Tímarit Máls og menningar - 01.11.1950, Síða 53
HVOLPUR
211
kenningum erlendra vísindamanna og heimspekinga, en jafnframt er
sögukorninu ætlað að verða ofurlítil skuggsjá þeirrar bölsýni sem tvær
stórstyrjaldir hafa leitt yfir æskulýð þjóðanna. Mér er engin launung
á því, að ég hef afráðið að láta piltinn sálga sér eftir miklar þrenging-
ar, en skilja við stúlkuna sjúka og örvilnaða, ef til vill geðbilaða.
Óneitanlega fellur mér illa að þurfa að fara svona með þau, en fæ þó
ekki við því spornað. Þetta á sem sé að verða raunsönn og vísindaleg
smásaga, laus við alla tilfinningasemi, hárnákvæm eins og skýrsla efna-
fræðings um tilraunir í rannsóknarstofu.
Þegar ég er búinn að fara yfir minnisblöð mín og krossa við nokkr-
ar athugasemdir sem mér virðast sérlega eftirtektarverðar, sezt ég á
stólskrifli við lítið borð úti í horni, sný baki að glugganum og fer að
skrifa. Ég skrifa mjög hægt og margles hverja setningu til að koma í
veg fyrir að óvísindaleg, úrelt eða vafasöm hugtök slæðist inn í sög-
una, ég gerilsneyði hana jafnóðum, strika út orð eins og ást og sál,
vísa miskunnarlaust á bug allri linkind og hef sífellt í huga nýjustu
uppgötvanir og kenningar. Klukkustund líður. Fyrst í stað sækist mér
verkið ákaflega seint, en smám saman færist meiri hraði í vinnubrögð
mín, það brakar í pennanum, setningarnar skunda fram hver á fætur
annarri, hlaðnar kuldalegri þekkingu og rammri bölsýni, ég er kominn
vel á veg og þykist sjá fram á að þetta verði góður vinnudagur, þegar
ég hrekk við skyndilega, legg við hlustirnar og hætti að skrifa.
Nei, mér hafði ekki misheyrzt. Óvæntur gestur er kominn heim að
sumarbústaðnum, hættulegur gestur sem getur auðveldlega glapið fyrir
mér og sett mig út af laginu. Það er hvolpur að gelta fyrir utan glugg-
ann.
Ég reyni að láta mér fátt um finnast, kreppi fingurna um sjálfblek-
unginn og ætla að halda áfram að skrifa, en kemst brátt að raun um
að hugurinn tollir ekki lengur við efnið. Hvolpurinn geltir án afláts,
béff, béff, rétt eins og hann hafi einsett sér að gera mér ókleift að
vinna. Það er ekkert undanfæri, mér er nauðugur einn kostur að reka
hann burt með skömmum og illindum, ef mér á að verða eitthvað úr
verki. Ég legg frá mér pennann og geng út.
Hundurinn bóndans situr á þúfu rétt hjá sumarbústaðnum, en grá-
flekkóttur hvolpangi hleypur kringum hann gjammandi, flýgur á hann
eins og órabelgur og vill fá hann til að eltast við sig, skýzt frá honum