Læknablaðið - 01.05.2015, Blaðsíða 15
LÆKNAblaðið 2015/101 247
R a n n s Ó k n
Mikill munur var á holdafari milli hópanna. Börn með þroska-
hömlun voru með 20% hærra hlutfall af líkamsfitu og um 40%
hærri summu húðfellinga. Nærri helmingi fleiri börn með þroska-
hömlun greindust með offitu en almenn skólabörn, sé miðað við
hlutfall líkamsfitu og ef BMI-stuðullinn var notaður voru þriðjungi
fleiri börn með þroskahömlun flokkuð í ofþyngd eða offitu. Óvenju
lágt hlutfall almennra skólabarna greindist með offitu samkvæmt
BMI og eru tölur í þessari rannsókn áþekkar því sem mældust
hjá börnum á þessum aldri fyrir 10-30 árum síðan.2,3 Ekki er ljóst
hvort þessar niðurstöður gefa til kynna að tíðni offitu fari lækk-
andi eða hvort þetta úrtak hafi verið óvenju grannt en munurinn á
hópunum væri samt mikill þótt um 5% samanburðarhópsins hefði
flokkast of feitur eins og nýjustu tíðnitölur á höfuðborgarsvæðinu
gefa til kynna.2 Niðurstöðurnar hjá börnum með þroskahömlun
eru sambærilegar þeim sem fundist hafa í erlendum rannsóknum
en þar voru 40% barna með þroskahömlun flokkuð í ofþyngd eða
offitu og voru allt að helmingi líklegri til að vera í þessum flokk-
um en almenn skólabörn.5,6 Lítið er vitað um þróun þessara mála
á meðal þroskahamlaðra á Íslandi undanfarin ár, en nýjar rann-
sóknir á almennum skólabörnum benda til að nokkuð sé að draga
úr fjölgun barna með offitu eftir mikla aukningu síðustu áratugi.2
Hreyfiráðleggingar Embættis landlæknis segja til um 60
mínútur á dag af MVPA, en börn með þroskahömlun ná aðeins
um 24 mínútum á dag á meðan almenn skólabörn ná tæplega
60 mínútum. Það er erfitt að bera þessar tölur saman við aðrar
rannsóknir þar sem viðmiðin um hvernig skuli meta MVPA eru
nokkuð breytileg á milli landa og tímaskeiða en þessi rannsókn
staðfestir það sem margar aðrar rannsóknir á minni þýðum hafa
sýnt, að sá tími sem börn með þroskahömlun ná af MVPA er oftast
minni en hjá almennum skólabörnum.7 Áður birtar niðurstöður á
sama úrtaki þroskahamlaðra barna sýndi að hreyfing þeirra var
almennt mjög lítil, lítið var um lotur af miklu álagi og ályktanir
dregnar um að hreyfingin hafi að mestu verið til að sinna dag-
legum þörfum.8 Ekkert barn náði ráðlagðri hreyfingu að meðaltali
á dag, miðað við rúmlega 40% almennra skólabarna, sem er í
samræmi við rannsóknir Foley og McCubbin.7 Að hluta til má
skýra minni hreyfingu barna með þroskahömlun með því að þau
eru mun oftar keyrð til og frá skóla meðan algengara er að almenn
skólabörn gangi eða hjóli í skólann.8
Börn með þroskahömlun mældust með mun minna úthald en
almenn skólabörn. Almennu skólabörnin mældust þó með tölu-
vert minna úthald en í íslenskri rannsókn sem gerð var fyrir 10
árum síðan á 9 og 15 ára börnum.18 Börnin með þroskahömlun
vildu einnig síður tengjast við súrefnisupptökutækið og voru
það oftar börn með sýnilega meiri fötlun en hin. Þau börn sem
ekki náðu að uppfylla skilyrðin fyrir VO2max voru marktækt verri
(p=0,013) á PWC170 en þau sem náðu að uppfylla skilyrðin. Því
er líklegt að neikvæð tengsl séu á milli stigs þroskahömlunar og
úthalds á svipaðan hátt og Lotan og félagar 28 fundu í sinni rann-
sókn. Einungis 25% barna með þroskahömlun náðu svo viðmiðum
um æskilegt úthald á meðan 75% almennra skólabarna náðu því.
Það hefur áður verið sýnt fram á að íslensk ungmenni séu almennt
með gott úthald29 og ekki verra en gengur og gerist hjá nágranna-
þjóðunum18 en miklu minna hefur verið vitað um úthald barna
með þroskahömlun. Árangur íþróttamanna með þroskahömlun í
keppnisíþróttum sýnir samt að þeir virðast geta náð góðu úthaldi.
Jafnframt hefur verið sýnt að einstaklingar með þroskahömlun
sem byrja að stunda meðalerfiða líkamsrækt eins og göngu, bæta
úthald sitt marktækt á tveim mánuðum.28
Þanþrýstingur barna með þroskahömlun mældist hærri en
hjá almennum skólabörnum og flest börnin með þroskahömlun
sem flokkuðust með blóðþrýsting yfir viðmiðum greindust á þan-
þrýstingi. Meðalgildin fyrir blóðþrýsting í þessari rannsókn voru
nokkru lægri en í sænskri rannsókn á unglingum með þroska-
hömlun12 og í íslenskri rannsókn á ungmennum29 en einstakling-
arnir í þeim rannsóknum voru talsvert eldri, eða um 18 ára gamlir.
Hins vegar greindist mun hærra hlutfall þátttakenda í þessari
rannsókn með hækkaðan blóðþrýsting (34% barna með þroska-
hömlun og 16% almennra skólabarna). Innan við 15% sænskra
unglinga með þroskahömlun greindust með hækkaðan blóðþrýst-
ing12 og um 10% íslenskra ungmenna.29 Hafa verður í huga að þrátt
fyrir að viðmiðin sem notuð voru fyrir hækkaðan blóðþrýsting
hafi verið kynja- og aldursstöðluð, þótti sumum börnunum með
þroskahömlun ekki þægilegt að láta mæla blóðþrýstinginn. Það
gæti hugsanlega hafa valdið því að þau slökuðu ekki nægjanlega
vel á og þess vegna hafi blóðþrýstingur mælst hærri en ella.
Þótt ekki hafi mælst marktækur munur á meðalgildum barna
með þroskahömlun og almennra skólabarna á neinni af blóðbreyt-
unum, voru mun fleiri börn með þroskahömlun greind með gildi
utan viðmiða en gerðist hjá almennu skólabörnunum. Almenn
skólabörn í þessari rannsókn voru mun yngri en í rannsókn þar
sem um 9% greindust með HDL og LDL utan viðmiða29 sem er
heldur hærra en í þessari rannsókn. Hins vegar greindust 16 og
21% barna með þroskahömlun í þessari rannsókn með HDL og
LDL utan viðmiða sem meðal annars eykur líkurnar á æðakölkun.29
Sænsk rannsókn12 á unglingum með þroskahömlun greindi 64%
einstaklinga með að minnsta kosti eitt af þeim gildum sem skil-
greina efnaskiptavillu utan marka en þessi rannsókn greinir 57%
barna með þroskahömlun á sama hátt og 7% barna með þroska-
hömlun í þessari rannsókn greindust með efnaskiptavillu.
Þessi rannsókn er ekki án veikleika. Fáar stúlkur voru í hópi
þroskahamlaðra, sem skýra má með almennt færri greiningum
á þroskahömlun meðal stúlkna,30 og gerði það að verkum að
stundum vantaði afl í tölfræðina. Einnig luku færri börn með
þroskahömlun VO2max og blóðtökunni en almenn skólabörn, sök-
um fötlunar þeirra. Börn með þroskahömlun eru líka oft mun háð-
ari umhverfi sínu en almenn skólabörn, svo ekki er víst að þessar
niðurstöður séu yfirfæranlegar á þroskahömluð börn sem lifa við
annarskonar samfélagsgerð. Við teljum þó að styrkleikarnir vegi
þyngra. Úrtak barna með þroskahömlun var stórt samanborið við
aðrar rannsóknir, allar mælingar voru gerðar á hlutlægan hátt á
sama tíma og á sama hátt fyrir báða hópana og mjög lítið brottfall
var úr rannsókninni.
Ályktanir
Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að líkamlegt
ástand, svo sem holdafar, úthald, hreyfing og flestir áhættuþættir