Frjáls verslun - 01.07.2007, Page 68
68 F R J Á L S V E R S L U N • 7 . T B L . 2 0 0 7
Íslensku málararnir Atli og Gísli hafa farið á kostum í sjónvarpsauglýsingum Flügger-lita undanfarna mánuði og leika nú sjálfa sig undir dulnefnum í samskonar auglýsingum
í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, við góðar und-
irtektir áhorfenda. Þeir heita Henning og Flemm-
ing í Danmörku, Arne og Bjarne í Noregi og Hasse
og Lasse í Svíþjóð – en auðvitað Atli og Gísli á
Íslandi.
Atli Már Einarsson, verslunarstjóri Flügger-lita
í Keflavík, og Gísli Ágústsson, sölumaður Flügger-
lita í Skeifunni, voru leiddir saman í myndatöku í
fyrrahaust, þar sem Flügger vantaði ljósmyndir af
málurum fyrir plaköt.
Fyrirtækið keypti Hörpu-Sjöfn á Íslandi fyrir
þremur árum og rekur nú átta verslanir á Íslandi
og rúmlega 400 Flügger-málningarvöruverslanir í
Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Póllandi og Kína. Í
Danmörku eru verslanirnar rúmlega 210 talsins.
„Hingað komu menn frá Flügger til þess að taka
auglýsingamyndir af málurum í íslensku landslagi
og vorum við Atli fengnir til þess að vera með á
þeim, kannski af því að ekki voru allir til í að láta
mynda sig,“ segir Gísli og bætir við að þeir hafi
ferðast víða um land og sett sig í vinnustellingar í
fallegu umhverfi.
Vatt upp á sig
Samvinnan og fyrirsætustörfin tókust hins vegar
svo vel að nokkru síðar var kallað á þá félaga til
þess að taka upp sjónvarpsauglýsingu líka. „Við
vorum í Danmörku í 3-4 daga og tókum upp sex
auglýsingar fyrir Ísland sem þóttu ansi vel lukk-
aðar,“ segir Atli.
Þegar útkoman var skoðuð betur varð svo úr, að
þeir voru kallaðir til öðru sinni og tóku þá upp 11
auglýsingar í stúdíói í Kaupmannahöfn sem nú eru
leiknar í Danmörku, Svíþjóð og Noregi og víðar,
meðal annars á TV2, Viasat og Discovery.
„Þeim leist það vel á okkur að þeir vildu fá
okkur til að auglýsa meira fyrir kompaníið og köll-
uðu því á okkur út til Danmerkur aftur. Skandinav-
íska herferðin hefur vakið mikla lukku skilst mér,“
segir Gísli.
Atli og Gísli setja sig í skemmtilegar stellingar í
auglýsingunum og bregða meira að segja undir sig
betri fætinum og dansa við dillandi mambótónlist.
„Leikstjórinn stjórnaði svipbrigðum okkar og
sagði okkur svo að dansa. Þá gerði maður það,“
segir Gísli ennfremur, en vill alls ekki meina að
hann sé náttúrutalent í dansi. „Ég veit það nú
ekki, en leikstjórinn var að minnsta kosti afar
ánægður með frammistöðuna og sagði meira að
segja að við stæðum okkur betur en margir þekktir
leikarar.“
Með tveggja ára samning
Þeir Atli skrifuðu undir tveggja ára samning við
Flügger og segir Gísli það hafa verið skemmtilegt
að koma í upptökuver og fylgjast með umstanginu
og öllum þeim hópi sem kom að gerð auglýsing-
arinnar; leikstjóra, aðstoðarleikstjóra, handritshöf-
undum, ljósa- og sviðsfólki og fleirum og fleirum.
„Danirnir eru léttir og kátir og það var gaman
að kynnast þessu ferli og sjá hvað það tekur langan
tíma að taka upp nokkurra mínútna auglýsingu.
Mér finnst fólk almennt mjög jákvætt og því virðist
þykja útkoman rosalega flott.“
Það var fyrir algjöra tilviljun að málarameistararnir Atli Már Einarsson og Gísli Ágústsson
voru fengnir til að auglýsa fyrir Flügger. Núna eru þeir orðnir vanir myndverum, komnir með
samning og birtast í auglýsingum á öllum Norðurlöndunum.
TEXTI: KRISTÍN HELGA
EINARSDÓTTIR
MYND: FRÁ FLÜGGER
S A G A N Á B A K V I Ð H E R F E R Ð I N A
HERFERÐIN:
ARNE OG BJARNE
OG HASSE OG LASSE