Tímarit Máls og menningar - 01.11.1950, Síða 40
198
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
Orms Sturlusonar að Sauðafelli í Dölum 2. okt. um haustið. Þegar að
stefnudegi kom, hélt Jón þangað með 90 manns. Þeir feðgar settust í
bú Daða að Sauðafelli, en Ari gerði tilkall til þeirrar jarðar. Menn
greinir á um það, hverra erinda þeir hafi farið í Dalina. Páll E. Ölason
telur, að þeir hafi farið til þess að hlýða dómi Orms um Sauðafell og
lækka rostann í Daða án þess að hafa í hyggju að taka hann höndum
og þess vegna hafi þeir farið svo fáliðaðir. Daði treysti ekki dómi
Orms, svila Ara, og hélt því að Sauðafelli með allmiklu liði, þegar að
stefnudegi kom. Hann vildi, að málin væru lögð til alþingis, en ekkert
samkomulag náðist, og rauf þá Daði þinghelgi og kirkjugrið á þeim
feðgum, og bað sína menn ganga að þeim í fjandans nafni, eins og
hann kemst sjálfur að orði í skýrslu sinni um fundinn. Nokkrar rysk-
ingar urðu milli flokkanna í kirkjugarðinum, en Norðlendingar voru
ofurliði bornir, og lét Daði „hafa hönd á biskup Jóni og hans sonum,
Birni og Ara, og nokkrum mönnum með, lærðum og leikum. Hélt ég
þeim í varðhaldi til föstudagsins. Lét ég þá þeirra menn lausa, en oft
nefndan biskup Jón og hans sonu, Björn og Ara, hafði ég í haldi í þrjár
vikur og tvo daga betur, og það þykist ég gert hafa upp á trú og holl-
ustu við minn náðugasta herra konung, eftir þeim bréfum, sem hans
herradómur hefur innsent í landið þrjú sumur forliðin. Lét ég
þar með þessa þrjá menn lausa með 12 manna dómi, tillagi og sam-
þykki Orms Sturlusonar, sem segir sig lögmann vera. Sagði ég þá úr
minni ábyrgð með vottum. Eftir það tók Kristján skrifari, kóngsins
umboðsmann, þá í sína vakt, eftir þeirn dómi, sem þar um var gerður,
og aldrei komu þeir í mína varðveizlu né minna manna, upp frá því
þeir riðu af hlaðinu í Snóksdal, sem mörgum dandismönnum er vel
kunnugt og eg trúi mér munu vitni að verða, ef þörf gerist.“
Þetta er niðurlag skýrslu Daða um fundinn 2. október 1550 á
Sauðafelli. Margs konar heimildir eru til um þennan fund bæði í bundnu
og óbundnu máli, þar á meðal er skýrsla Orms lögmanns Sturlusonar.
Sú skýrsla er allhvassyrt í garð Daða, en hann kúgaði Orm síðar til
þess að kveða upp dóm, þar sem hann úrskurðar Jón biskup og syni
hans rétt fangaða og Daða að öllu saklausan kóngdómsins vegna, þar
eð hann hafi einungis framkvæmt skipan konungs. Kristjáni skrifara
var falið að taka við þeim feðgum og varðveita þá til næsta Öxarárþings
með aðstoð beggja lögmanna og Marteins Skálholtsbiskups.