Þjóðlíf - 01.06.1989, Side 55
VIÐSKIPTI
Þrátt fyrir öfluga sameiningu og sterka bakhjarla gengur fremur illa hjá Granda h.f. í
Reykjavík.
íslands á sínum tíma og sú staðreynd að ekki
tókst að bræða saman, hafi ekki átt stóran
þátt í gjaldþroti því sem Flugleiðir stóðu nán-
ast frammi fyrir um 1980?
ímynd skapast m.a. af þeim starfsanda
sem innandyra ríkir, en einnig af því hvernig
fyrirtækin hafa kynnt sig á markaði, í fjöl-
miðlum og víðar. Hefur verið lögð áhersla á
traust eða nýjungagirni? Af þessu ræðst
nokkuð til hvaða hóps viðskiptavina það
höfðar. Renni tvö fyrirtæki með ólíka ímynd
saman í eitt er hætt við að ímynd nýja félags-
ins verði rnjögruglingsleg — a.m.k. þar til ný
ímynd hefur verið sköpuð. Og á meðan kann
nýja fyrirtækið að verða fyrir miklum skaða.
People Express hafði frá stofnun ímynd sem
flugfélag lágra fargjalda, rekið af mikilli hag-
kvæmni sem m.a. réðst af því að starfsfólk
lagði sig hart fram og gekk í öll störf, en veitti
lágmarksþjónustu. Frontier félagið var hins
vegar flugfélag hárra fargjalda, sem veitti
mikla þjónustu. Eftir sameiningu þessara
tveggja félaga vissi almenningur ekki lengur
við hverju hann átti að búast af félaginu.
Markaðsstefna felur m.a. í sér að skapa
fyrirtæki ímynd, en einnig hvaða vörur og
þjónustu boðið er upp á og hvaða söluað-
ferðir eru notaðar. People Express og Front-
ier veittu mjög ólíka þjónustu, sem kann að
hafa gert erfitt fyrir um samruna. Samvinnu-
ferðir og Landsýn buðu áður en þær samein-
uðust upp á mjög svipaða þjónustu og reru á
áþekk mið, þ.e. þau félagasamtök sem að
baki þeim stóðu. Það kann að hafa átt þátt í
því hversu sameining þeirra tókst vel.
Ef gengið er út frá því sem vísu að þessir
þrír þættir hafi grundvallar áhrif á hvernig
samruni tekst, þá má furðu sæta hversu lítill
gaumur þeim er gefinn í umræðum um sam-
einingarmál hér á landi. Mun meira heyrist
um hrein tæknileg atriði, s.s. mat á eignum
og úthlutun stjórnunarstóla. En þessi atriði
sýna hversu samruni er flókinn og áhættu-
samur. Mikilvægt er að réttar forsendur séu
fyrir sameiningu eigi hún að heppnast og
verða báðum til framdráttar.
Óvinsamleg yfirtaka
Fjórða samrunadæmið (sem ekki styðst
við íslenskan raunveruleika eins og hin þrjú
að ofan) er af öflugu framleiðslufyrirtæki
sem reynir að sölsa undir sig stórt skipafélag;
fyrirtækið býður hluthöfum skipafélagsins
að kaupa hlutabréf þeirra fyrir mun hærra
verð en gangverð bréfanna gefur tilefni til.
Yfirlýst markmið fyrirtækisins: að ýta van-
hæfum stjórnendum skipafélagsins til hliðar;
að nýta betur samkeppnismöguleika félags-
ins og auka hagnað þess.
Hvenær kemur að óvinsamlegum yfirtök-
um í íslensku atvinnulífi? Ef hugsað er til
vinsælda þessarar aðferðar erlendis þá má
gera ráð fyrir að einhver hérlend fyrirtæki
velti henni fyrir sér. íslenskum fjölskyldum
og sérhópum eru eign og ítök í fyrirtækjum
að vísu fastari í hendi en gerist víða annars
staðar, en líklegt má telja að eignaraðilar
hugsuðu sig tvisvar um ef þeir fengju einstakt
tilboð um að losna við eignarhluti sína á
yfirverði.
Yfirtökuaðferðin byggir á því að rekstrar-
möguleikar þess fyrirtækis sem sótt er að séu
í raun meiri en stjórnendum þess hefur tekist
að sýna fram á. Því beinist aðförin ekki síst
að stjórnendunum, sem ekki eiga mikla
möguleika á að stjórna áfram ef yfirtakan
tekst. En þeir geta samt sem áður hagnast á
henni: í Bandaríkjunum hafa verið fundnar
upp svonefndar „gullslegnar fallhlífar" sem
opnast um leið og yfirtakan kemst í höfn og
skila vænum fjárfúlgum í vasa stjórnenda;
þær eru e.k. mútur til stjórnendanna fyrir að
berjast ekki gegn yfirtökunni. Þetta er dæmi
um spillingu sem fylgt hefur samrunaæðinu
þar vestra. Og af nógu er að taka: margs
konar ráðgjafa- og fjármálafyrirtæki hafa
hagnast verulega á að benda á og undirbúa
mögulegan samruna, þó svo að hin samein-
uðu fyrirtæki eigi litla framtíð fyrir sér. —
Líklega vona flestir að slík spilling nái aldrei
fótfestu hér á landi.
Eflir samruni atvinnulífið?
Öll meiriháttar uppstokkun í atvinnulífi
hlýtur að snerta almannaheill. Samruna-
bylgjan sem nú gengur yfir hér á landi er þar
ekki undanskilin. Hún getur haft áhrif á
markaðsaðstæður og skipt sköpum um líf og
heilsu fyrirtækja.
Samruni getur vissulega lukkast vel, eflt
hag fyrirtækja, starfsmanna og neytenda. En
til þess þurfa allar forsendur að vera réttar og
útfærslan að auki: reynslan sýnir að samruni
er ekki algild, fljótvirk aðferð sem komið
getur í staðinn fyrir erfitt innra starf, þróun
nýrrar vöru eða þjónustu og þess að vinna
þeim markað.
Of snemmt er að segja til um hvort sam-
runi fyrirtækja sem nú er efnt til muni efla
íslenskt atvinnulíf. En takist illa til verðum
við a.m.k. að vona að nægilegur sprengi-
kraftur leynist í íslensku atvinnulífi til að
taka af slakann sem sameining fyrirtækja
skilur eftir sig.
Jónas Guðmundsson
Heimildir:
Roger Sherman: The Economics of Industry
Robert Reich: Tales of a New America
American Economic Association: The Jour-
nal of Economic Perspectives, Winter
1988.
Clarence I. Drayton Jr.: Mergers and Acqui-
sitions
Nokkur nýleg dœmi
Álafoss + ullariðnaður SÍS
Bæjarútgerð Reykjavíkur + ísbjörninn
Sjóvátryggingafélagið + Hagtrygging +
Almennar tryggingar
Samvinnutryggingar + Brunabótafélagið
Gísli J. Johnsen + Skrifstofuvélar
Sæplast + Börkur + Plasteinangrun
Brimborg + Veltir
KRON + Kaupfélag Hafnfirðinga
Vífilfell + Snakkiðjan + Akra
Frjálst framtak + Fjölnir
Sveinn bakari + Nýja kökuhúsið
Bylgjan + Hljóðbylgjan + Stjarnan
Verða þau nœst?
Landsvirkjun + RARIK
Tveir eða fleiri bankar?
Alþýðublaðið + Tíminn + Þjóðviljinn
Meitillinn + Glettingur
55