Tímarit Máls og menningar - 01.11.1950, Side 15
JÓN BISKUP ARASON OG SIÐASKIPTIN
173
kaþólsku kirkjunnar. Þegar erkibiskup kom úr vígsluför vorið 1524,
var landið konungslaust, þar eð Kristján II. var flúinn og Friðrik 1.
hafði ekki verið hylltur. Rikisráðið hafði tekið stjórn landsins í sínar
hendur, en var forystulítið. Ólafur erkibiskup Engilbrektsson varð
þegar sjálfkjörinn leiðtogi Norðmanna og hóf ákveðna baráttu fyrir
auknu sjálfstæði þeirra. Boðað var til ríkisráðstefnu um sumarið, þar
sem Kristjáni II. var sagt upp trú og hollustu og Friðrik I. viðurkennd-
ur konungur norska ríkisins.
Þessa ráðstefnu sat nývígður biskup til Hólastóls á íslandi, Jón Ara-
son að nafni. Hann er sennilega um fertugt um þessar mundir, manna
hæstur, svo að biskupskápan tók honum rétt á hné, langleitur, slétt-
leitur, lotinn á herðar og „mikið fyrirmannlegur“. Hann var kominn
af göfuguin ættum á Norðurlandi, hafði snemma komizt til metorða
hjá Hólabiskupi, Gottskálki Nikulássyni, farið með konungs umboð í
Vaðlaþingi og hlotið Oddastað að Iéni, en hann þótti bezta brauð
landsins. Þótt Jón Arason hefði glæsilegan feril að baki, er Gottskálk
biskup andaðist, var braut hans ekki greið að biskupsstólnum. Skál-
holtsbiskup hafði andazt nokkru áður, og biskupsefni Sunnlendinga,
Ögmundur Pálsson, hafði í utanför sinni til biskupsvígslu komizt í
mikið vinfengi við Kristján konung II. og fengið umboð kórsbræðra í
Niðarósi yfir Hóladómkirkju og öllum hennar eignum „bæði til and-
Iegra hluta og veraldlegra“, þangað til löglegur biskup kæmi til stað-
arins. Þegar Ögmundur hafði fengið þetta umboð, hugðist hann ráða yfir
Hólabiskupsdæmi og biskupskosningu þar. Með harðfylgi tókst Jóni Ara-
syni þó að ná kosningu og komast utan, þótt hann væri bannsettur og
dæmdur. í Danmörku vildi svo vel til, að Kristján II., vinur Ögmundar,
var stokkinn úr landi, þegar Jón biskupsefni kom þangað, en Friðrik I.
tók honum tveimur höndum, og nú var hann kominn á bekk með helztu
höfðingjum norska ríkisins og ráðslagaði um landsins gagn og nauð-
synjar. Erkibiskup þekkti gjörla til nýja siðarins, bæði kenningar hans
og framkvæmdir. Hann hafði verið vitni að því, hvernig siðskipta-
mennirnir eirðu engu, hvorki eignum né helgum véum. Kirkjur voru
brenndar, dýrlingamyndir og annar skrúði eyðilagður, klaustur svívirt
og biskupar og prestar fangelsaðir. Aðalstefnumál hans var að efla
kirkjuna og ríkisráðið, hrista af Norðmönnum ok Dana og sameina þá
undir stjórn erfðakonungs. Skoðanir Jóns Arasonar á réttarstöðu ís-