Tímarit Máls og menningar - 01.11.1950, Blaðsíða 52
ÓLAFUR JÓH. SIGURÐSSON:
Hvolpur
ÞÁTTUR ÚR VASABÓK
1
Ég er staddur í sumarbústað við túnjaðar hjá bláu stöðuvatni. Tún-
ið er allt gullið fyrir sóleyjum og fíflum og ljóst fyrir hrafnaklukku, en
neðarlega á því, röska tuttugu faðma frá vatninu, stendur gamall bær
með vallgróin þök og tvær vingjarnlegar burstir. Ef mér verður litið
út um gluggann sé ég nokkra veiðimenn á bátum skannnt frá landi,
þeir róa ýmist um vatnið með spæni í eftirdragi eða liggj a við stjóra og
dorga í mestu makindum, kasta flugu, þræða ánamaðka á öngla og
totta pípur sínar. Sannast að segja hef ég hálfgerða skömm á þeim og
forðast því eins og heitan eldinn að líta út um gluggann. Auðvitað
veiða þeir ekki neitt, í mesta lagi einhverja titti, hugsa ég og fer háðu-
legum orðum um þessa iðjuleysingja sem spóka sig þarna í sólskininu
og reyna að ginna saklausar bleikjur á agn. Hvílík dægradvöl! Ég hef
borið veiðistöngina mína út í skúr og breitt ofan á hana poka, látið
flugnahylkið mitt á afvikinn stað, falið fyrir mér hjól og línu, stungið
girni og spónum í tóma reyktóbaksdós bak við stól úti í horni. Ég ætti
nú ekki annað eftir en fara að sólunda þessum dýrmætu dögum á sama
hátt og slæpingjarnir þarna úti á vatni, sem hafa sennilega aldrei
hugsað um vandamál nútímans stundinni lengur, hvað þá heldur reynt
að brjóta þau til mergjar. Ég er sannfærður um að þeir fá ekki bröndu,
verða ekki einu sinni varir.
Vandamál nútímans — já, ég er hingað kominn til að vinna sérstakt
verk, sem ég hef búið mig undir lengi. Ég veit ekki betur en ég hafi
lesið með harmkvælum nokkrar erlendar fræðibækur og skrifað hjá
mér fjölmargar athugasemdir varðandi efni þeirra til að verða fær um
að vinna þetta verk. í stuttu máli: ég er hingað kominn til að semja
sögu um pilt og stúlku, áhrifaríka smásögu, grundvallaða á nýjustu
\