Tímarit Máls og menningar - 01.11.1950, Síða 65
HVOLPUR
223
urlægingu. En haninn hikstar einungis framan í hann og hraðar sér
upp túnið, heim í ríki sitt, slæptur, krangalegur og blygðunarfullur,
eins og hershöfðingi sem hefur verið sviftur glæsilegum einkennis-
búningi og stendur allt í einu á ljótri nærbrók í augsýn heimsins. Og
þegar stélþjóðin sér hann svona hörmulega útleikinn, sjálfan lýðræðis-
bóndann, og finnur af honum lyktina, þessum mikla sundargerðar-
fugli, þá hörfar hún frá honum dauðskelkuð, fælist öll og tvístrast —
nema tvær auðmjúkar hænur, sem ég hef stundum heyrt nefndar Sölu
og Dulu: þær stara á hann höggdofa, þola ekki þessa voveiflegu reynslu,
falla báðar í öngvit um leið og hann forðar sér inn í kofann, og liggja
eins og skotnar nokkra stund. Jafnskjótt og þær rakna úr rotinu taka
þær til fótanna og hlaupa í felur, ringlaðar og fáráðlegar eins og ógæfu-
samir stjórnmálamenn. Síðan er allt hljótt í ríki hanans.
Því fer fjarri að hvolpurinn miklist af sigri sínum, líklega er honum
öngvan veginn ljóst að hér hafa gerzt afdrifarík tíðindi, því að hann
er farinn að eltast við rófuna á sér eins og ekkert hafi í skorizt, hoppa
og ólátast. Mér finnst aftur á móti að ég verði að sýna honum einhvern
sóma, þó í litlu sé. Ég býð honuin hátíðlega til kvöldverðar, fer í
gúmmístígvél og skunda niður að vatni með stöngina reidda um öxl
til að veiða okkur í soðið.
3
Og dagarnir líða, yndislegir sólmánaðardagar, þrungnir grósku og
angan. Túnið verður æ gullnara fyrir fíflum og sóleyjum og hvítblárra
fyrir hrafnaklukku, sérhver jurt keppist við að spretta. Sögupersón-
ur mínar, pilturinn og stúlkan, birtast mér daglega og vilja einatt fara
sínu fram, jafnvel segja mér fyrir verkum, en þegar hlé verður á sam-
vinnu okkar nýt ég blessaðrar veðurblíðunnar undir beru lofti. Stund-
um er ég út við eyjar á kvöldin, sit hljóður í bátnum og gleymi að
dorga, því að himinninn logar yfir mér, dumbrauð fjöll standa á höfði
í skuggsjá vatnsins, dýrðarómur berst mér að eyrum úr kjarri fyrir
handan. Stundum er ég á gangi um holt og móa, og það er eins og
lyngið sé að ávarpa mig í hverju spori, reyna að hvísla að mér ráðn-
ingu þeirrar gátu sem ég hef glímt við í vöku og svefni. Ég nem staðar
á hrjóstrugum mel og virði fyrir mér lítið blóm sem vex upp úr grjót-