ræða í hjarta höfuð- borgarsvæðisins. Fern umhverfis- samtök hafa því höfðað mál gegn vegamálastjóra til viðurkenningar á því að framkvæmdin sé ólögmæt. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 18. júní 2013. Þessi samtök eru: Landvernd, Náttúru- verndarsamtök Íslands, Náttúru- verndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir, allt almannasamtök á sviði náttúruverndar. Verksamn- ingur var undirritaður eftir að málið var höfðað og framkvæmdir hafnar eftir að málið var höfðað. Það sýnir offorsið sem einkennir þetta mál allt. Hér ganga opinberir aðilar fram af ótrúlegri óbilgirni, ósvífni, og valta yfir borgarana, almanna- samtök sem láta sig náttúruvernd varða. Í þessu máli er farið á svig við lög og reglur með þjösnalegri vald- beitingu gegn þegn- unum. Ólögmæt framkvæmd Þessi framkvæmd er ólögmæt af tveimur ástæðum eins og skýrt kemur fram í stefnu þeirra fernra umhverf- issamtaka sem að ofan er getið. Í fyrsta lagi er framkvæmdin ólög- mæt vegna þess að það umhverfis- mat sem fyrir liggur er ellefu ára gamalt og er mat á allt annarri framkvæmd en þeirri sem nú er haf- in. Umhverfismatið stenst því ekki lög. Þess vegna ber að stöðva þessa framkvæmd. Í öðru lagi er ekkert gilt fram- kvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni. Framkvæmdaleyfi sem Vegagerðin styðst við var gefið út árið 2009 og fellur úr gildi lögum samkvæmt hefjist framkvæmdir ekki innan árs. Engar framkvæmdir hófust innan þess tíma. Vegagerðin og Garðabær hengja hatt sinn á það að fram- kvæmdir við veg eftir Gálgahrauni endilöngu hafi hafist með gerð hringtorgs við Bessastaðaveg. Það er út í hött og sýnir ótrúlegan vald- hroka stjórnvalda. Hringtorgið og rúmlega 200 metra vegarspotti var inni á yfirráðasvæði annars sveitar- félags og getur því ekki með neinum hætti tengst framkvæmdaleyfi Garðabæjar. Garðabær hafði ekkert með málefni Álftaness að gera þeg- ar framkvæmdaleyfið var gefið út. Þess vegna er það lögleysa að segja gerð hringtorgsins upphaf vega- gerðar um Gálgahraun. Mikið í húfi Á fjölmennum borgarafundi, sem Hraunavinir efndu til í safnaðar- heimili Vídalínskirkju 29. nóvember síðastliðinn, sagði Ómar Ragn- arsson náttúruverndarfrumkvöðull: „Ef við getum ekki bjargað þessu hrauni hér í hjarta þéttbýlisins get- um við ekki bjargað neinu í nátt- úruvernd hér á landi.“ Það eru orð að sönnu. Ráðamenn, ráðherrar, hafa hér brugðist, hver á fætur öðr- um, og láta yfirganginn viðgangast. Ögmundur Jónasson óskaði eftir fresti, sem fyrirfram var líklegt að ekki mundi skila neinu. Sú varð og raunin. Hanna Birna Kristjánsdóttir núverandi ráðherra vill ekkert gera. Vegagerðin og Garðabær fara sínu fram. Svandís Svavarsdóttir um- hverfisráðherra gerði ekkert í mál- inu og bar við valdþurrð. Hún hefði getað stöðvað málið. Hún hefði get- að beint tilmælum til málsaðila um að láta fara fram nýtt umhverf- ismat. Ekki væri boðlegt við jafn- mikilvæga framkvæmd að styðjast við meira en tíu ára gamalt um- hverfismat, enda nú um allt aðra framkvæmd að ræða en gamla mat- ið miðaðist við. Heldur væri ekki hægt að vísa til framkvæmdaleyfis sem væri fallið úr gildi. Það er mikið í húfi, en fyrst og fremst er þetta löglaus framkvæmd og þess vegna hefur mál verið höfð- að til að stöðva hana. Þetta mál snýst um margt. Það snýst um nátt- úruvernd, óafturkræf skemmdar- verk á náttúruperlu í hjarta mesta þéttbýlis á Íslandi. Það snýst um siðferði og trúverðugleika opinberra stofnana eins og Vegagerðar ríksins og kjörinna fulltrúa Sjálfstæðis- flokksins sem mynda meirihluta í bæjarstjórn Garðabæjar. Það snýst um það hvort opinberum aðilum eigi að leyfast að fara á svig við lög og reglur með útúrsnúningum. Það snýst um mátt almannasamtaka sem starfa á sviði náttúruverndar á Íslandi. Fyrst og síðast snýst þetta mál þó um það hvort við Íslendingar búum í réttarríki eða einhvers konar ban- analýðveldi þar sem hið opinbera og fulltrúar þess stjórna með geðþótta- ákvörðunum og lúta ekki lögum. Það er kjarni málsins og á það er nú látið reyna fyrir dómstólum. Eftir Eið Svanberg Guðnason » Verksamningur var undirritaður eftir að málið var höfðað og framkvæmdir hafnar eftir að málið var höfð- að. Það sýnir offorsið sem einkennir málið. Eiður Guðnason Höfundur er fyrrverandi umhverfisráðherra. Er Ísland réttarríki?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.