Læknablaðið - 15.02.2010, Blaðsíða 55
U M R Æ Ð U R
0 G
F R É T T I R
K R E P P A N
En fátækt og hin félagslega niðurlæging sem henni
fylgir hefur ekki síður áhrif á börn en fullorðna."
Hann bendir að lokum á að rannsóknir sýni
að börn sem líði skort af einhverju tagi og búi við
versnandi andlega heilsu muni síðar á ævinni
njóta verri líkamlegrar heilsu en ella.
„Þetta eru einstaklingar sem rannsóknir hafa
sýnt fram á að taki meiri áhættu með heilsu
sína og hirði minna um hana en aðrir. Þeir eiga
frekar á hættu að ánetjast áfengi og tóbaki, fá
lífsstílssjúkdóma sem tengjast slæmu mataræði og
lenda frekar í slysum vegna ógætilegrar hegðunar
eða skertrar dómgreindar. Það er því margt að
varast þegar huga skal að vörnum við verstu
mögulegum áhrifum kreppu, þó íslenskt samfélag
virðist að mörgu leyti vel í stakk búið til að takast
á við hana."
„Stúlkur gætu upplifað mintii frjósemi þegar þær komast
á barneignaraldur," segir Nick Spencer barnalæknir og
prófessor emeritus við Wariuick háskóla.
Athugasemd
Björn
Gunnarsson
bjorn.gunnarsson@hve.is
Rún
Halldórsdóttir
Höfundar eru svæfingalæknar
á Sjúkrahúsi Akraness.
í síðasta tölublaði Læknablaðsins (1/2010) er
viðtal við Björn Zoéga, forstjóra Landspítalans,
þar sem harm meðal annars fjallar um sparnað
í heilbrigðiskerfinu og starfsemi sjúkrahúsanna
í kringum Reykjavík. Þar kemur hann inn
á svokallaðar „hagkvæmnisathuganir" og er
þar væntanlega að vitna í skýrslu starfshóps
heilbrigðisráðuneytisins um sjúkrahúsþjónustuna
á suðvesturhorninu og segir að þar komi glögglega
í ljós hversu óhagkvæmt núverandi fyrirkomulag
sé.
Þar er fyrst til að taka að mjög margt er við
þessa skýrslu heilbrigðisráðuneytisins að athuga
og of langt mál að koma með þær athugasemdir
hér enda hefur ráðuneytið fengið þær til sín.
Rekstur Sjúkrahússins og heilsugæslunnar á
Akranesi (áður SHA) hefur verið til fyrirmyndar
um áraraðir. Starfsmenn hafa undanfarið tekið á
sig umtalsverða kjaraskerðingu til að ekki þyrfti að
segja upp fólki. Það er erfitt að skilja að hagkvæmt
geti verið að leggja niður slíka stofnun og flytja
alla starfsemi til Landspítala sem virðist ofhlaðinn
verkefnum og glímir við mikinn hallarekstur. Fyrir
örfáum dögum var frétt í Morgunblaðinu um að
spítalinn væri kominn nærri öryggismörkum
hvað mönnun áhrærir; samt segist yfirstjórn
Landspítala geta tekið við flestum verkefnum
kragasjúkrahúsaima með litlum tilkostnaði.
Ekki er efi í okkar huga að Landspítalinn er
„endastöð" þegar upp koma mjög alvarleg tilfelli.
En fæst tilfelli eru alvarleg og margt má gera og
er gert á minni stofnunum. Ummæli forstjóra
Landspítala um að bakvaktir á sjúkrahúsunum
í kringum Reykjavík veiti falskt öryggi og séu
einungis til þess að hækka laun eru ómerk og
ber að vísa til föðurhúsanna. Það er naumast
stórmannlegt að gera lítið úr vinnu annarra. Við
trúumþví að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk
um allt land vinni jafnvel fyrir kaupinu sínu og
starfsfólk Landspítalans.
Landspítalinn er sjúkrahús allra landsmanna
og það er öllum í hag að góð samvinna sé við
sjúkrastofnanir um allt land. Sparnaðar- og
hagræðingarkröfur á hendur Landspítala mega
ekki verða til þess að vegið sé með óréttmætum
hætti að öðrum stofnunum. Landspítalinn verður
líka að hagræða; það er ekki traustvekjandi að ætla
einhverjum öðrum að spara fyrir sig.
LÆKNAblaðið 2010/96 127